02.02.1945
Sameinað þing: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í D-deild Alþingistíðinda. (6183)

205. mál, ríkið kaupi húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg í Reykjavík

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég hefði fyrir mitt leyti verið því fylgjandi, að ríkið keypti þessa húseign. Það átti kost á henni fyrir skömmu á 136 þús. kr. Þá var háttv. flm. þessarar till. erlendis, að öðrum kosti hefðu þessi kaup þá verið gerð, ef að líkum lætur. Ég sjálfur gat þá ekki beitt mér fyrir þessu máli, þar eð ég er sonur þess manns, sem átti eignina.

En þótt ég hefði getað aðhyllzt kaup á þessari eign fyrir lágt verð, þá er ekki víst, að ég fallist á að kaupa hana á 1½ millj. kr., og mun hún þó vart föl við því verði. Ég álít, að þeir hugsjónamenn, sem réðust í að kaupa þessa eign, eigi mestan rétt á henni — og þeir einir.

Ég er hins vegar ekki viss um, að síðar kunni ekki að verða álitið, að óhyggilegt hafi verið að slá þessum kaupum frá, en allt um það er ég ekki reiðubúinn að greiða atkvæði með því að kaupa á þessu verði. Ég held, að þeir, sem nú eiga eignina, eigi að eiga hana á meðan þeir ekki, af fúsum vilja, kjósa að láta hana af hendi. Þetta er mín skoðun sem alþingismanns. Sem utanrrh. vil ég segja það, að ég dreg mjög í efa, að það sé talin eðlileg ráðstöfun þeirrar samkundu, sem í mörg ár hefur átt kost á að kaupa þessa eign fyrir lítið af því, sem nú á að borga fyrir hana, að hún taki frumkvæðið að því að kaupa eignina með þeim rökum einum, að umboðsmaður vinnuveitenda þjóðarinnar vilji kaupa hana.

Ég tel því vel farið, að ef meiri hl. hæstv. Alþ. leikur hugur á að kaupa eignina, yrði þetta mál ekki útkljáð í dag, en rætt betur á þeim vettvangi sem við getum hispurslaust talað um öll drög málsins. Mun ég svo greiða mitt atkv. eins og ég hef gert grein fyrir.

Ég met þá tilhneigingu, sem fram kemur í till. hv. þm., að geyma ríkinu til handa verðmæta eign, sem ég álít, að það ætti að eiga, en tel utanrrh. skylt að óska eftir frekari viðræðum við hv. þm., og þá á öðrum vettvangi, áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

Vildi ég svo óska, að ekki færu fram um þetta langar sérstakar umr. að þessu sinni.