02.02.1945
Sameinað þing: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í D-deild Alþingistíðinda. (6185)

205. mál, ríkið kaupi húseignina nr. 11 við Fríkirkjuveg í Reykjavík

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, en eins og hv. flm. tók fram, hef ég ekki gefið út sérstakt nál., en það stafar af því, að ég er sammála hv. flm. um það, að mjög sé æskilegt, að ríkið eða Reykjavíkurbær eignist þessa lóð með það fyrir augum að byggja þar myndarlegt hús, helzt mjög glæsilega byggingu, vegna staðarins, sem húsið stendur á, en ekki vegna hússins sjálfs, því að það er gefinn hlutur, að ef Reykjavíkurbær kaupir eignina, mundi það verða til þess að setja þar niður annað hús eða breyta þessu húsi mikið, vegna annarra nota, og hefur reynzt ærið kostnaðarsamt að breyta byggingum til nýrra nota.

Af þessum ástæðum hef ég ekki farið að kljúfa n., en lét mér nægja að skrifa undir nál. með fyrirvara.

Ég vil taka það fram, að ég hef verið á þingi áður, þar sem talað hefur verið um kaup á þessari eign. Þegar við höfðum þarna skrifstofur S.Í.F., var þeim félagsskap boðin þessi eign til kaups. Var gert ráð fyrir, að hún mundi kosta okkur svo sem 160 þús. kr., en ég taldi það tilboð um að gefa okkur eignina, því að hún átti að greiðast í 6% greiðslum á 30–40 árum, og voru það taldir mjög hóflegir vextir þá. Sótti ég þá fast, að þessi félagsskapur keypti eignina með þessum vildarkjörum, en lenti þar í minni hl. Mun það vera svo, eins og ég held, að hæstv. forsrh. hafi tekið fram, að ríkið hafi síðar átt kost á því eins og aðrir að fá eignina fyrir þetta fé, en hafi aldrei sýnzt að notfæra sér það. Nú fór samt sem áður svo, að það fundust nógu hyggnir menn til að kaupa þessa eign. Mér er ekki enn þá ljóst, hverjir eru eigendur þessarar eignar nú. Í grg. segir, að góðtemplarareglan eigi hana, en hvort það er reglan í heild, einstakir menn úr henni eða einstaka deildir liggur ekki ljóst fyrir, og það er erfitt að tala um seljendur, meðan maður ekki veit, hver seljandinn er.

Það, að ég get ekki greitt atkv. með þessari till. er í fyrsta lagi af því, að hún er þannig orðuð, að hæstv. ríkisstj. mundi geta ráðið því sjálf, hvort hún keypti eða ekki, því að ef eignin fæst með viðeigandi samningum, verður að sjálfsögðu að meta þessa lóð, og það gæti máske orðið 1½ millj. kr., sem e. t. v. þætti nokkuð mikið fé fyrir eina lóð, þótt falleg sé, einkum þegar við það er miðað, að eignin hefur staðið til boða fyrir ekki neitt fyrir fáum árum.

Í öðru lagi, ef reglan er orðinn eigandi og verður seljandi að eigninni, er ég ekki viss um, að komizt verði hjá svikum í kaupunum, því að þar sem þessir menn koma inn einum fingri, hafa þeir getað komið inn allri hendinni, og er lítið við það, að hið opinbera ljái þeim nokkurs fangs á sér, því að mér finnst þeir mjög ágengir við okkur í fjvn. og vilji nota sína aðstöðu til að þoka sínum hagsmunum áfram.

Mun ég af þessum ástæðum ekki greiða atkv. með till., enda þótt mér hefði þótt æskilegt, að annaðhvort ríkið eða Reykjavíkurbær hefði átt lóðina, til þess að geta reist þar virðulega og fallega byggingu.