07.12.1944
Sameinað þing: 72. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

143. mál, fjárlög 1945

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Það má að vísu segja, að tilgangslítið sé til áhrifa á mál að halda ræður, þegar svona fámennt er í deildinni. Ég tel þó rétt að segja nokkur orð til skýringar þeim till., er ég flyt á þskj. 612, einkum þar sem hv. fjvn. hlustar þó á skýringar þm.

Ég flyt hér nokkrar till. til hækkunar á vegafé í Austur-Skaftafellssýslu. Ætla ég að gera tvo töluliði þeirra sérstaklega að umtalsefni. Það hefur verið frá því skýrt, að hv. fjvn. hafi miðað till. sínar um framlög til vega við það, sem lagt var fram í fyrra í því skyni. Má segja, að eðlilegt væri að sætta sig við það í meginatriðum. Þó geta komið þar til undantekningar, og hafa tveir hv. þm. lýst því hér í kvöld.

Á fjárl. þessa árs eru veittar 12 þús. kr. til vegagerðar í Mýrahreppi. En á fjárl. ársins 1943 voru veitar 22 þús. kr. til vegagerðar í þeim hreppi. Ástæðan fyrir því, að þetta var hækkað svona í fyrra, var sú, að vegamálastjóri gerði sér vonir um að geta látið vinna nokkuð á þessum stöðum fyrir fé, sem setuliðið lagði til viðhalds vegum, en þá hafði allfjölmennt setulið aðsetur á Melatanga við Hornafjörð. Nú er það setulið flutt burtu að mestu, og hefur raunar ekkert verið framkvæmt af vegabótum fyrir fé frá því. Mér finnst því eðlilegt, að nokkur hækkun yrði gerð í þessu efni.

Hinn liðurinn, sem ég ætla að drepa á, er Suðursveitarvegur. Fyrir liggur að brúa svo nefnd Heinabergsvötn svo fljótt sem auðið er. En til þess að brúin komi að notum, þarf nokkra vegarbót vestan hennar, sem telst til Suðursveitarvegar. Hygg ég, að sú upphæð, sem ætluð er í þá sveit í till. n., muni ekki gera betur en nægja til þeirrar framkvæmdar. En á öðrum stað í sveitinni þarf óhjákvæmilega nokkra vegarbót, einkum vegna þess, að nú er notaður stærri bíll til vöruflutninga um sveitina en áður var. Hef ég fengið umkvörtun um þetta að nýju.

Ég mun fús til að taka þessar till. aftur til

3. umr. og ekki etja kappi um þær í atkvgr. nú., ef verða mætti samkomulag um þær við hv. fjvn. milli umr.

Þá flyt ég á sama þskj. till. um framlag til þriggja brúa. Fyrst er þar talin brú á Holtakíl í Mýrahreppi. Það er tiltölulega smá brú. Eins og ég hef áður drepið á, er ósmíðuð brú á Heinabergsvötn, en það verður gert á næsta ári, svo framarlega sem efni fæst. Nú getur það oft verið hagkvæmt að vinna allmikið í einu í afskekktum héruðum, þegar búið er að flytja þangað efni á annað borð. Holtakíll er mjög skammt frá Heinabergsvötnum, og mér er kunnugt um það, að vegamálastjóri telur hagkvæmt að smíða þessa smábrú á hamri í sama flóðinu og hin stærri brú verður gerð á Heinabergsvötn. Með tilliti til þess er till. flutt.

Hv. 11. landsk. þm. hefur mælt fyrir till. um brú á Laxá í Lóni, og þarf ég engu við það að bæta. Þriðja till. er brú á Jökulsá, sem er mjög til trafala í miðri sveit og hamlar einkum umferð bifreiða um sveitina. Jökulvötnin, sem koma frá rótum jökulsins, eru erfiðustu farartálmarnir í Austur-Skaftafellssýslu og torvelda umferð bifreiða tilfinnanlega. Þetta var svipað um Vestur-Skaftafellssýslu fyrir 10–20 árum, en nú er þjóðbrautin þar orðin örugg hér um bil á sýsluenda. En hið sama verður ekki sagt um Austur-Skaftafellssýslu enn sem komið er. Þar hefur verið unnið mjög lítið að brúargerðum fram að þessu.

Hv. fjvn. hefur sýnt mér þá góðvild að taka upp í till. sínar nokkurn styrk til kirkjubyggingar á einum stað í mínu héraði, þ.e. Brunnhólskirkju. Vil ég vænta þess, að n. haldi fast við þá till. sína þrátt fyrir þau tilmæli, sem hér hafa komið fram