24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (6230)

247. mál, útgáfa Alþingistíðindanna

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Með þessari till. er skorað á ríkisstj. að undirbúa fyrir næstu útgáfu Alþingistíðinda, að ræður þingmanna verði framvegis teknar á hljóðnema og síðan prentaðar eftir því handriti, sem þannig fengist. Í grg. till. er farið mörgum orðum um það ólag, sem er á útgáfu Alþingistíðindanna og réttum þingræðum. Þar er vissulega margt rétt fram tekið, og býst ég við, að þm. og starfsmenn þingsins séu sammála um, að slíkt sé óviðunandi. Það er orðið tízka, að ræður þm. séu prentaðar, án þess að þær séu lesnar yfir og leiðréttar af þm. sjálfum. Það er svo, að í staðinn fyrir að áður þótti rétt að merkja við þær ræður, sem ekki voru lesnar yfir, er nú orðið mikill meiri hl. þeirra ólesinn og fellur þá þessi athugasemd niður. Hitt er líka, að langur tími líður frá því ræðurnar eru fluttar og þar til þær eru prentaðar. Þetta stafar fyrst og fremst af annríki í prentsmiðjunum, og þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta úr þessu. Auk þess er því ekki að leyna, að margt er rétt af því, sem flm. till. segir um það, hvernig ræður eru stundum af þingskrifurunum misskildar, og jafnvel koma fram í handritunum aðrar skoðanir á þýðingarmiklum atriðum heldur en þm. halda fram, og ætla ég, að þar sé um ýmis þýðingarmeiri atriði að ræða heldur en Shakespeare og Schiller. Hitt er svo annað mál, hvort sú leið, sem hv. þm. leggur til í till. sinni, muni bæta úr öllu í þessu efni. Vissulega er það rétt, að tækni hefur fleygt stórkostlega fram, og hljóðnemar, diktafónar og slík tæki eru mikið notuð af kaupsýslumönnum og öllum þeim, sem á slíkum tækjum þurfa að halda. Hins vegar er mér ekki kunnugt um, að á þingum hafi sú aðferð verið tekin upp. Ef ætti stranglega að fylgja því að prenta ræðurnar nákvæmlega eins og þær væru teknar á hljóðnemann, ætla ég, að enginn þm. mundi vera ánægður með þá útgáfu. Það er vitað, að við umr. koma fyrir hjá beztu ræðumönnum endurtekningar, mismæli o. s. frv., sem óhjákvæmilegt er, að þeir, sem höndum fara um ræðurnar, lagfæri og leiðrétti með einhverju móti, ef tilgangurinn er ekki sá, að fá ræðurnar nákvæmlega orðréttar og eins og þær eru fluttar. Í nágrannalöndum okkar ætla ég, að ræður séu hvergi teknar á hljóðnema, heldur séu þær teknar upp af hraðriturum. Það er alger misskilningur hjá hv. flm., að það sé úrelt aðferð að láta rita ræðurnar, en hinn sorglegi sannleikur er sá — og á það ekki sérstaklega við þingskrifarana, sem nú eru, heldur hefur verið um fjöldamörg ár — að fjöldi þeirra nær ekki nógu vel þeim ræðum, sem fluttar eru í þinginu. Hitt er annað mál um vel æfða hraðritara, að þeir ná ræðum þm. fyllilega, svo viðunandi er.

Ég hefði viljað gera að till. minni, — og er út af fyrir sig þakklátur hv. þm. S-Þ, að hafa hreyft þessu nauðsynjamáli, — að þetta mál yrði tekið til rækilegrar athugunar fyrir næsta þing, en ekki bundið við, eins og í till., að taka ræðurnar á hljóðnema, heldur undirbúa nýtt skipulag um ritun þingræðna yfirleitt og prentun þeirra. Ég tel ekki viðlit, að þingskrifarar afskrifi ræður í einu eintaki. Það má til með að taka upp tvírit, og væri þá annað eintakið lagt á lestrarsal, en hitt í mesta lagi að 2 til 3 dögum liðnum lagt á borð þm. Hann mundi þá lesa ræðurnar yfir og leiðrétta þær, meðan málið væri honum í fersku minni, og er það ólíkt auðveldara en þegar langur tími, jafnvel mánuðir eru liðnir frá því málið var rætt. Enn fremur yrði að gefa þm. ákveðinn frest til þess að lagfæra og leiðrétta ræðurnar, og ef hann gerði það ekki, yrðu þær prentaðar, án þess að hann fengi að fara höndum um þær. Ýmsar fleiri ráðstafanir, sem ég aðeins nefni sem lítil dæmi, mætti gera til þess að lagfæra það skipulag, sem nú er, en auk þess mætti vafalaust gera stórfelldar breyt. á þeirri prentsmiðju, sem hefur með þetta verk að gera. Virðist sem hún sé algerlega ofhlaðin störfum, svo annaðhvort verður að bæta við prentvélum og starfsfólki eða fá aðra prentsmiðju til liðsinnis.

Ég held nú, að við athugun þessa máls komist menn að þeirri niðurstöðu, að heppilegra verði, að minnsta kosti á næstunni, meðan ekki koma alveg ný teknisk atriði til greina, að halda áfram að láta rita ræðurnar, hvort sem það yrði með venjulegri hraðritun eða vélahraðritun, og ég ætla, að reynsla í ýmsum öðrum þingum bendi til þess, en hitt er svo annað mál, að þingið verður að tryggja, að þeir hraðritarar séu starfi sínu vaxnir. Vitaskuld þýðir ekki að taka inn í þingið og láta skrifa ræður hraðritara, sem ekki hafa náð þeim hraða, að þeir nái sæmilega ræðum þm. eða séu svo lítið inni í málum og fylgist svo lítið með, að hinar herfilegustu missagnir geti komizt inn í handrit þeirra. Hvernig hægt er að tryggja þetta, skal ég ekki segja. Ef til vill væri hægt að vinna að því með námskeiðum, sem ríkið eða þingið efndi til í þessu skyni, eða ef til vill með því að bæta kjör þingskrifara, að fastráða þá t. d., en láta þá ekki alla vera lausráðna upp á viku- eða dagkaup þing eftir þing.

Ég vildi aðeins láta þessar athugasemdir koma fram. Ég er ekki trúaður á þær endurbætur, sem hv. flm. stingur upp á, en teldi mjög æskilegt, að einhverjum mönnum, sem þessum málum eru kunnugastir, t. d. skrifstofustjóra Alþ. og fulltrúa hans, væntanlega einhverjum úr hópi þingskrifara, sem mesta reynslu hefði þar, og einhverjum þm., yrði falið þetta mál til athugunar til haustsins og að gera ákveðnar till. til umbóta í þessu máli. Ég býst við, að helzt mætti vænta árangurs af því, en ekki slá því föstu nú strax að ekki meira undirbúnu máli, hvaða leið skuli í þessu farin.