24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í D-deild Alþingistíðinda. (6231)

247. mál, útgáfa Alþingistíðindanna

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég vil taka fram út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, að ég hef enga löngun til að gagnrýna þingskrifarana, hvorki þá, sem nú eru, eða hafa verið, og að vissu leyti tel ég verk þeirra mjög fullkomin, svo að ég er alls ekki að ásaka þá, heldur það skipulag, sem komið er á og sérstaklega vegna þess, að þm. eru hættir að ganga í gegnum ræðurnar. Út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði, að hugsanlegt væri að fá æfða menn til að skrifa, þá vil ég að vísu ekki neita, að það mundi vera hægt, en mér skilst samt, að hörgull hafi verið á skrifurum, eins og í raun og veru fólki til annarra starfa, og það hafa verið beinlínis erfiðleikar á því síðustu árin að fá nægilega marga og þá væntanlega nægilega undirbúna skrifara til að vinna hér. Ég býst við, að hv. þm. hafi ekki rekizt á það, því það var fyrir hans daga hér á þingi, að þá gerði ég till., sem ekki náði fram að ganga, um að knýja þm. til að leiðrétta sínar ræður með því að prenta ekki ræður, sem ekki væru leiðréttar af þm. Þetta vildi hv. Ed. ekki sætta sig við og kom heldur ekki með nein önnur ráð, þannig að málið liggur nú þar sem það var áður.

Ég get ekki sannfærzt af rökum hv. þm. um það, að út af fyrir sig væri nokkuð út á það að setja, þó að ræðurnar kæmu frá hljóðnemanum eins og þær eru, vegna þess að eins og honum mun vera kunnugra en mér, þar sem hann starfar stundum eins og dómari, þá er gagn að þingtíðindunum kannske að allmestu leyti fyrir dómara, og það skiptir ekki neinu máli fyrir þá, að ræðurnar séu ákaflega fullkomnar sem ræður og þó endurtekningar séu og ýmislegt, sem getur komið fyrir, heldur það, sem mestu máli skiptir, er, að þær séu fyrir framan dómarann eins og þær hafa verið haldnar. Eins og ég tók fram, hefur einn af helztu lögfræðingum, sem nú situr á þingi, sagt við mig, að hann hafi orðið hræddur við að sjá ræðu, sem hann hafði haldið fyrir nokkrum árum.

Ég álít eðlilegt, að þetta mál sé rætt frá ýmsum hliðum og til bóta, að hv. þm. Snæf. skyldi koma fram með nokkrar aths. Málið er vandasamt, og ég býst í raun og veru ekki við, þó till. sé orðuð þannig, að nýtt skipulag verði komið á fyrir næsta haust, en ég álít, að hv. þm. ættu að vera sammála um að hætta ekki við þetta mál, fyrr en þingtíðindin frá þeirra hendi verða eins og menn eru nokkurn veginn ánægðir með.