12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í D-deild Alþingistíðinda. (6255)

281. mál, bygging vegna hæstaréttar

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Húsnæði það, sem Hæstiréttur hefur við að búa, er algerlega óviðunandi. Það er mjög mikill raki í þessu húsi, og hefur verið rottugangur um allt þetta hús, og þegar þeir, sem eru óvanir að búa þar, sem rotta er, koma inn í hæstaréttarsalinn, má svo að orði kveða, að þeim slái fyrir brjóst. Nú er verið að gera við hegningarhúsið og verður haldið áfram, þar til því er lokið. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til að eyða rakanum og rottunni úr húsinu. Í fjárl. þessa árs eru 140 þús. kr. ætlaðar til þessara viðgerða, sem ég hygg, að muni hrökkva langt til að gera húsnæðið það viðunandi fyrir þá fanga, sem þar eru, og dómara, að húsnæðið ætti að verða viðunanlegt og íbúðarhæft. Annað mál er það, að menn greinir á um, hvort rétt muni að útvega Hæstarétti bráðabirgðahúsnæði í húsi, sem komið hefur til orða að reisa við Arnarhvol á þessu ári, ef unnt væri. Ég veit m. a. frá hæstaréttardómurunum, að þeir óska ekki eftir að fá þetta bráðabirgðahúsnæði, heldur að fá viðunanlegt frambúðarhúsnæði fyrir Hæstarétt. Ef byggt yrði við Arnarhvol í sumar, mundu skrifstofur sakadómara, borgardómara og borgarfógeta fá þar húsnæði og flytja úr því húsnæði, sem þeir hafa nú í fangahúsinu, og í Arnarhvol. Við það mundi rýmkast um vinnuskilyrði fyrir hæstaréttardómarana, þó að ekki sé hægt að gera neina viðunanlega breyt. til bóta á sjálfum dómssalnum.

Ég tel þetta mál ekki það undirbúið, að hægt sé að samþ. þessa till. eins og hún liggur fyrir, og mundi hún ef til vill þurfa nánari athugunar og undirbúnings við. En það er ekki nema vel, að hv. flm. vekur máls á þessu, og þó að það hafi verið svo, að einn fyrrv. dómstjóri Hæstaréttar hafi verið dómsmrh. í tvö ár og ekki séð ástæðu til að flytja till. um að fá úr þessu bætt, þá er það ekki nema vel, að á það sé bent af öðrum, því að það er vissulega full þörf á því, að Hæstarétti sé sýndur nokkur sómi, ekki sízt þegar svo stendur á, að nú á að fara að halda upp á 25 ára afmæli réttarins.