12.02.1945
Sameinað þing: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í D-deild Alþingistíðinda. (6257)

281. mál, bygging vegna hæstaréttar

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég held, að hæstv. dómsmrh. hljóti að hafa fengið eitthvað villandi frásagnir um vilja hæstaréttardómaranna í þessu efni, því að þótt mér komi þetta mál ekki sérstaklega við meira en öðrum þm., hefur það borizt í tal milli mín og dómaranna, og þeir hafa lýst með sterkum orðum sinni miklu óánægju yfir, hvað óhæfilegt húsnæði rétturinn hefði. Ég hef ekki haft ástæður til að ræða við þá um, hvers konar bygging ætti að koma í staðinn, en ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. ráðh., eins og líka hefur komið fram hjá kunnugum manni, hv. þm. Str., sem oft hefur starfað í réttarsölunum í þessu húsi, og það er enginn vafi, að þetta er algerlega óboðlegt fyrir Hæstarétt, og það er minnkun fyrir þjóðina að hafa réttinn í þessu húsi.

Við sjáum, hve seint gengur með allar opinberar stórbyggingar. Við vitum, að Háskólinn var húsnæðislaus í 25 ár og var þrengt upp á þessa stofnun, svo að hér var óstarfandi fyrir þingið, og má heita tilviljun, að bygging fyrir Háskólann skuli vera komin upp. Stjórnarráðshúsið er algerlega óboðlegt, og þó er ekkert um það hugsað, og enn fremur, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, á ríkið lóðir við Lækjargötuna, sem ekki hafa fengizt ákvarðaðar, beinlínis af því, að bærinn getur ekki enn ákveðið skipulag sitt og n., sem starfar að rannsóknum á því, hvernig eigi að nota þessar lóðir, hefur orðið að hætta störfum undanfarin tvö ár til að bíða eftir, að skipulagsn. bæjarins gæti gert skyldu sína. Það stendur beinlínis á yfirvöldum bæjarins að ljúka einföldum mælingum og skera úr um till., sem liggja fyrir. Og þegar á allt þetta er litið og þegar er ekki einu sinni hægt að gera neitt við Lækjargötuna og ekki hægt að gera neitt við ríkislóðirnar þar, af því að forráðamenn bæjarins geta ekki lokið þessum mælingum af, þá gæti ég hugsað, að hæstaréttardómararnir væru farnir að grána í kollinum, áður en þeir gætu fengið fyrir Hæstarétt það framtíðarhúsnæði, sem talað hefur verið um, að Hæstiréttur fengi í þessari stórbyggingu við Lækjargötuna, og það er óhugsandi, að hægt sé að láta þá búa þangað til við það húsnæði, sem þeir verða nú að hafa í fangahúsinu, en ef á hinn bóginn verður byggt við Arnarhvol, ætti Hæstiréttur að geta fengið þar sæmilegt bráðabirgðahúsnæði. Það, sem mér fannst vera mest athugavert við ræðu hæstv. dómsmrh., var það, að um leið og hann gefur fyrirrennara sínum í stj. verðskuldað olnbogaskot fyrir tómlæti hans í þessu máli, þá skuli hann, þessi ungi eftirmaður hans, vilja ganga í sömu sporin og standa á móti því, að farin verði sú eina framkvæmanlega skipun, sem líkur eru til, að fyrir hendi sé nú fyrst um sinn. Ég get þar vitnað til þess, hvernig ástatt er nú hjá Reykjavíkurbæ. Hvar eru hans opinberu byggingar, og hvar eru opinberar byggingar ríkisins hér í bæ? Mig furðar, ef hæstv. ráðh., sem hefur mikinn og réttlátan metnað fyrir þjóð sína, eins og allir dugandi menn, getur unað því, eins og kom fram í ræðu hans, að Hæstiréttur eigi að hafa áfram það húsnæði, sem er svo bágborið, að ekki er hægt að sýna það nokkrum aðkomumanni, en er á móti því, að réttinum sé séð fyrir viðunanlegu húsnæði á nýjum stað.

Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðh., fyrst um þessi mál er rætt hér, hvaða form hann ætli að hafa á því, þegar þingið er búið að sitja meira en ár og hæstv. stj. er búin að sitja nokkra stund, ef ekki á neitt að tala um það við þingið, ef nú á að fara að reisa stórbyggingu við Arnarhvol. Það er alveg ástæðulaust að fara svo að, þar sem þingið hefur ekki fram að þessu sýnt hæstv. stj. neina sérstaka móthyggju. Það er því eðlilegt, að hæstv. stj. leitaði heimildar hjá þinginu, áður en ráðizt er í þessa framkvæmd.

Ég vil svo að lokum sérstaklega óska eftir því, þegar þessari umr. er lokið nú, að málinu verði vísað til n. og n. leiti álits Hæstaréttar, vegna þess að ég hef allt aðra sögu frá hæstaréttardómurunum en hæstv. ráðh. Það getur verið að hann hafi þar á réttu að standa, en ef hæstaréttardómararnir vilja endilega vera í tugthúsinu, þá mega þeir það mín vegna.