08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

143. mál, fjárlög 1945

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég þarf ekki að hafa hér um mörg orð. Hv. frsm. fjvn. skýrði hér í gær ýtarlega þær till., sem hér liggja fyrir, og ætla ég ekki að fara út í það nema að litlu leyti. — Hv. frsm. bar sig upp undan því, hve n. hefði orðið fyrir mikilli gagnrýni. Ég fyrir mitt leyti hef ekki orðið þess mjög var, enda held ég, að það væri ekki að maklegleikum. Að vísu hef ég lesið í einu dagblaðanna, stjórnarblaði, fyrir nokkrum dögum, að talin var þar þörf á að gerbreyta fjvn. eða leggja hana niður. Ég veit ekki vel, við hvað það blað átti, hvort það átti við það, að stjórnarandstæðingar ættu að fara úr n., um það veit ég ekki. En hitt var gefið í skyn, að stj. ætti að ráða og taka að sér afgreiðslu fjárl. Þetta kann að vera rétt, en þetta fór ekkert í taugarnar á mér, fremur en margt annað, sem stendur í því hv. blaði.

En það er nú svo, að þótt ýmsum kunni ekki að líka fjárlfrv. og þær niðurstöður, sem þar hefur derið komizt að að þessu sinni, þá er það ekki sök fjvn. Það hygg ég, að öllum hv. þm. ætti að vera ljóst, að sakarinnar er að leita annars staðar. Sökin er vitanlega sú stjórnarstefna eða stefnuleysi, sem undanfarin ár hefur verið í dýrtíðarmálunum, allt frá því árið 1942. Það eru nú að koma fram afleiðingar þeirrar stefnu eða þess stefnuleysis, og munum við því miður finna þær enn betur seinna, því að nú er svo komið, — og um það verður ekki deilt, — að það er miklum örðugleikum bundið að láta fjárl. ná saman, sem kallað er, láta tekjur og gjöld standast á. Við vitum vel, að nú vantar 3 –4 tugmillj. kr., til þess að hægt sé að afgreiða tekjuhallalaus fjárl. Og þetta skeður á því ári, þegar hvað mest hefur verið veltan og góðæri í þjóðfélagi okkar og mest hefur streymt inn í landið af fé til einstaklinga og ríkis. Þó er svo komið, að nú er það mesta vandamál að ná í nægilegar tekjur til þess að standa undir útgjöldum ríkissjóðs, þeim nauðsynlegustu greiðslum, sem þarf að inna af hendi, og er það illa farið á slíkum tímum, sem verið hafa undanfarin ár og að vissu leyti eru enn þá. Og það fjárlfrv. og þær brtt. við það, sem nú liggur fyrir, eru vitanlega markaðar af stefnu þeirrar hæstv. ríkisstj., sem nú er til valda komin, eins og vænta mátti.

Ég skal nú örfáum orðum víkja að einstökum liðum fjárlfrv. og brtt., sem fyrir liggja frá fjvn. — Það hefur töluvert verið rætt hér um tekjuáætlun fjárlfrv., og hv. þm. hefur þótt hún nokkuð óvarleg að þessu sinni. Ég ber það fram sem mína skoðun, að það sé skylda fjvn. og Alþ. á hverjum tíma að reyna að áætla tekjurnar og útgjöldin á fjárl. sem næst því, sem hægt er að búast við, að það muni reynast í framkvæmd. Ég skal játa, að undanfarin ár hefur sú stefna ríkt í fjvn. og á Alþ. að áætla tekjurnar nokkuð varlega til þess að eiga þá heldur þar til góða til þess að mæta þeim hækkunum, sem óhjákvæmilega verða á gjaldabálknum, hver sem fer með stj. Það má kannske vel segja, að það verði til umframeyðslu, — ég segi ekki óþarfaeyðslu. En nú er svo komið, að ríkisstj. getur ekki treyst á það á næsta fjárlagaári, að tekjurnar fari svo fram úr áætlun, að það leiði til óþarfaeyðslu.

Um hina einstöku tekjuliði má segja, að þeir hafa verið hækkaðir um eitthvað nálægt 6 millj. kr. í frv. Og ég get vel fallizt á það, að að óbreyttu ástandi verði unnt að ná þeim tekjum, sem þar eru áætlaðar. Ég get búizt við því, — ef allt verður með skilum og ekki koma fyrir nein sérstök óhöpp á næsta ári, — að gera megi ráð fyrir, að sú tekjuáætlun muni standast. En það er víst, að þar er stýrt á yztu nöf. Það, sem mest hefur verið hækkað af tekjuliðum, er á 2. gr., verðtollurinn. Hann hefur á undanförnum árum, einkum 1942, farið mjög fram úr áætlun. En á þessum tíma, sem nú stendur yfir, er mjög erfitt að áætla hann. Nú undanfarið hefur verið mjög örðugt um að fá ýmsar vörur og verkfæri frá útlöndum, Bretlandi og Bandaríkjunum. Og ástandið er enn svo úti í heiminum, að það gefur ekki vonir um, að úr muni rakna í því efni á næstunni. Við heyrum í útvarpi nú, að heita má á hverju kvöldi, að menn brýna þjóðirnar til þess að framleiða sem mest til innanlandsnotkunar. Og ég býst við, með tilvísun til þeirra fregna, sem við fáum nú frá Evrópu, - þar sem þær þjóðir, sem nú eru frelsaðar úr klóm nazismans, haga sér þannig, að bandamenn verða að hafa her manns til þess að halda þeim í skefjum, —þá geti það orðið með öðru til þess, að torveldara muni verða fyrir okkur á næstu árum að geta fengið þau áhöld og vélar, sem við þörfnumst .og viljum fá. Enn fremur hefur skipakostur okkar minnkað á þessu hausti til flutninga nauðsynja frá útlöndum; og getur e.t.v. orðið erfitt fyrir okkur að fá þau skip í staðinn, sem við þurfum. Þess vegna er það, að þótt verðtollurinn kunni að fara fram úr áætlun, þá megum við ekki fara hærra með þennan lið.

Þá kem ég að 3. gr. Þar eru langmestar tekjur af áfengisverzluninni. Þó að ég sé enginn áfengishatari, þá blöskrar mér, þegar svo er komið, að svo fámenn þjóð sem við erum eyðir 30 millj. kr. í áfengi. Ég hélt, að þess væri full þörf að reyna að draga eitthvað úr því, ef mögulegt væri, og jafnvel þó að ríkissjóður hafi af því aðaltekjur sínar, þá eru þær mjög óvissar, því að það er fullvíst, að ef eitthvað þrengir að, þá bitnar það fyrst og fremst á áfenginu, a.m.k. er þess að vænta, að svo verði hjá flestum. Þess vegna er sá liður helzti óvarlegur. Má vera, að það sé rétt, að með óbreyttu ástandi gefi áfengisverzlunin þessar tekjur, en mér hefði fundizt nær að reyna á einhvern hátt að takmarka þau óhæfilegu kaup, sem nú eru á þessari vöru. Ástandið er nú þannig hjá okkur, að erfiðlega gengur að fá menn til nauðsynlegustu starfa við framleiðslu. Það er erfitt að fá sjómenn á báta kringum land, vegna þess að þeir þykjast ekki bera nóg úr býtum móts við aðra, sem eru í landi. Og ef atvinna okkar þrengist saman, þá bitnar það fyrst og fremst á áfengiskaupunum og á líka að gera það. Ég skal játa, að þetta er eini liður tekjuáætlunarinnar, þar sem ég er á móti meiri hl. n. Tekjuáætlun tóbakseinkasölunnar, tel ég miklu nær sanni, því að þær tekjur eru miklu árvissari en tekjur áfengisverzlunarinnar. Get ég vel búizt við, að þær nái því, sem hér er gert ráð fyrir. í heild má gera ráð fyrir, að heildartekjurnar nái því, sem þær eru áætlaðar, en meira ekki. Það má því ekki skáka nú í því skjóli, að tekjuáætlunin sé svo varleg, að þar á móti megi koma ýmis óviss útgjöld, því að nú er búið að loka fyrir það sund, og verður að taka tillit til þess við afgr. fjárl.

Ég skal þá með örfáum orðum koma að gjaldabálkinum í frv. Ég skal taka fram, að það voru aðeins fjórar till. til hækkunar, sem n. átti frumkvæði að, en þó voru þær gerðar með samþykki hæstv. stj. Skal ég fara örfáum orðum um hverja þeirra fyrir sig.

Fyrsta till. er við 3. gr., notendasíma í sveitum. Í frv. er þessi liður 100 þús. kr.; en n. fer fram á, að hann sé hækkaður í hálfa millj. kr. Um þennan lið er það að segja, að mörg undanfarin ár hefur verið mjög erfitt að fá efni til símalagninga frá útlöndum, en eftir því sem símamálastjóri upplýsti, þá er von til þess, að á næsta ári sé hægt að auka lagnir úti um landið. Þörfin er mjög brýn og eftirspurnin geysilega mikil. Veitir ekki af, þar sem svo mikið fámenni er í sveitum, að sem flestir geti fengið heimasíma til að geta sparað tíma og losnað við margs konar erfiðleika. Ég vona því, að ekki verði óánægja, þó að þessi liður verði hækkaður eins og hér er lagt til.

Þá eru það vegamálin. Fyrrv. stj. hafði lækkað mjög framlög til þjóðvega og strikað 42 þjóðvegi út. Hæstv. samgmrh. virtist fyrst á þeirri skoðun, að eins og nú væri, þá væri rétt að reyna að halda sig við frv., en með þeirri breyt., að hækkuð yrðu mjög framlög til 3–4 kaupstaðavega, en annars yrði frv. óbreytt. Þetta gat n. ekki fallizt á, því að hún vissi, að þörfin til vegagerða er mjög brýn, og sést það nú á brtt. hv. þm., að n. hefur ekki gengið of langt í því efni, því að svo að segja hver hv. þm. ber fram hækkunartill. til vega, og er það að vonum. N. fékk því áorkað með samþykki hæstv. ráðh., að vegaframlög yrðu eins á yfirstandandi ári með þeim hækkunum til einstakra vega, sem hæstv. ráðh. lagði til, en það var Krýsuvíkurvegur, Oddsskarð og Lágheiðarvegur. Sú hækkun á vegáfé, sem nú er farið fram á umfram það, sem nú er í fjárl., er eingöngu bundin við þessa þrjá svo kölluðu kaupstaðavegi. Meiri hl. n. er sammála um að reyna að halda sig við þá vegi, sem eru í yfirstandandi fjárl., að kalla óbreytta.

Þriðji liðurinn, sem n. fór fram á, að hækkaður yrði frá því, sem er í frv., er bryggjugerðir og lendingarbætur. Það hefur legið fyrir fjöldi till. og beiðna frá einstökum hv. þm., og eins og kunnugt er, þá er víða þörf mikilla umbóta í því efni. Er því full þörf á að bæta þar úr. Víða hefur það verið svo á vertíðum, að menn hafa verið í fullkomnum vandræðum með báta sína og hafa þráfaldlega misst þá, þegar ofviðri hefur skollið á. Þessi hækkun nemur rúmum 700 þús. kr., og ég held, að n. eigi ekki skilið ámæli fyrir að hafa lagt þetta til, því að ég man svo langt, að þegar fyrrv. hæstv. stj. lagði fram þetta frv., þá var deilt á hana fyrir, hvað lítið þar væri til verklegra framkvæmda. Það er líka auðséð á till., sem fram eru komnar, að n. hefur ekki gengið of langt í þessu efni, enda er það svo, að ef hin mikla nýsköpun, sem nú er svo mikið talað um í tíma og ótíma, á að fara fram, þá ríður á að hafa vegi til að koma þessum dýrmætu vélum eftir, og hafnir og lendingarbætur, svo að hinir stóru og nýju bátar geti lent þar. Það er því ekki úrtímis, þó að við aukum við hafnargerðir og lendingarbætur.

Fjórði liðurinn, sem n. lagði áherzlu á og hafði til þess samþykki hæstv. fjmrh., er í 16. gr., 1/2 millj. kr. til vélasjóðs og verkfærakaupa. Þessi upphæð er í yfirstandandi fjárl. og hefur verið notuð. Það er vitað, að eftirspurnin í þessu efni er óskaplega mikil f.h. landbúnaðarins. Þessar fjórar till. eru þær einu, sem ég man eftir, að n. hafi átt frumkvæði að. Hinar eru flestar gerðar að frumkvæði hæstv. stj., þó að n. hafi þar,í ýmsu vel getað orðið við óskum hæstv. ráðh. Ég held því, að n. eigi ekki skilið, — enda hef ég ekki orðið þess var, — þá miklu gagnrýni á hana, sem talað var um í gær. Gagnrýnin er ekki til n., hún er til þess ástands og þeirrar stefnu eða stefnuleysis, sem hefur verið undanfarin ár í dýrtíðarmálum og leitt af sér það ástand, sem nú er í fjárhagslífi okkar, svo að það skuli þurfa að koma fyrir nú á þessum mikla veltutíma, að við getum ekki afgr. fjárl. nema með milljónalánum og viðbótarsköttum, svo að nemur mörgum milljónum. Þetta eru svo hörmuleg tíðindi að þurfa að heyra ástandinu lýst eins og við heyrðum hæstv. fjmrh. gera, að það er von, að mörgum hrjósi hugur við.

Ég skal ekki að svo komnu máli minnast á brtt., sem hér liggja fyrir frá einstökum hv. þm. Þó vil ég fyrir mitt leyti fara fram á, að till. um læknishéraðastyrki verði tekin aftur til 3. umr., því að hún þarf athugunar víð. Í 12. gr. XIV er framlag til læknisvitjanasjóða og einnig í gildandi fjárl., og nú á næsta ári verða stofnuð ýmis ný læknishéruð, sem nú eru styrkt, og verða þeir styrkir þá að falla niður. Af þessum ástæðum vil ég vænta þess, að hv. flm. þessara till. taki þær aftur til 3. umr.

Ég sé ekki ástæðu til að svo komnu máli að hafa um þetta fleiri orð. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og er ég búinn að lýsa honum, að ég tel mig hafa óbundnar hendur um, hvernig ég snýst við afgr. fjárl. í þinginu. Ég vil fyrst sjá tekjuöflunarleiðirnar, sem hér hafa verið boðaðar, en ekki eru komnar fram enn. En þegar búið er að áætla tekjurnar svo hátt, að ekki eru líkur til, að þær fari fram úr áætlun, þá verður líka að athuga að hafa tekjuafganginn það ríflegan, að hann geti mætt þeim útgjaldahækkunum, sem alltaf koma, því að alltaf koma ýmsar óvissar greiðslur, sem hækka útgjöld fjárl. stórlega. Það hefur verið svo undanfarin ár og mun verða svo enn.