01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í D-deild Alþingistíðinda. (6279)

49. mál, ríkisskuldir Íslands

Flm. (Jónas Jónsson):

Hv. borgarstjórinn í Reykjavík var ekki alls kostar ánægður með till. mína, því að ef hún næði fram að ganga, gengi hún á rétt og hag bæjarfélaganna og þá náttúrlega fyrst og fremst Reykjavíkur.

Ég þykist þess fullviss, að margir vilja undirgangast að bera þennan skatt til þess að greiða með honum ríkisskuldirnar. Ég hreyfði þessu máli snemma í vetur, til þess að vita, hvort ekki væri hægt að fá fylgi úr öðrum flokkum henni til stuðnings. En þá virtist sú hugmynd, að greiða ríkisskuldirnar, ekki eiga mikið fylgi.

Hv. 3. landsk. fann að því, að farnar væru krókaleiðir í þessu máli. En á það ber að líta, að þetta er mjög óvanalegt mál. Ég tel því eðlilegt, ef á að leggja svo stóran skatt á og hér er um að ræða, þá eigi ekki að knýja það fram með meirihlutavaldi hér í þinginu.

Ég held, að hv. 3. landsk. ætti ekki að eyðileggja þetta mál með sínum velviljuðu till. Það er sama og að fella till. að vísa henni til n. Ég get ekki annað en greitt atkv. á móti því að vísa henni til n., þótt ég hefði ekki gert það undir öðrum kringumstæðum.

Þá hefur síðasti ræðumaður vikið að því, að hann væri hissa á því, að ég hafi ekki getað fylgt frv. í vetur. En þar sem ég geri nokkra grein fyrir því í þessari grg., og það er öllum kunnugt, sé ég ekki ástæðu til að fara ýtarlega út í það. Ég vil aðeins minna hv. þm. á það, að þegar málið var hér til umr. fyrir jól, bar ég fram till. um það, að lágmarkið lækkaði úr 100 þús. í 60 þús kr., sem gengju til að borga ríkisskuldirnar. Þessi till. mín var felld með öllum greiddum atkv. hér í d., og þannig markaðist aðstaðan, og skal ég koma að því síðar. Ég álít, gagnstætt því, sem hv. síðasti ræðumaður heldur fram, að það eigi ekki eingöngu að miða þetta við eins háan gróða og hann segir, ef hugsa á um ríkisskuldirnar. Hv. þm. veit það, að mþn., sem fjallaði um málið í sumar, gerði ekki ráð fyrir, að það fengjust nema 8–9 millj. kr. upp úr skattinum, og þar sem þetta var frekar alvöruleysi og þessi hv. d. vildi ekki setja þetta í samband við ríkisskuldirnar, hætti ég að hafa áhuga á málinu.

Ég vil svo víkja nokkuð að því, sem okkur ber á milli um eignaraukaskattinn. Ég hygg, að í frv., eins og það var fyrst í fyrravor, hafi verið gert ráð fyrir 80 þús. kr. lágmarki, en hafi svo verið hækkað í 100 þús. kr. Ég gerði tilraun til að færa þetta niður í 60 þús. kr., en það var fellt. Ég vil segja það hér, að ég álít í rauninni, að það, hvernig litið er á þetta mál, fari eftir því, hver tilgangurinn er. Ef það vakir fyrir síðasta ræðumanni að taka eitthvert brot af meiri háttar gróða, getur verið rétt að fara upp í 100 þús. kr., en ef menn vilja borga ríkisskuldirnar, eins og ég vil gera, teldi ég réttast, að það yrði sérstaklega lagt á mikinn gróða, en sé ekki annað en það sé líka rétt að fara niður, eða leggja eitthvað af skattinum til hliðar. Þess vegna er ég að mótmæla þessu hækkaða hlutfalli, því hér á landi er mikið af gróða fyrir neðan 100 þús. kr., sem má koma til greina gagnvart ríkisskuldunum.

Ég fer ekki út í það, sem kom fram, þegar fyrst var rætt um þetta frv., hvort bæjarfélögin og ríkið hefðu lagt of mikið á. Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að skattal. séu að vísu ægileg á pappírnum, en ekki að sama skapi í framkvæmd, og þess vegna sé í rauninni ekkert því til fyrirstöðu að líta þannig á, að svona átök mætti gera til þess að ná þessu takmarki. Hins vegar er ég sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að einmitt vegna þess að skattal. eru mjög ófullnægjandi og ófullkomin í framkvæmd, væri nauðsynlegt að hafa þar á meiri undirbúning. Ég vil aðeins, til þess að gleðja borgarstjórann í Reykjavík, sem þarf að halda, að það sé alltaf til meira í vösum borgaranna heldur en þarf að grípa til, með því að segja honum, að ég hygg, að meginið af þeim verðbréfum, sem eru í gangi á Íslandi, sleppi undan skatti. En aðalhugmyndin í þessari till. er sú, hvort við eigum að borga ríkisskuldirnar eða ekki.