01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í D-deild Alþingistíðinda. (6283)

49. mál, ríkisskuldir Íslands

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Hv. 6. þm. Reykv. áleit, að skoðanakönnun í þessu máli yrði ekki réttlát, og taldi það ósanngjarnt, ef sýslufélög og bæjarstjórnir væru fengin til að dæma um þetta. Það er ekki rétt, og ég hygg líka, að t. d. í kjördæmi hv. þm. Barð. muni vera menn, sem eru með þeim tekjuhæstu á landinu. Ég lít á þessa till. um skoðanakönnun sem tilraun til að fá að vita frá leiðandi mönnum þjóðarinnar, hvað sé þeirra álit á málinu.

Út af hinni sögulegu skýringu hv. 6. þm. Reykv. á mislukkaðri skoðanakönnun, þá er það vitanlega rétt, að skoðanakannanir geta verið mismunandi, eftir því hversu vel þær eru framkvæmdar, en hv. þm. vitnar þar í ráðh. einn, sem hafi gagnrýnt þær mjög. Ég vil benda á þann misskilning, að þessi maður var eiginlega aldrei ráðh., aðeins tökubarn í nokkrar vikur, og var aldrei talinn með, enda voru þessi ummæli hans tóm vitleysa, eins og annað, sem frá honum kom.

Þá ætla ég að víkja að hv. þm. Barð. Hann bendir á, að ekki sé víst, að slík löggjöf sem þessi standist hæstarétt. Að vísu hefur það komið fyrir hjá stærri þjóð en Íslendingum, að hæstiréttur hafi ómerkt löggjöf. Það kom fyrir í Bandaríkjunum. Um slíkt verður ekki vitað fyrirfram. Hv. þm. Barð. heldur, að hættulegt sé að setja þessi lög. Ég held það ekki, en við vitum ekki, hvað kemur á morgun, þá getur verið, að bæði háttv. þingmaður Barð. og ég verðum dauðir, en við látum þó eins og við munum ekki aðeins lifa þá, heldur miklu lengur.

Það, sem hv. 3. landsk. heldur fram, er, að það sé ófært að vísa frv. til atkvgr. í sveitarfél. og bæjarstjórnum, en slík skoðanakönnun sýnir hug manna. Ég sé ekkert að því, að þetta væri borið undir atkv., ef fáir samþ., væri bara ekki fitjað upp á því framar.

Það kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að þessari till. um atkvgr. í vor væri vísað til n. Ég er andvígur því, því að ég vil, að atkvgr. fari fram í vor, og mun halda mig við þá ósk. Ef hv. þm. vilja vísa til n., þá get ég verið sammála hv. 3. landsk. um, að til greina komi ýmsar till., t. d. till. frá hv. 6. þm. Reykv. að teygja sig lengra niður og skattleggja ekki aðeins meiri háttar gróða, eins og ég hef upphaflega haldið mér við.