29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í D-deild Alþingistíðinda. (6304)

109. mál, samgöngubætur frá Reykjavík austur í Ölfus

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. — Eins og hæstv. atvmrh. gat um, er sú fyrirspurn, sem hér um ræðir, um svipað efni og sú, sem hann var að svara. Þál., sem hér er vitnað til, var samþ. á vetrarþinginu 1944 og er á þessa leið, eins og marga hv. þm. rekur minni til:

„Alþingi ályktar að fela 5 manna nefnd að rannsaka og skila rökstuddu áliti um það, á hvern hátt verði hagkvæmast og með mestu öryggi tryggðar samgöngur milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, enda ljúki nefndin störfum svo fljótt sem auðið er.

Nefndinni ber að semja kostnaðaráætlun um þær samgöngubætur, er hún leggur til, að gerðar verði.

Fjórir nefndarmenn skulu kosnir hlutbundinni kosningu í sameinuðu Alþingi, en vegamálastjóri vera fimmti maður í nefndinni og formaður hennar.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Samkv. þál. var skipuð nefnd, og er mönnum kunnugt, hverjir eiga sæti í henni. Það hefur nú, eins og kunnugt er, í meira en 20 ár verið rætt mikið um samgöngubætur austur yfir Hellisheiði, og nú á þessu ári hafa verið samþ. tvær till. í þessu skyni, en það var einhver þm. hér áðan, sem sagði, að það væri auðséð, að ég væri ekki þingvanur, þar sem ég gerði fyrirspurnir um till., sem fram væru komnar, og taldi, að sjaldan væri von um að fá árangur af því að bera fram slíkar fyrirspurnir. Væri það helzt gert vegna kjósendanna, til þess að láta líta svo út, sem verið væri að vinna fyrir þá. Það má vel vera, að það sé gert vegna kjósendanna og það sé af því, að ég sé lítt þingvanur, að ég ber fram slíkar fyrirspurnir og ætlast til, að eitthvað sé meira gert í þessu máli en að bera fram till. og ræða þær hér innan veggja þingsalanna. Ég er eins og umbjóðendur mínir fyrir austan fjall, sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli, að ég geri jafnvel kröfur til aðgerða. Nú er það svo, að ég býst við, að n., sem skipuð var samkv. þessari þál., hafi unnið, þó að mér sé ekki ljóst, hver árangur hefur orðið af störfum hennar eða hve langt hún er komin í störfum sínum, fyrr en ég hef fengið upplýsingar um það hjá hæstv. atvmrh. Þar sem þessi mál hafa verið til umr, á Alþ. í 20–30 ár og enn ekki komin í höfn eða hafa verið leyst á neinn þann hátt, sem við getum sætt okkur við, er ljóst, að sá tími er kominn, að farið verði að krefjast aðgerða, en ekki látið sér nægja umtal. Ég er hæstv. atvmrh. þakklátur fyrir það, að hann ætlar nú að svara þessari fyrirspurn, og sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um hana, fyrr ég hef heyrt svarið.