12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í D-deild Alþingistíðinda. (6323)

208. mál, ákvæðisvinna

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Það mun hafa verið 4. des. 1944, sem hér var útbýtt í þessari d. fyrirspurn frá mér til hæstv. ríkisstj., og var þessi spurning um öflun heimilda um fyrirkomulag ákvæðisvinnu erlendis. Þessi fyrirspurn var svo leyfð, sem svo er kallað, á þingfundi 12. des. Nú er alllangt liðið síðan þetta var, komið annað ár og senn liðinn hálfur annar mánuður af því. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að svo miklu leyti sem það stendur í hans valdi, að þetta mál verði innan skamms tekið á dagskrá, svo að fyrirspurnin fengist borin upp og rædd.