08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

143. mál, fjárlög 1945

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég á hér eina brtt. á þskj. 646, það er 6. liður. — Þessi brtt. er viðkomandi Staðará í Strandasýslu og Selá, sem ég legg til, að fé verði veitt til að brúa. Ég vil taka það fram viðvíkjandi þessari brtt., að þörfin á því, að þessar ár verði brúaðar, er ákaflega brýn og aðkallandi.

Undanfarin ár var ekki gert ráð fyrir því, að brúað yrði nema lítið af þeim ám, sem nauðsynlegt var að brúa. Menn bjuggust við því, að mjög erfitt yrði að fá efni til bygginga. Þess vegna er það, að ég hef ekki farið fram á á undanförnum árum, að lagt yrði fram fé úr ríkissjóði til þess að brúa þessar ár eða aðrar í Strandasýslu, og því hefur engin á verið brúuð þar nú, að ég hygg, í 4 til 5 ár. Af þeirri ástæðu tel ég, — eins og ég hef bent á í bréfi til hv. fjvn. - að það sé fullkomin réttlætiskrafa, að sýslan fái brýr á þessar ár, aðra eða báðar. En um þörf á þessum brúm er það að segja, eins og hv. þm. er sennilega flestum kunnugt, að þessar ár, Selá og Staðará, eru tvö stór vatnsföll með stuttu millibili og renna í botn Steingrímsfjarðar. En þar norðar tekur við allfjölmenn sveit, sem er Bjarnarfjörður. Þegar íbúar þar þurfa að ferðast til Hólmavíkur, flytja að sér eða frá og koma rekstrum á haustin, þá er oft engin leið önnur en að nota ferju yfir Steingrímsfjörð. Selá er svo stórt og hættulegt vatnsfall, að það kemur þráfaldlega fyrir um hásumar, að hún er algerlega ófær, hvað þá heldur haust og vor. Þetta tvennt, að ekki hefur verið varið fé í slíkar framkvæmdir síðustu ár og þörfin óvenjumikil, eru svo sterk rök í málinu, að þær framkvæmdir ættu að ganga fyrir öðrum slíkum.

Ég er viss um það, að þeir hv. þm., sem þessu eru ókunnugir og spyrjast fyrir um vatnsfallið Selá, munu fljótt sannfærast um það, ef þeir tala við kunnuga menn um þetta mál, að Selá er ein af hættulegustu vatnsföllum hér á landi. Ég hafði a.m.k. ekki búizt við því, að sú á væri í raun og veru eins erfitt vatnsfall og hún er. Og einu sinni, þegar ég var á ferð þarna norður frá, var það svo, að einn af greindustu bændum þarna norður frá, Sigvaldi í Sandnesi, símaði til fylgdarmanns míns og bað hann í öllum bænum að þvæla mér sem mest fram og aftur yfir þessa á í þessari ferð. Það var lítill vöxtur í ánni þá, en ég fékk alveg nóg af því, því að það var svo mikið vatn í henni, þó að það kallaðist ekki vöxtur.

Um Staðará er alveg sömu sögu að segja. Hún er líka hættulegt vatnsfall. — Enn fremur kemur það til greina, að ég geri ráð fyrir, satt að segja, að það sé mjög vafasamt, að vegurinn yfir Þorskafjarðarheiði, sem fé hefur verið lagt í undanfarið, verði til frambúðar. Ég hef á ferðalagi nú nýlega átt tal um þetta við gagnkunnuga menn, sem telja það tvímælalaust, að vegurinn yfir Þorskafjarðarheiði liggi svo hátt, — hann mun liggja 100 m hærra en vegur, sem hægt væri að leggja yfir Steingrímsfjarðarheiði, — að hann sé ekki snjólaus nema stuttan tíma sumarsins, og vegalagning þar auk þess mjög erfið. Og ég geri ráð fyrir, eftir því sem hyggnustu bændur í Staðardal, sem athugað hafa þessa leið, segja mér, að t.d. í fyrra sumar hafi Þorskafjarðarheiði verið snjólaus aðeins stuttan tíma — og það mjög stuttan miðað við Steingrímsfjarðarheiði bæði nú í sumar og mörg undanfarin ár. Þessir bændur geta dæmt um þetta bæði af sjón og raun og telja þann mun feiknamikinn. Ég geri því fastlega ráð fyrir því, að niðurstaðan verði sú, að vegurinn að Djúpinu verði um Steingrímsfjarðarheiði, þó að ég viðurkenni, að til sé önnur leið að Djúpinu, sem mér hefur verið skýrt frá, en ég get ekki um nú, en ekki er það leiðin yfir Þorskaf jarðarheiði.

Það má gera ráð fyrir því, hvort sem Þorskafjarðarheiði verður fullgerð eða ekki, að leið komi samt yfir Steingrímsfjarðarheiði til Hólmavíkur og síðar á þjóðveginn vestur Dali, leið, sem yrði a.m.k. eins fjölfarin og hinir vegirnir fullgerðir. Og, eingöngu fyrir þá sök er þörf á brú á Staðará.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða um þetta frekar, það hefur ekki mikla þýðingu. Ég hef gefið á þessu þær skýringar, sem ég vænti, að hv. fjvn. taki til endurskoðunar og athugunar, þar sem ég tel engan vafa á því, að málið er mjög réttlátt, og enn fremur með tilliti til þess, sem margir hv. þm. hafa vísað til, að fjárframlög til verklegra framkvæmda í ýmsum sýslum eru svipuð og þau voru s.l. ár og á þessu ári, sem nú er að líða. En þar hef ég þá athugasemd að gera viðkomandi Strandasýslu, að það fé, sem lagt hefur verið til hafnarbóta undanfarið, hef ég ekki farið fram á, að yrði varið til hafnarbóta í þetta skipti. Og ég vil benda á, að ég álít rétt, að fé til þessara brúargerða komi í þess stað á aðra hvora brúna eða báðar.