09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í D-deild Alþingistíðinda. (6350)

65. mál, rafveitumál

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Ég verð því miður að upplýsa, að það lítur ekki sérstaklega vel út með það, að fljótt fáist leyfi fyrir efni því, sem hér er rætt um, frá Ameríku.

Það varð nú einhvern veginn svo á síðasta ári, þegar verið var að reyna að fá leyfi fyrir Reykjaneslínuna, Árnessýslulínuna og Húsavíkurlínuna, þá fékk partur af Reykjaneslínunni frekast náð fyrir augum þeirra, sem valdið hafa í þessum málum vestur í Ameríku. Var talið í haust sem leið, að fengið væri leyfi fyrir efniskaupum til línu til Keflavíkur, sem er nokkuð mikill hluti Reykjaneslínunnar, en þá var ekki hægt að fá leyfi fyrir Árnessýslu- eða Húsavíkurlínurnar. En þó varð það svo, að Keflavíkurlínan fengi frekast náð fyrir augum þeirra, sem útflutningsleyfið veittu vestur í Ameríku, að nú í dag hefur fengizt leyfi fyrir efniskaupum fyrir aðeins 35000 $ af um 150000 $ verði til Keflavíkurlínunnar. Það vantar því enn mikið á, að leyfi hafi fengizt fyrir allt efni til þeirrar línu, sem þó fann helzt náð fyrir augum þeirra, sem leyfin veita þar vestra. Og þó að við vonum, að viðbótin til þessarar línu fáist kannske áður en langt um líður, þá er samt ekki vitað, hvenær það verður. Af þessu má sjá, að það er ekki sérlega létt fyrir að fá nauðsynleg útflutningsleyfi til þessara hluta. Ég verð að viðurkenna, að mér sýnist lítil von til, að útflutningsleyfi fáist fyrir efni til Árnessýslulínunnar næstu vikur eða mánuði. Ég vil hins vegar taka fram, að ég er mjög hlynntur því, að hægt yrði að undirbúa það mál, að Árnessýslulínan gæti komizt upp svo fljótt sem hagkvæmt er. Ég hafði vegna þess þegar á liðnu ári spurzt fyrir um í Svíþjóð, hvert verð væri á efni, sem notað væri í slíkar línur, og fékk það svar, að slíkt mundi kosta lítið meira en helming á við það, sem sams konar efni kostar vestra, en hins vegar eru meiri erfiðleikar á að fá efni frá Ameríku en ég bjóst við. Nú hafa á ný verið gerðar fyrirspurnir til Svíþjóðar, hvort hægt sé nú að fá þar sambönd um slíkt efni og með hvaða kjörum, og vona ég, að ég fái svör við þessu áður en margir dagar líða. Og ef þau verða á svipaðan hátt og upplýsingar þær, sem komu þaðan í fyrra, sýnist mér, að vel geti verið álitlegast að gera ráðstafanir til að kaupa frá Svíþjóð efni í þessa línu og aðrar línur, er gera þarf nú á næstunni, í von um, að stríðinu létti bráðum eða svo fljótt, að efnið fáist flutt inn frá því landi eins eða svo að segja eins snemma og möguleikar verða til að fá það að vestan.

Ég get því miður ekkert frekar upplýst um þetta nú, en málinu skal verða fylgt eftir svo sem hægt er, og verður lögð megináherzla á að fá sem beztar upplýsingar um möguleika á að fá þetta efni frá Svíaríki. Það styrkir von okkar í þessu efni, að eins og hv. d. er kunnugt, hafa nú verið keyptar þar vélar til stórrar virkjunar fyrir Suðvesturland með árangri, sem er glæsilegur samanborið við Ameríkuverð. Málinu skal vera haldið áfram og öllum leiðum haldið opnum, sem einhverja von geta gefið, en eins og nú horfir við, tel ég, að hagkvæmustu kaupin á slíku efni verði gerð í Svíþjóð.