09.03.1944
Efri deild: 26. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í D-deild Alþingistíðinda. (6351)

65. mál, rafveitumál

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Ég skal ekki eyða mörgum orðum.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir vingjarnleg og góð svör, sem hann gaf við minni fyrirspurn, og ég leyfi mér að leggja þá merkingu í hans umsögn, að sú viðleitni, sem ég þóttist vita, að væri fyrir hendi til að gera það, sem unnt væri til að útvega þetta efni, sé raunverulega fyrir hendi. Og þegar hann hefur látið þess getið, að þetta sé nokkuð þungt í togi að fá innflutningsleyfi frá Ameríku, þá er það ekki nema æskilegur hlutur, sem sýnir mikinn vilja til framkvæmda á málinu, að leitað hafi verið fyrir sér á fleiri en einum stað, og er ekki nema gott að fá samanburð til að komast að raun um, hvað bezt gefst. Ég veit, að þeim, sem eiga að þessu að búa og hafa mikinn áhuga á þessu, leikur mikill hugur á, að þarna sé fylgt fast og ósleitilega á eftir, og vænti ég, að svo verði gert, þangað til sigur vinnst í framkvæmd málsins, og vænti ég, að það verði svo fljótt sem frekast er unnt.