28.09.1944
Efri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í D-deild Alþingistíðinda. (6363)

111. mál, erlendar innistæður

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér neitt í þessar umr., eftir að ég hafði svarað fyrirspurn þeirri, sem hér liggur fyrir. En út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. 7. landsk. þm. (KA), þá get ég ekki komizt hjá því að leiðrétta þann misskilning, sem þar kemur fram. Þessi hv. þm. virðist líta svo á og þeir menn, sem eru sömu skoðunar og hann, að hægt sé að taka erlendar innstæður landsmanna, nota þær til þess að kaupa skip, vélar og önnur tæki, án þess að greiðsla komi einhvers staðar annars staðar fram til greiðslu á gjaldeyrinum. Þetta er sú meginfirra, sem málflutningur þeirra byggist á, því að að sjálfsögðu er hægt að nota gjaldeyrinn til þess að kaupa fyrir vélar og skip og annað frá útlöndum. En það er ekki hægt að kaupa gjaldeyrinn, nema fé komi til þess einhvers staðar frá. Þetta fé er eign einstaklinga í landinu. Ef þeir vilja kaupa skip og vélar og annað, sem um er að ræða, þá geta þeir keypt gjaldeyrinn, sem þarf til þessara hluta. En að löggjafarvaldið geti gert þetta, það get ég ekki séð, því að það á sér ekki stað nema því aðeins, að það sé ákveðið með l., að þetta fé sé tekið af einstaklingum, sem eiga það nú. Því aðeins gæti ríkið ráðstafað þessum gjaldeyri, að það skaffi fé til þess að greiða fyrir gjaldeyrinn. Bankarnir eru ekki annað en fjárhaldsmenn fyrir landsmenn og þá sérstaklega fyrir þá, sem þeir ávaxta fé fyrir. Það er að vísu rétt, að formlega séð færa bankarnir gjaldeyrinn til eignar í reikningum sínum. Og það er í þeirra verkahring að kaupa hann. En þeir geta ekki keypt hann nema með því að hafa sparifé landsmanna til þess að kaupa hann fyrir, svo að hinir raunverulegu eigendur þessa fjár, sem eru erlendu innstæðurnar, eru þeir menn, sem eiga fé í bönkunum, og það eru mestmegnis sparifjáreigendur, svo sem framleiðendur, sjómenn, verkamenn og aðrir, sem hafa lagt fé til hliðar.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þessi mál eru allt annað í teoríu en í framkvæmd. Þetta, sem hv. 7. landsk. þm. er að tala um, er teoría, sem er alls ekki framkvæmanleg, nema fé landsmanna sé lagt undir ríkissjóðinn með sérstökum ákvæðum á Alþ., eða, eins og sumir hafa slegið fram, að gjaldeyrir landsmanna yrði lækkaður um helming og að það, sem fengist þá fyrir erlendu innstæðurnar í afgang, yrði yfirtekið af ríkinu. Það mætti hugsa sér þá leið. En mér virðist sú leið ekki óskyld hinu, að taka af mönnum fé þeirra og inneignir. — Þess vegna er ekki hægt að ráðstafa erlendum gjaldeyri bankanna, nema fyrir hann komi fjármunir frá þeim einstaklingum, sem fjármuni eiga í bönkunum.