28.09.1944
Efri deild: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í D-deild Alþingistíðinda. (6367)

111. mál, erlendar innistæður

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Það er aðeins örstutt aths.

Þegar hv. 2. þm. Reykv. flutti sína miklu ræðu um það, hve mikið væri hægt að gera fyrir sparifé almennings af ríkisstj., þá vakti það vonir, sem gátu bent á það, — sem ég gat um, — að hægt væri að leggja peninga í hafnargerðir, sem fé vantar til. Nú hefur sá tilgangur náðst, að samherji hv. 2. þm. Reykv., sem talaði hér í hv. þd., hefur játað það, sem þurfti að játa, að þetta væri sparisjóðsfé, sem væri í einkaeign, og að bankastjórar væru fjárhaldsmenn almennings um þetta fé. Þannig hefur þá botninn dottið úr þessari blekkingatilraun hv. þm. sósíalista. Og svo er hv. 7. landsk. (KA) kominn út á frjálsu leiðina hér, og auðvitað er það hún, sem á að fara, þannig að menn komi í bankann og fái lán eða taki út innstæður sínar og leggi í fyrirtækin, og jafnframt eru teknar innstæðurnar erlendis. Á þann hátt á þetta að fara. En þetta gerist bara allt utan við þingið og kemur því ekkert við. Hv. 7. landsk. þarf ekkert að bera kvíðboga fyrir því, að þetta fé fáist ekki á hreyfingu. En það gerist ekki fyrir hann eða hans nóta, fyrr en þeir gerast bankastjórar eða byrja á einhverju fyrirtæki. Þeir hafa nú byrjað með útgerð færeyska skipsins, og mér er sagt, að það eigi að kosta upp á það einni millj. kr. Þá er ekki óeðlilegt, að þeir fari í bankann, og ef þeir hafa næga tryggingu, má gera ráð fyrir, að þeir fái lán þar. Og svona gengur þetta með öll fyrirtæki. En það er ráðlegast fyrir hv. 7. landsk. þm, að hætta öllu tali um ráðstöfun á þessu fé hér á Alþ. Við höfum ekkert vald yfir því sem alþm.

Hv. þm. var að tala um það, að flokkur hans elski friðinn og telji það höfuðnauðsyn, að þjóðin standi nú saman. En ég vil nú spyrja þennan hv. þm., hvort hann telji, að flokkur hans sýni nú þennan friðarvilja sinn og sameiningarhug með þeim aðgerðum, sem flokksmenn hans beita nú og hafa beitt í vinnudeilum. Það er m. a. eitt gott og nærtækt dæmi um þennan friðarvilja og það, hve mjög þeir beri alþjóðarhag fyrir brjósti. Ölfusárbrúin, sem tengt hefur saman fjölbyggðustu héruð þessa lands og þurft hefur að flytja um mikið af daglegum nauðsynjum Reykvíkinga, bilaði nú um daginn. Hérna lá lífið við að tengja þegar saman aftur hina slitnu samgönguæð. En þá bannar flokkur þessa hv. þm., að fjórir smiðir, sem áttu í verkfalli hér í Reykjavík, færu austur til þess að vinna að viðgerð brúarinnar. Það mun hafa verið sagt réttilega frá því í Morgunblaðinu, að svo gæti farið, ef mikið hvessti, að brúin slitnaði alveg niður, þannig að hún eyðilegðist þá með öllu. Það gat því riðið á einni klukkustund, hvort brúin eyðilegðist eða ekki og hvort yrði þannig sambandslaust við meginhluta Suðurlandsundirlendisins í allan vetur eða ekki. En samt bannaði þessi flokkur fjórum smiðum að fara austur til þess að vinna að viðgerðinni. Hv. þm. ætti að geta gert sér ljóst, að almenningur hefur fundið þann samstarfsvilja, sem í þessu atviki felst. Þetta eina atvik vegur meira á metaskálum almenningsálitsins en allar þeirra fölsku friðaryfirlýsingar og innantóm orð þeirra um, að þeir vilji koma á allsherjarsamstarfi.

Við hv. þm. Barð. hef ég lítið að segja. Hann sagði, að hann væri ekki neinn „ambassadör“, eins og ég vildi vera láta, en ég vildi gera veg hans sem mestan með þessu. — Að því leyti, sem hann var að tala um skáldskaparhæfileika sína, þá held ég, að hann hafi gert of lítið úr sjálfum sér. Til þess að sýna hæfileika sína í þessu efni vildi ég ráða honum til þess að skrifa ræðu þá, sem hann hélt á framboðsfundi fyrir vestan, þar sem hann upplýsti, að Gústaf Svíakonungur væri að verða keisari yfir öllum Norðurlöndum og að ákveðinn bankastjóri í Reykjavík væri að vinna að því að koma Íslandi undir erlend yfirráð. Ég held, að honum væri heppilegt, ef hann vantreystir hæfileikum sínum við ritsmíðar, að skrifa niður þessa ræðu um Gústaf V. Svíakonung.