02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í D-deild Alþingistíðinda. (6378)

290. mál, lagasafn

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Svo mun vera, að Ólafur Lárusson prófessor hefur haft með höndum undirbúning þessa verks, og mun handritið hafa verið tilbúið í júní 1943. En þá er mér sagt, að þáv. dómsmrh. hafi talað um, að ekki væri rétt að byrja á prentun lagasafnsins, meðan lýðveldisstjórnarskráin væri ekki tilbúin. Síðan var handritið aftur tilbúið s. l. haust, en þá var ekki unnt að fá það prentað vegna anna í prentsmiðjunni, enda kom þá prentaraverkfallið, sem stóð í einn mánuð. Það er öllum kunnugt, að einkum á síðari hluta ársins eru mjög miklar annir í öllum prentsmiðjum, vegna þess, hve óvenjulega mikið er þá gefið út af bókum hér á landi, og margar prentsmiðjur eru þátttakendur í bókaútgáfufyrirtækjum og taka þess vegna ekki við prentun hjá öðrum. Um ríkisprentsmiðjuna er það að segja, að hún hefur vegna annarra anna ekki treyst sér til að byrja á verkinu. Ég átti tal um þetta við prentsmiðjustjórann nokkru fyrir áramót, og vildi hann þá freista að athuga, hvort ekki væri hægt að byrja prentunina í janúar eða febrúar. Úr þessu hefur þó ekki orðið, m. a. vegna þess, að nú eru heldur færri vélsetjarar í prentsmiðjunni en áður. Hún hefur miklum störfum að sinna. Þar er prentað ákaflega mikið daglega fyrir ýmis ríkisfyrirtæki, auk þess sem hin langa seta Alþingis tekur upp ákaflega mikið af starfstíma prentsmiðjunnar. Ég hafði, áður en þessi fyrirspurn kom fram, eða um miðjan janúar, átt tal við prentsmiðjustjóra ríkisprentsmiðjunnar, og hann hefur komið að máli fyrir mitt tilstilli við forstjóra einnar stærstu prentsmiðjunnar hér í bæ, og hún hafði lofað að taka til athugunar, hvort hún mundi ekki geta tekið að sér prentun lagasafnsins. Það varð dráttur á að fá svar um þetta, þangað til nú fyrir nokkrum dögum, að prentsmiðjustjóri þessarar prentsmiðju tjáði prentsmiðjustjóra ríkisprentsmiðjunnar, að hann gæti ekki tekið að sér þetta verk. Er nú um tvennt að ræða, annaðhvort að fá ríkisprentsmiðjuna til að byrja á þessu verki nú, þegar Alþingi lýkur, og freista þess, hvort hægt verður að koma því af, áður en Alþingi kemur saman aftur, sem prentsmiðjustjórinn telur mjög óvíst, eða reyna að koma lagasafninu í aðra prentsmiðju, og er þetta nú til athugunar. Ég get fullvissað hv. 6. þm. Reykv. um það, að dómsmrn. hefur fullan áhuga fyrir því að koma þessu nauðsynjamáli í framkvæmd, og ef ekki verður hægt að fá nokkurn veginn vissu fyrir því, að hægt sé að ljúka verkinu fyrir haustið í ríkisprentsmiðjunni, þá verður reynt að koma því fyrir annars staðar.