02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í D-deild Alþingistíðinda. (6380)

290. mál, lagasafn

Fyrirspyrjandi (Bjarni Benediktsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir góð og greið svör, sem sýna, að hann hefur þegar verið búinn að taka þetta mál upp. Ég vona, að sú hvöt, sem liggur í þessari fyrirspurn, verði sízt til að draga úr áhuga hans fyrir, að lagasafnið verði gefið út á ný fyrir næsta haust, því að það er áreiðanlegt, að menn fást ekki til að trúa því, að allar prentsmiðjur landsins séu í svo miklum önnum, að þær geti ekki annað þessu verki. Og ef ríkisprentsmiðjan getur ekki bætt því á sig, þá er engin ástæða til að binda sig við hana eina um það. En fyrst svo lengi hefur dregizt að prenta þetta lagasafn, þá vil ég vænta þess, að farið verði yfir handritið og felld þar inn í þau l., sem síðan hafa verið samþ., en ekki að taka ársgamalt handrit, fyrst á annað borð hefur dregizt svo lengi að framkvæma þetta verk.