08.12.1944
Sameinað þing: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

143. mál, fjárlög 1945

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég ætla ekki að hafa langt mál um till. mínar. Ég legg til, að veittar verði þúsund krónur til hjúkrunarkonu í Súgandafirði. Sú fjárveiting hefur verið í mörg ár á fjárl., en var tekin út af hv. fyrrv. fjmrh. Það er að vísu svo, að það hefur gengið erfiðlega að fá lærða hjúkrunarkonu, en samt hefur verið þarna hjúkrunarkona, og veitir ekki af að halda styrknum áfram.

Aðra till. ber ég fram um hækkun á vegafé til Hjarðardalsvegar, úr 15 þús. kr. í 40 þús. kr., og Rafnseyrarheiðarvegar, úr 85 þús. kr. upp í 120 þús. kr. Þó að báðar þessar till. verði samþ., er samt lægri fjárhæð áætluð til vega- og brúagerðar í þessu kjördæmi en var á fjárl. yfirstandandi árs.

Þá legg ég einnig til, að 25 þús. kr. verði veittar til að bæta lendingu í Alviðruvör við Dýraf jörð nálægt Núpsskóla. Það er bæði útgerðarstaður og eins lendingarstaður skólans og hins mannmarga þorps að Núpi. Hreppsbúar hafa fullan hug á að leggja fram fé og vinnu á móti, og vitamálastjóri heldur, að komast megi langt með 50 þús. kr. Ég hef heyrt, að fjvn. vilji kannske líta nánar á þetta mál og ráðgast við vitamálastjóra og væri mér þá leyft að taka till. aftur til 3. umr.

Þá er till., sem er borin fram af okkur 4 þm., um 50 þús. kr. fjárveitingu, sem er fyrsta greiðsla af þremur til framkvæmda að Hrafnseyri við Arnarfjörð í minningu Jóns Sigurðssonar. Ég mun ekki lýsa þessari till. nánar, því að í dag var útbýtt hér í hv. d. þáltill. um framkvæmdir í þessu efni. Grg. þeirrar till. er fullnægjandi skýring á henni og eins gott að vísa til hennar og lesa það allt saman hér á fámennum fundi. Ef enginn mótmælir sérstaklega þessari till., mun ég láta nægja þessa grg. þáltill.