03.03.1945
Sameinað þing: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (6443)

Þinglausnir

forseti (GSv):

Ég mun fyrst gefa yfirlit um störf Alþingis.

Þingið hefur staðið frá 10. janúar til 11. marz 1944, 10. til 20. júní sama ár og frá 2. sept. 1944 til 3. marz 1945, eða alls 256 daga.

Þingfundir hafa verið haldnir:

Í neðri deild ............... 142

— efri deild …………… 140

— sameinuðu þingi ….. 101

Alls 383 þingfundir.

Þingmál og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1. Stjórnarfrumvörp:

a. Lögð fyrir neðri deild ........ 33

b. — efri deild ……………. 11

c. — sameinað þing ……… 3

— 47

2. Þingmannafrumvörp

a. Borin fram í neðri deild …. 79

b. =- - - efri deild ............... 42

— 121

168

Þar af

a. Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp ……. 34

Þingmannafrumvörp …. 80

— alls 114 lög

b. Felld:

Þingmannafrumvörp………. 2

c. Afgr. m. rökst. dagskrá:

Stjórnarfrumvörp ……….. 2

Þingmannafrumvörp …. 10

d. Visað til ríkisstj.:

Þingmannafrumvarpi .. 1

e. Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp …….. 11

Þingmannafrumvörp …. 28

168

II. Þingsályktunartillögur:

a. Bornar fram í neðri deild 4

b. — — — efri deild 2

c. — — — sam. þingi 103

109

Þar af:

a. Þingsályktanir afgreiddar:

1. Ályktanir Alþingis …… 73

2. — neðri deildar ……… 4

3. — efri deildar ………….1

— alls 78 þál.

b. Afgreiddar með rökst. dagskrá 3

c. Vísað til ríkisstj. ............ 4

d. Ekki útræddar .............. 24

109

III. Fyrirspurnir:

a. Bornar fram í neðri deild .......... 10

b. — - - efri deild ………….......... 6

— 16

Þar af:

a. Svarað .............................. 11

b. Ekki svarað ........................ 5

Mál til meðferðar í þinginu alls...293

Tala prentaðra þingskjala alls ..1286.

Háttv. alþingismenn. — Nú er liðið að lokum þessa þings — hins reglulega Alþ. 1944, — og þótt enginn dragi í efa mikilvægi þess í málefnalegu tilliti, munu þó væntanlega ýmsir segja, að fyrr hefði því átt að ljúka, því að þinghald þetta er orðið hið lengsta í sögu þjóðarinnar. Það er þó engan veginn svo, að hin langa dvöl við þingstörf að þessu sinni, sem sé á liðnu ári og fram á þetta ár, hafi verið mjög að ástæðulausu, heldur er hitt hið sanna, að eigi hafi orðið hjá þessu komizt vegna ýmissa stjórnmálaatburða og að sumu leyti ófyrirséðra atvika, og má þar til nefna stjórnarmyndunina, sem eins og kunnugt er eigi tókst fyrr en á veturnóttum síðast liðnum. er aflað var stuðnings meiri hluta Alþingis til þessa. En eigi sízt af því, að hér áttu hlut að máli flokkar, er hafa verið næsta sundurleitir í skoðunum og stefnum, hlutu að koma til meðferðar ýmis erfið og tímafrek málefni, er hin nýja ríkisstjórn beitti sér fyrir. Er nú bundinn endi á mál þessi um sinn, að því er kemur til kasta löggjafans, og munu menn dæma um það allt á ýmsan veg, eins og eðlilegt má kalla í lýðfrjálsu landi. — En þegar um Alþingi ræðir og setu þess, ber þess einnig að gæta, að skylt verður að teljast, að það fjalli um öll höfuðstjórnmál lands og þjóðar, enda að jafnaði nauðsynlegt til öruggrar úrlausnar.

En hvað sem þessu viðvíkur og ýmsu því öðru, er löggjafarþingið hefur haft með höndum að þessu sinni, þá er þó eitt mál — „mál málanna“ —, er rís eins og klettur úr hafinu í sögu Alþingis nú og um allan aldur, og standa þar allir að með glæstum sóma, eins og því lyktaði, alþingismenn og Íslendingar aðrir: það er lausn sjálfstæðismálsins, skilnaðurinn frá Danmörku og stofnun lýðveldis á Íslandi. Þessi afrek mun bera hæst, þegar minnzt verður ársins 1944, dagsins 17. júní og alls aðdraganda þeirra úrslita. Hafa og allir mælt um þetta á sömu lund. — Vér minnumst þess einnig nú með maklegu þakklæti, að ágæt þjóðríki erlend hafa í þessu veitt oss stuðning og viðurkennt málstað vorn, og vonum vér, að önnur skipti vor og þeirra megi á líka leið fara.

Ég vil svo láta þess getið að síðustu, sem niðurlag þess, er ég nú hef greint, að eldraunin er eftir, þótt þessari veigamestu frelsisbaráttu vorri fram að þessu sé nú lokið með sigri, — raun, sem að vísu er þegar byrjuð og Íslendingar eiga að standast. Með sama hætti og aðrar þjóðir, stríðandi og líðandi, hafa það nú fyrir sér augljóst, að eftir „unnið stríð“ verður að „vinna friðinn“, eins og komizt er að orði, þ.e. tryggja öllu fólki í öllum löndum frið og öryggi, — eins ber oss hér í voru frjálsa föðurlandi að „vinna“ oss hið sanna frelsi og treysta; en hvergi veikja, afkomumöguleika þjóðarinnar í hvívetna, með ráðum og dáð, svo að hún geti óvefengjanlega staðið föstum fótum á sinni eigin jörð, sem ekki verður nema með heilum hyggindum og óeigingjarnri atorku, samfara frjálsmannlegri festu gagnvart öllu, sem að höndum ber. Vér höfum öðlazt frelsið til þess að halda því að fullu í heiðri.

Forseti Íslands mælir fram þinglausnir.

Forseti Íslands (Sveinn Björnsson): Í ríkisráði í dag var gefið út svolátandi forsetabréf um þinglausnir:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Að ég hef ákveðið, að Alþingi, 63. löggjafarþingi, skuli slitið laugardaginn 3. marz 1945.

Mun ég slíta Alþingi þann dag.

Ritað í Reykjavík, 3. marz 1945.

Sveinn Björnsson.

Ólafur Thors.

Forsetabréf um þinglausnir.“

Þetta þing, sem er hið lengsta, sem háð hefur verið og haft hefur til meðferðar og fullnaðarályktunar hið mikilvægasta mál, sem Alþingi hefur nokkru sinni um fjallað og varðar framtíð landsins öllum málum framar, frá því er allsherjarríki var sett hér á stofn fyrir nærfellt 1015 árum, hefur nú lokið störfum sínum að þessu sinni, og segi ég því þinginu slitið.

Ég vil biðja alþingismenn að minnast fósturjarðar vorrar, Íslands, með því að rísa úr sætum sínum.

Þingmenn risu úr sætum sínum, og forsætisráðherra mælti: „Lifi Ísland!“

Tók þingheimur undir það með ferföldu húrrahrópi.

Var síðan af þingi gengið.