26.02.1945
Neðri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (6445)

254. mál, fasteignamat

Gunnar Thoroddsen:

Þessu frv. var breytt í Ed., m.a. í 6. gr. Tveir hv. þm., þm. Húnv., hafa talað gegn breyt. og ráðizt á það atriði, að sérregla eigi að gilda um millimöt í Reykjavík. Taldi annar þeirra slíkt með öllu óhæft. En ég vil benda á, að það er ekkert nýtt, að sérregla gildi fyrir Reykjavík. Í l. frá 1938 er skýrt tekið fram, að svo sé, þar sem það eru 2 menn, kjörnir af bæjarstjórn Reykjavíkur, sem framkvæma millimöt ásamt formanni yfirskattan. Er þetta eiginlega hið sama, sem lagt er til í frv. nú. Ég vildi eindregið mæla móti því, að till. hv. þm. a.-Húnv. yrði samþ., enda er hún á misskilningi byggð að því leyti, að þarna er alls ekki um embættisstofnun að ræða. Þessir matsmenn hafa ekki föst laun, heldur þóknun fyrir störf sín samkv. l. um laun hreppstjóra og aukatekjur. Það er einnig misskilningur, að samþ. brtt. yrði til sparnaðar. Ef starfinu yrði dembt á fjmrn., yrði að auka starfskrafta þar að sama skapi.

Sá gífurlegi kostnaður, sem orðið hefur af fasteignamatinu, stafar aðeins að mjög litlu leyti af millimötum, eða um 30 þús. kr. á ári síðustu 2 árin, lægra annað árið. Þar af er aðeins nokkur hluti fyrir möt í Reykjavík, svo að hér er ekki nema um fáar þúsundir að ræða. Líklega yrði það engu kostnaðarminna að fela fjmrn. þetta.