22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (6448)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég get ekki látið þetta mál fara svo úr hv. d. að benda ekki á nokkur atriði, sem ég vænti, að heilbr.- og félmn. athugi. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að 2/5 kostnaðar verði greiddir úr ríkissjóði fyrir sjúkrahús og sjúkraskýli og læknisbústaði. Ég tel það nauðsynlegt að hafa heimild í l., þar sem stj. væri heimilað að fara hærra en þetta, ef um væri að ræða sjúkraskýli eða læknisbústaði.

Það hefur oft verið minnzt á þetta, og ég tel, að það sé útilokað, að læknishéruð, sem hafa 3–5 hundruð íbúa, geti staðið undir þeim kostnaði, sem það hefði í för með sér að reisa læknisbústaði og sjúkraskýli, þegar um er að ræða, að á bak við það standa fátækir hreppar og sveitir, sem eiga erfitt með að standa undir nauðsynlegustu gjöldum við rekstur sveitarsjóðs.

Ég tel því nauðsynlegt, að það sé sett hér inn, að ríkisstj. sé heimilt, þegar svo stendur á, að greiða jafnvel allan kostnað við að reisa læknisbústaði og sjúkraskýli fyrir fátæk og fámenn héruð í landinu. Það er engan veginn hægt að leysa þessi vandræði í læknamálunum í þessum héruðum nema með því aðeins, að meiri hjálp komi frá því opinbera. Ég skal benda á hérað eins og t.d. Flateyjarhérað nú, sem ekki hefur getað fengið lækni, vegna þess að þar er enginn læknisbústaður. Allar tekjur hreppsins eru 15 þús. kr., og er þá gengið eins langt ofan í vasa þessara manna sem hægt er, og þeir treysta sér ekki til að standa undir meiru. Það sér því hver maður, hvað slík sveitarfélög muni geta látið af mörkum til þess að bera uppi kostnað við byggingu læknisbústaðar. Svipað hygg ég að megi segja um önnur afskekkt læknishéruð annars staðar á landinu, t.d. í Borgarfirði eystra. En um það má fá fyllri upplýsingar hjá landlækni, hvort þessi héruð muni geta komið sér upp læknisbústöðum eins og gert er ráð fyrir í þessum lögum.

Þá er annað atriði, sem ekki kemur þessu máli við, en mér finnst þurfa athugunar við, en það er, að gengið sé nokkuð nánar frá ákvæðunum í l. heldur en hér er gert ráð fyrir í 1. gr. Mér finnst t.d., þar sem sagt er hér: „Ef í hlut eiga sjúkrahús, er ráðherra viðurkennir sem fjórðungssjúkrahús, eitt á Vestfjörðum, annað á Norðurlandi og hið þriðja á Austurlandi, greiðir ríkissjóður allt að þrem fimmtu byggingarkostnaðar“ o.s.frv., að þarna þurfi að vera nánar tekið til, hvað þetta skuli vera víðtækt, hvort aukningin skuli ná til þeirra staða eða héraða, sem t.d. hafa sjálf komið sér upp sjúkraskýli eða læknisbústað. Hugsanlegt væri, að fjórðungssvæðin hefðu komið sér upp læknisbústað eða sjúkraskýli á eigin kostnað og geti ekki eða vilji ekki taka þátt í þessu, sem hér um ræðir. Í þessu sambandi vil ég benda á Vestfirði. Þar hefur Ísafjörður komið sér upp spítala. Nú er verið að reisa sjúkrahús á Önundarfirði, og ríkissjóður leggur þar til 1/3 kostnaðar, en ekki helming. En þarna er reist sjúkrahús fyrir stórkostlegt framlag einstaklinga og útgerðarfélaga vegna óhjákvæmilegrar þarfar fyrir sjúkrahús þar fyrir sjómenn, sem þar koma til að fá læknishjálp.

Á Patreksfirði hefur verið reist stórt og veglegt sjúkrahús, sumpart vegna héraðsins og sumpart vegna þess, að þar þarf oft að taka á móti sjómönnum, sem þar koma inn og þurfa að leggjast á spítala. Þessir staðir hafa rekið sjúkrahúsin á sinn kostnað og með styrk frá þinginu allt síðan fyrir aldamót og ætla ekki að leggja það niður og mundu ekki leggja það niður, þótt ákveðið yrði að reisa fjórðungsspítala fyrir Vesturland með einhverjum sérstökum hlunnindum, og ég get ímyndað mér, að það sama sé að segja um Austurland. En ég vil benda á það, að það væri heppilegra að takmarka nánar, yfir hvað stórt svæði þetta skuli ná.

Þá er talað um í 3. málsgr., að ríkissjóður greiði fjórðungssjúkrahúsunum árlega eftir á rekstrarstyrk, er nemi 100 kr. á sjúkrarúm, auk viðurkenndrar verðlagsuppbótar á hverjum tíma, og að auki allt að þeirri fjárhæð, er nemi þeim halla, sem sjúkrahús bíður af viðskiptum við innlenda sjúklinga o.s.frv.

Mér finnst ekki koma skýrt fram, hvort eigi að greiða þetta, þó að sjúkrahúsin þurfi þess ekki með. Ég geri ráð fyrir, að það sé gengið út frá því, að þess þurfi alltaf með, og hér er gengið út frá því. að þetta verði fastur styrkur til allra sjúkrahúsa, og finnst mér því ekki óeðlilegt, að sett væru ákvæði um það, hvaða eftirlit ríkissjóður hefði með rekstri þessara sjúkrahúsa.

Þá er síðasta málsgr.:

„Ráðherra er heimilt að greiða öðrum sjúkrahúsum sveitar- (bæjar- og sýslu-) félaga en fjórðungssjúkrahúsum samsvarandi rekstrarstyrk vegna halla af viðskiptum við utansveitarsjúklinga, enda nemi þau viðskipti verulegum hluta af heildarviðskiptum sjúkrahússins.“

Þar finnst mér ekki koma nægilega skýrt fram, hvort greiða eigi af útlendingum. Í fyrri gr., 3. málsgr., er gert ráð fyrir, að fjórðungsspítalarnir fái ekki styrk nema fyrir innlenda sjúklinga, en síðustu málsgr. mætti skilja svo, að spítalarnir ættu kröfu af utansveitarsjúklingum, hvort sem þeir eru innlendir eða útlendir menn. Ég geri ráð fyrir, að það sé ekki hugsað þannig frá n. en það ætti að vera orðað þannig, að ekki væri um það að villast. Að síðustu vil ég benda á það, að mér finnst ekki sjálfsagt að ganga út frá því, að sjúkrahúsin séu alltaf rekin með halla. Reynslan hefur sýnt með Landakot, að það er hægt að reka sjúkrahús, án þess að það þurfi styrk til þess að standa undir rekstrinum. Það má nefna Sólheima; það sjúkrahús hefur ekki þurft sérstakan styrk, en það má ekki bera það saman við Landsspítalann, sem hefur annað hlutverk, það er kennsluhlutverk, og þarf hann því meiri styrk en almenn sjúkrahús. Hins vegar er þetta ekki svo mikil upphæð, að það þurfi að gera veður út af því. En ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, hvort n. sér sér ekki fært að gera þá breyt. á 1. gr., að heimilt sé að veita 100 % styrk til þess að byggja læknisbústaði og sjúkraskýli á erfiðum stöðum, ef það að áliti landlæknis og heilbrigðisstj. þykir ekki fært að hafa viðunandi læknisþjónustu nema fara inn á þá braut. Ég hygg, að þetta mál verði aldrei leyst fyrir sum læknishéruð, nema ríkið byggi læknisbústaðina og leggi fram allt, sem til þeirra þarf, svo að læknirinn gæti gengið að öllu, sem hann þyrfti, án þess að baka sér kostnað. Með því væri hægt að tryggja þessum læknislausu héruðum lækni. Það þarf að hugsa um þessi mál, þegar gengið er frá breyt. á l. Að síðustu vildi ég biðja hv. frsm. að láta mig vita nægilega snemma, hvort hann sér sér fært að koma með slíka brtt., — annars mun ég bera fram brtt. við þessa gr. frv.