08.01.1945
Neðri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (6449)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Sigurður Kristjánsson:

Það, sem hv. þm. V. Ísf. sagði um þetta mál, er náttúrlega alveg rétt, hvað það snertir, að hér er um vísindagrein að ræða í sambandi við guðfræðikennsluna, en það sannar ekkert um það, að það sé þörf á því eða réttlátt að stofna þetta embætti. Það er vitanlegt, að fyrir nokkrum áratugum voru miklu fleiri kirkjur á Íslandi en nú er, og þá var það svo, að Íslendingar; sem fóru til háskólanáms, höfðu flestir ekki um annað að velja að loknu námi en að verða annaðhvort sýslumenn eða prestar, flestir gerðu sér vonir um að verða prestar. Nú hefur þetta verið fært mikið saman, og þar af leiðandi er nú þörf fyrir færri starfsmenn við kirkjuna en áður. Þess vegna er öfugt að halda því fram, að það muni þurfa fleiri kennara við guðfræðideild nú heldur en áður. Vera má, að þetta hafi ekki verið fullkomið fyrstu árin, og æskilegt væri, að það yrði enn fullkomnara, en í rauninni hefur aldrei verið lítið þannig á, að guðfræðinámið ætti að vera sérstök vísindi. Það hefur verið frekar aukaatriði. Ég held, að almenningur í landinu hafi ekki meðtekið kennimennsku prestanna sem sérstök vísindi, heldur sem trúaratriði, það er einmitt það, sem farið er út í. En það er ekki hægt að neita því, að þeir fáu menn, sem stundað hafa guðfræðinám. vilja hliðra sér hjá því að verða prestar, ef þeir eiga kost á nokkru öðru, þó að það sé ekki annað en að vera skrifstofumenn, svoleiðis að prestaskólinn hefur ekki útskrifað embættismenn fyrir kirkjuna eingöngu, heldur eru það kannske menn. sem vilja ná einhverju háskólaprófi og þykir það þá kannske liggja betur fyrir sér að ná prófi í þessari fræðigrein heldur en öðrum. En hvað, sem um þetta er, þó að guðfræðin sé kannske merkileg vísindagrein. þá er það hins vegar víst, að ekkert embætti krefst minni vísindalegrar kunnáttu til hinnar daglegu starfrækslu en einmitt prestsembættið, sem, eins og ég sagði áðan, hefur verið meðtekið af þeim einföldustu og þeim, sem krefjast minnst af vísindunum, en meira af hugarfarinu.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta, en ég vildi leggja áherzlu á það, sem ég tel höfuðatriðið í þessu máli, að ég tel það alveg ófært að ganga inn á þá braut að fara að stofna nýtt embætti fyrir þær sakir. að til eru fleiri hæfir menn í þessi embætti en þeir, sem í þeim eru, og jafnvel þó að hæfum mönnum kannske hafi verið misboðið, þegar valið var á milli þeirra manna, sem um embættin sóttu.

Ég er sannfærður um það, að eins og 3 menn gátu annað því að undirbúa menn undir prestsembætti frá því að prestaskólinn var stofnaður, eins geta þeir það nú. þegar prestsembættin eru færri. Þess vegna er ekki þörf fyrir aukna kennslukrafta. En það, sem vakir fyrir flm. þessa frv., er fyrst og fremst það, að þeir vilja veita þessum manni uppreisn, og þeir sjá ekki annað ráð til þess en að leggja inn á þessa óheilbrigðu braut að fara að stofna sérstakt embætti handa honum.