31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (6451)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Hv. frsm. minntist á það, að fyrir mundi liggja yfirlýsing frá Sigurði Nordal um það, að hann mundi ekki taka þátt í stjórn Háskólans, þó að þetta frv. yrði samþ. Ég hef hér með höndum bréf frá Sigurði Nordal, sem yrði þá bókað í Alþt., og jafngilti það í rauninni því, að það væri tekið fram í frv., að próf. Sigurður Nordal skyldi ekki taka þátt í stjórn Háskólans, en mér sýnist það ekki koma til mála, eftir að slíkt bréf hefur verið lesið upp, og með leyfi hæstv. forseta skal ég lesa upp bréfið. Það hljóðar svo: „Reykjavík, 30. jan. 1945. Herra kennslumálaráðherra Brynjólfur Bjarnason. Samkvæmt samtali því, sem ég átti við yður í dag um frv. það um prófessorsembætti mitt, er nú liggur fyrir efri deild Alþ., vil ég bréflega lýsa yfir því, sem hér fer á eftir: Ef umrætt frv. yrði samþ. og ég léti af föstum kennarastörfum í Háskóla Íslands, mundi ég telja sjálfsagða afleiðingu af því, að ég hætti jafnframt að taka nokkurn þátt í stjórn Háskólans, þar sem ég gæti ekki fylgzt nægilega með daglegum málum stofnunarinnar til þess að hlutast til um þau. Ég mundi ekki mæta á fundum heimspekideildar, nema þess væri sérstaklega óskað, og ekki greiða þar atkv., — alls ekki sækja almenna kennarafundi — og allra sízt taka við kosningu sem deildarforseti og sæti í háskólaráði, þótt þess yrði farið á leit við mig, sem engum mundi líklega til hugar koma. Ég efast ekki um, að þegar núverandi háskólaráð mælti einróma með því, að umrætt frv. væri samþ. óbreytt, hafa þeir fulltrúar allra háskóladeilda, sem í ráðinu eru, meðal annarra forseti lagadeildar, prófessor Ólafur Lárusson, talið háskólann einfæran um að sjá svo til, að af þessu stafaði engin röskun á stjórn hans í stóru eða smáu. Virðingarfyllst. Sigurður Nordal.“