18.02.1944
Sameinað þing: 18. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (6458)

20. mál, eftirlit með skipum

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Ég þarf ekki að svara þeim miklu, er tekið hafa til máls við þessa umr. Hv. 2. þm. N.-M. lagði áherzlu á, — og það geri ég einnig, — að traust skipaskoðunarinnar sé ekki rýrt með ósönnum áburði. En áður en umr. er slitið, finnst mér skylt að reyna að gera enn eina tilraun til þess að koma því inn hjá hv. 4. landsk., að þessa till. hans er búið að framkvæma fyrir meira en ári. Þá voru einmitt kjörnir tveir menn til að hafa þetta verk með höndum. Þetta er skýrasta sönnun þess, að verið er að flytja till. til að sýnast. Báðir mennirnir, sem hafa verkið með höndum, eru frá samböndum sjómanna, báðir eru reyndir skipstjórar, og annar hefur meira að segja fengið kross frá ríkisstj. fyrir að bjarga tugum manna úr lífsháska. Ef hv. 4. landsk. vill ekki trúa þessu, þá er bezt, að hann gangi upp í skrifstofu eftirlitsins og láti sannfærast um, að þessir menn gera ekki annað en fylgjast með, hvernig skipin eru útbúin.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að því, hvort meira öryggi kynni að vera í því að skipa alla mennina í n. samkv. tilnefningu alþýðusamtakanna, og vil í því sambandi benda á eftirfarandi: Fyrir skömmu efndi Samtrygging íslenzkra botnvörpunga til samkeppni um till. og teikningar af togara framtíðarinnar, þar sem sérstaklega væri tekið tillit til öryggis fólksins, sem á togurunum ynni. Var heitið ríflegum verðlaunum fyrir þrjár beztu tillögurnar.

Hverjir sendu till.? Ef það væri rétt, sem hv. 4. landsk. segir, að sjómennirnir hafi mest vit á þessu og mestan áhugann fyrir umbótum og því eigi þessi mál að vera í þeirra höndum aðeins, þá virðist svo sem þeirra samtök hefðu átt að reyna að vinna til verðlaunanna, sem voru 10 þúsund, 7,5 þúsund og 5 þús. kr. En enginn af samtökum sjómannanna gáfu sér tíma til að hugsa um þetta mál. Allar úrlausnirnar komu frá mönnum, sem höfðu, sumir árum saman, sumir allt sitt líf, verið í þessu starfi, unnið hvað bezt fyrir þessar stéttir. Einmitt sú till., sem gekk langsamlega mest inn á öryggi sjómannanna, var drepin af sjómönnunum sjálfum, m. a. einum úr Alþýðusambandi Íslands. Það væri hollt fyrir hv. 4. landsk. að kynna sér þetta allt, áður en hann heldur því fram, að öryggi sjómannanna sé tryggt aðeins með því að láta það í hendur þessara manna.

Ég vil benda hv. 4. landsk. á, að það hefur nú verið hrakinn orðrómur um eitt slys, sem haldið hefur verið uppi áróðri út af í heilt ár. Menn sjá nú, að það var gert af allt öðru en sannleiksást eða af umhyggju fyrir öryggi á hafinu.

Sá maður, sem stendur hér upp og heldur fram, að það þurfi að skipa menn í stöður, sem búnir eru að vera skipaðir í heilt ár, þarf ekki að halda, að trúað verði þeim rökum, sem hann ber fram máli sínu til framdráttar.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að 12 tonn af fiski hefðu verið tekin upp úr einum togara og rúm 20 úr öðrum, áður en þeir sigldu frá Hafnarfirði, þá eru þetta engin rök í því máli, að það hafi verið um ofhleðslu að ræða í fyrri ferðum. Það þarf ekki annað að vera en þeir hafi tekið með sér meiri kol nú vegna þess veðrahams, sem verið hefur og búast mátti við, til þess að tryggja meira eldsneyti til fararinnar, af því að þeir yrðu kannske lengur í ferðinni, og þá þurfti vitanlega að létta farm skipanna að sama skapi. Það er eins og þessi hv. þm. geti ómögulega skilið, að það sé sama að hafa jafnmikinn þunga af fiski í skipi og af öðrum vörum.