18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

143. mál, fjárlög 1945

Frsm. samvn. samgm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. — Eins og sjá má á þskj. 698, hefur samvinnun. í samgöngumálum, þ.e.a.s. sameinaðar samgmn. Alþ., lagt til, að nokkur tilbreytni yrði gerð á svo kölluðum flóabátaferðum. Þessi tilbreytni er eingöngu í því fólgin, að aðeins hefur verið bætt við til þess að gera samgöngurnar nokkru auðveldari fyrir ýmsa landshluta með því að hækka tillagið til áætlunarbáta og flóabáta, sem nauðir hafa til rekið. Mun ég nú nánar greina frá því í stórum dráttum, sem fram hefur farið, og hversu gengið hefur á árinu með þessar ferðir. Efalaust má segja, að árangur og útkoma sé í raun og veru vonum betri, og eins og hv. þm. munu sjá, þá byggjast þessi ummæli á því, að í langflestum tilfellum hefur orðið að álíta, að þessir styrkir, sem veittir eru og áætlaðir til þessara samgangna, hafi verið og verði enn næsta ár með líku ástandi fullnægjandi. Þar er þó þess að geta, að á sumum stöðum hefur þetta ekki verið reiknað til hlítar, með því að Skipaútgerð ríkisins hefur samkv. því, sem ákvarðað hefur verið og ríkisstj. hefur orðið að láta fara fram, tekið að sér að annast að meira eða minna leyti um þær samgöngur, sem svo hafði hagað til um, að ekki varð öðruvísi út úr þeim komizt, og má þá þar til nefna ekki sízt samgöngurnar við Norðurland. Skipaútgerðinni var falið að halda uppi samgöngum milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar eða á milli Sauðárkróks um Siglufjörð og til Eyjafjarðar að vetrarlagi. Sá styrkur, sem til þessara samgangna er veittur, er ætlaður til þess að ganga upp í þann kostnað, sem er meiri en því nemur, er ríkisútgerðin verður að hafa til þess að fullnægja þessum ferðum. En það þykir henta að hafa þann hátt á, vegna þess að það er engan veginn tilgangurinn að afhenda Skipaútgerð ríkisins til fullnustu þessar ferðir. Það er neyðarúrræði. Skipaútgerð ríkisins hefur að sjálfsögðu á sínum höndum hinar svo kölluðu strandferðir með ákveðnum strandskipum, en hún hefur líka í umboði þ. og stj. umsjón með flóabátaferðum og nokkra ábyrgð á því, að þær falli ekki niður, þótt eitthvað komi fyrir, sem hindri, að þær haldi áfram. Enn hefur orðið svo að vera, að Skipaútgerð ríkisins hefur haft á sínum höndum Austfjarðasamgöngurnar að miklum mun og einnig Austfjarðabátarnir, sem svo mætti nefna, Hornafjarðar- og Austfjarðabátur, og eru veittir til hans nokkrir tugir þús. kr., sem ganga upp í kostnað Skipaútgerðarinnar, en til þess hefur ekki fengizt á liðnu ári og þessu ári neinn fjárkostur, sem á nokkurn hátt fullnægi svo Skipaútgerðinni að annast um það, og mun svo verða á næstu árum. Loks er þess að geta, að Skipaútgerðin hefur í umboði samvinnun. annazt samgöngur á Faxaflóa, eftir að Laxfoss strandaði. Reyndist nauðsynlegt, að hið opinbera skærist í leikinn um þær samgöngur til aukins öryggis. Nú hefur verið ákveðið, að h/f Skallagrímur annist um samgöngurnar á sjó milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness að mestu, enda mun nú von til þess, að takast muni að ná Laxfossi á flot aftur, stórum endurbættum, svo að þessar samgöngur ættu að verða öruggari en áður.

Það er ýmislegt við þessa útgerð, sem hvorki n., hæstv. ríkisstj. né Skipaútgerð ríkisins hafa getað fallizt á, og er ekki um það að sakast. Þennan halla verður að bæta, og þótti því eðlilegt að bæta meiri hluta hans úr ríkissjóði, en minni hlutann af félaginu, sem úthaldið hafði, h/f Skallagrími í Borgarnesi. Þannig er tilkomin sú till. til hækkunar þessum styrk í heild, að til Borgarnessbátsins verða veittar 120 þús. kr. úr ríkissjóði, og er það í raun og veru upp í meiri hluta rekstrarhallastyrksins á þessu ári.

Nokkrar aðrar tilbreytingar, — eins og ég gat um, — hafa hér orðið að verða. Skal ég þar aðeins benda á, að það hefur orðið að hækka nokkuð styrk Breiðafjarðarsamgangna, bæði rekstrarstyrk og hallastyrk til Flateyjarbátsins, og er greint frá því á nál. Einnig hefur verið óhjákvæmilegt að hækka að litlu leyti suma aðra styrki þar, og má þakka fyrir, meðan útgerðin þar sér sér fært að halda uppi ferðum á þessum slóðum. Hefur n. athugað þessar ferðir og komizt að raun um, að yfirleitt er vel á haldið, þannig að Breiðafjarðarsamgöngur verður að telja meðal þeirra samgangna, sem skylda er að halda uppi og reyna að láta sem mesta fullnægingu verða á. Hafa n. ekki borizt kvartanir þaðan úr héraði um það; sem miður hefur farið, eða að minnsta kosti svo óverulegar, að þær taka ekki tali.

Ég hef þegar getið um Austfjarðasamgöngurnar, sem Skipaútgerð ríkisins verður að hafa með höndum að allmiklu leyti, en þess ber þó að geta, að sumir staðir, eins og Austfirðir, eru að því leyti betur settir en aðrir staðir, að um þá fara nú strandferðir eftir áætlun, og eru það aðeins fjarðabátarnir, sem annast samgöngur milli Hafnar í Hornafirði og austur og norður, sem hér geta komið til mála, að verði að styrkja. Hins vegar er þetta í rauninni ónumið land í þessum skilningi, og verður að koma upp sérstöku Skipi fyrir Austfjarðasamgöngur, enda er uppi mikil hreyfing um það á þessum slóðum, og verður það gert, þegar tímar verða eðlilegir, sem vart mun dragast lengi úr þessu. — Hið sama má segja um Vestmannaeyjar, — en til samgangna þangað er ekki breyt. á styrkveitingu, — að þegar tímarnir veróa betri og allt kemst í samt lag eða það lag, sem menn geta gert sér vonir um, þá verður samgöngum þangað hagað með allt öðrum hætti en nú er, hvort sem um verður að ræða sérstakt. skip á vegum hins opinbera eða einstakra aðila„ þótt það verði að bíða síns tíma.

Til viðbótar þeim breyt., sem nú hefur verið á minnzt og mestmegnis eru vegna hallastyrks, hefur n. komið sér saman um að veita lítilfjörlegt fjárframlag til hreppsn. Hríseyjar til þess að halda uppi nauðsynlegum ferðum milli eyjarinnar og lands, bæði til þess að nota þá báta, sem hafa viðkomustaði á öllum stöðum innfjarðar, en koma ekki til Hríseyjar, og eins til þess að hafa samband við land, t.d. þegar vitja þarf læknis, sem ella er enginn vegur til, og verða þeir því að eiga undir höggi með báta, ef ekki verður horfið að því ráði að hafa á eyjunni viðvarandi bát til þessara þarfa.

Þá hefur n. og viðurkennt aðra nýja flóabátaferð, sem full þörf er á að styrkja, og er hún við Strandir á Húnaflóa. Hefði mátt ætlast til, að fyrr hefði komið til með þetta, sem nú fyrst kemur fram greinilegt erindi um. Allt er þetta óundirbúið, en ætlazt er til, að nú þegar verði hafizt handa heima í héraði um aðstoð og undir umsjá, Skipaútgerðar ríkisins, þannig að unnt verði að ná í hentugan bát, sem geti fullnægt þessum ferðum. Til að byrja með hafa verið áætlaðar 30 þús. kr. í þessu skyni, sem að vísu er ekki nema helmingur þeirrar fjárhæðar, er farið var fram á, en umsóknin gat hvort sem er ekki komizt nær því að áætla, hvað mikið fé mundi duga til þess að fá úr því skorið, hvað hentar og hæfir í þessu sambandi. Þetta er tilraun, og yrði þá að hafa hliðsjón af, að bætt yrði úr, ef miður reyndist en skyldi, en þess er þó að vænta, að unnið verði að þessu sleitulaust til þess að koma þessum hluta Norðurlands í samband við önnur svæði, sem hafa á hendi aðalsamgönguleiðir, bæði á landi og sjó.

Það er að sjálfsögðu ætlazt til þess, að allar þessar ráðstafanir gerist með aðstoð og undir umsjá og eftirliti Skipaútgerðar ríkisins, því að Skipaútgerðin er og hefur verið nú um margra ára skeið eins konar .aðalfulltrúi ríkisins í þessum efnum og hefur leyst það verk vel af hendi. Þetta er nauðsynlegt vegna þess, að engin stj., hversu vel sem hún er af vilja gerð, hefur getað annað því að ráðstafa slíkum málum sem þessum, og af því, að þannig er orðið ástatt um Skipaútgerðina, að hún hefur meiri ráð farkosta en nokkur annar aðili hér á landi, bæði opinberra farkosta og einnig annarra, sem tiltækilegt væri að afla. Af þessum ástæðum stendur hún bezt að vígi með að hafa eftirlit með þessum samgöngum og að reyna að bæta úr því, sem á skortir. Þetta er yfirleitt vandamál og talsvert viðkvæmt fyrir þau héruð, sem hlut eiga að máli og stundum eiga allt sitt undir því, að þetta takist vel, en þó er ekki um það að sakast, þótt ýmislegt verði að fara öðruvísi en til hefur verið ætlazt vegna ríkjandi ástands. Þess vegna hlíta allir þessir styrkir sömu skilmálum og verið hafa um þetta og ég hef nú drepið á.

Niðurstaða samvn. samgm. hefur því orðið sú, að ekki hefur þurft að hækka þessa styrki alla nema um tæpar 200 þús. kr., og fer þó meiri hlutinn af þeirri upphæð á einn stað eða til Faxaflóasamgangna, sem allir vona, að ágreiningur um sé nú á enda kljáður. Hitt fer til smáaukningar á ýmsum stöðum eða til nýrra samgangna, sem nauðsynlegt hefur verið að dómi n. að reyna að koma á fót. — N. ber því fram brtt. á þskj. 701 um, að nú bætist inn á réttan stað í 13. gr. fjárlfrv., að í staðinn fyrir 550 þús. kr., eins og flóabátastyrkurinn í heild er þar áætlaður, komi nú 742950 kr. Er það nákvæmlega það, sem áætlað er og greint er sundurliðað i nál. á þskj. 698.

Ég tel þá, að eigi sé þörf á að gera frekari grein fyrir áliti og brtt. samvn. samgm.