18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

143. mál, fjárlög 1945

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að bera fram ásamt öðrum þm. tvær brtt. Önnur till., sem meir er um vert, er 26. tölul. á þskj. 740 og fer í þá átt að taka upp að nýju í fjárl. nokkra fjárveitingu til sumardvalar barna í sveit, og er þá ætlazt til þess, að börnin séu úr kaupstöðum.

Þegar fjárlfrv. var lagt fyrir Alþ., voru áætlaðar 150 þús. kr. í þessu skyni, og var það minni fjárhæð en undanfarið hefur verið greitt úr ríkissjóði til þessara þarfa. Við 2. umr. fjárl. var þetta fellt niður með nokkrum atkvæðamun, og mun ástæðan til þess vera sú, að þm. gerðu þá ráð fyrir, að í þinginu yrði nokkur sparnaðarviðleitni í meðferð fjárl. og reynt yrði að fara gegnum fjárl. og skera niður eftir því, sem telja mætti, að þar ætti ekki að eiga sér stað. Þeir munu og hafa litið svo á., að þessar 150 þús. kr. hafi aðeins verið veittar vegna stríðsástæðna undanfarið, en stríðshættan væri liðin hjá og þar af leiðandi væri ekki óeðlilegt að fella þetta niður. En síðan hefur það komið á daginn, að sá feikna-niðurskurður, sem ráðgerður var, hefur ekki átt sér stað. Það hafa ýmsir liðir staðið kyrrir í fjárl., er virðast fremur hefðu mátt niður falla en þessi liður. — Ég og meðfim. mínir álítum, þó að e.t.v. megi um það deila, að þetta fé hafi verið veitt sem eins konar stríðsráðstöfun og þá sé það mjög hæpið að láta sparnaðaranda hv. þm. koma eingöngu fram í þessum eina lið. Ég held, að þm. hafi ekki gert sér til fulls grein fyrir nauðsyn þessara ráðstafana. En þó að þetta hafi í fyrstu verið tekið upp af styrjaldarástæðum, þá held ég, að reynslan hafi skorið úr um, að það væri ákaflega leitt og illa farið, ef þessi sumardvöl barna úr kaupstöðum í sveit þyrfti að falla niður, strax og stríðshættan er liðin hjá. Og menn verða að gera sér grein fyrir því, að sá möguleiki, sem menn höfðu áður til þess að koma börnum fyrir á heimili einstakra manna í sveit, hverfur meir og meir, eftir því sem fleiri flytja í bæina og kaupstaðina og eiga ekki náin skyldmenni í sveit. Og það er óðum að færast í það horfið. Þar við bætist svo það, sem undanfarið hefur verið, að sveitafólkið er svo önnum kafið og aðstoðarlítið í sumarönnum sínum, að það getur alls ekki bætt á sig því mikla starfi, sem því er samfara að hafa í kringum sig ungbörn, sem enn þá eru ekki svo vaxin úr grasi, að þau geti verið til hjálpar á heimilunum, og mörg þeirra ekki þess umkomin að gæta sín sjálf. Það mun því óhjákvæmilega reka að því, að haldið verði áfram með svipaða starfsemi og verið hefur.

Það mun verða talið nauðsynlegt að koma börnum úr kaupstað í sveit af þjóðfélagslegum ástæðum, en það verður erfitt fyrir fátækari fjölskyldur að koma börnum sínum fyrir nema með einhverri opinberri aðstoð. En hitt skal svo játað, að margir, sem til þessarar starfsemi þekkja, telja, að hún hafi undanfarið verið að sumu leyti of kostnaðarsöm, og held ég, að ekki hafi verið gengið nægilega eftir greiðslum frá þeim aðstandendum, sem í raun og veru geta greitt með börnum sínum. Þess vegna leggjum við flm. þessarar brtt. til, að fjárframlagið verði lækkað niður í 100 þús. kr., og ég held, að það muni verða helmingur af því fé, sem veitt verður í þessu skyni í ár. Það þarf að koma þessum málum í það horf, að það verði viðráðanlegt á venjulegum tíma, en það verður því aðeins viðráðanlegt, að séð verði fyrir því, að þeir foreldrar, sem efni hafa á því, borgi fyrir sín börn. Og þá væri eðlilegast, að þeir, sem hafa verið styrktir í þessu skyni og þurfa þess með, sendi nógu snemma óskir sínar til sumardvalarnefndar, til þess að aðrir komi þar ekki til greina en þeir, sem þurfa þess með í raun og veru. Og ég fyrir mitt leyti, sem hef nokkuð með þessi mál að gera frá annarri hlið, fyrir hönd bæjarfélags Reykjavíkur, mundi vilja beita mér fyrir því, að sá háttur yrði tekinn upp, ef þessi brtt. yrði samþ. — Hitt tel ég ákaflega óeðlilegt, að það verði látið standa þannig, að fjárveiting til þessarar starfsemi verði sú eina, sem skorin er niður. Og þegar menn halda fram, að það sé af stríðsástæðum einkum, sem þetta fé hefur verið veitt, — en það tel ég rangt, — þá vil ég benda á, að enn eru engin þau rök frambærileg, sem gefi okkur öryggi fyrir því, að stríðsástandið sé liðið hjá, — þeirra atburða er skemmst að minnast hér við land og hafa gerzt nær okkur en nokkru sinni fyrr. Og meðan ýmsum greiðslum er enn haldið uppi vegna hernaðarástands í landinu, sé ég ekki, að nein ástæða sé að láta sparnað í þessu skyni koma niður á blessuðum börnunum fyrst og fremst.

Ég vil þess vegna vænta þess, þegar þetta hefur allt verið athugað, að hv. þm. verði nú vinveittir þessari brtt., sem hér er fram komin, og greiði henni nægilega mörg atkv., til þess að hún nái samþykki. Það munu nú vera ótalmargir liðir aðrir á fjárl., sem okkur kaupstaðarmönnum sýnist, að skera hefði átt niður fyrr og á undan þessum lið. Ég vil ekki fara í sparðatíning og láta skera niður það, sem þessu nam, en það verður ekki komizt hjá því að gera grein fyrir því, ef þetta verður ekki samþ., og koma að togstreitu á næsta þingi til þess að koma á jöfnuði um þetta.

Þá er það önnur brtt. við brtt. á þskj. 725,22.b, þar sem hv. fjvn. leggur til, að Eiríki Einarssyni í Réttarholti verði veittar í viðurkenningarskyni 2500 kr. En ég og hv. samþm. minn (JakM) leggjum til, að hann fái 15000 kr. Þetta er byggt á skjali, sem lagt hefur verið fram í lestrarsal og hv. fjvn. hefur haft til meðferðar. Vil ég leyfa mér að lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta. — Skjalið undirrita: Björn Snæbjörnsson, Agnes Gestsdóttir, Helga Guðmundsdóttir, Halldór Pálsson, Jakob Jónsson, Björn Guðmundsson, Garðar Svavarsson, Hannes Magnússon, Carl Olsen, Bjarni Jónsson og Sigurbjörn Einarsson.

„Við undirrituð leyfum okkur hér með að fara þess á leit við hið háa Alþ., að það veiti hjónunum Eiríki Einarssyni, bónda í Réttarholti við Sogamýri, og konu hans, Sigrúnu Kristjánsdóttur, nokkurn fjárstyrk í viðurkenningarskyni fyrir að hafa eignazt fimmtán dætur, sem allar eru á lífi og eru á aldrinum frá eins til 24 ára. Þau hafa aldrei þegið styrk til framfæris sér og sínum.

Það má öllum vera ljóst, hvílík ábyrgð hefur hvílt á foreldrunum og hvílíkt þrek þau hafa sýnt, alúð og umhyggju og skyldurækni við að ala upp svo stóran barnahóp, sem hefur tekizt vonum framar þrátt fyrir fátækt og erfið lífskjör.

Að því er okkur er kunnugt, mun það vera algert einsdæmi hér á landi, að sömu hjónum fæðist fimmtán dætur, og er það út af fyrir sig nægilegt tilefni til þessarar málaleitunar, að okkar áliti.

Við höfum hugsað okkur, að fimmtán þús. kr. geti talizt sómasamleg viðurkenning af hálfu þjóðfélagsins.“

Hér segja þeir menn, sem bezt mega um þetta vita, — meðal þeirra er sá prestur, sem flest íslenzk börn hefur skírt, sennilega fyrr og síðar, — að það muni algert eindæmi, að sömu hjónin eigi svo margar dætur, fimmtán að tölu. Og það sýnist ekki ofrausn, þó að þessum fátæku og illa stæðu hjónum sé greidd í eitt skipti fyrir öll nokkur fjárupphæð. Og þó að hv. fjvn. hafi ekki viljað fara hærra en það að veita 2500 kr., þá er það nokkuð lág upphæð, þegar tekið — er tillit til þessa mikla dætrafjölda. Og það hefði ekki verið talinn mikill heimanmundur, eitt þús. kr. á hverja dóttur, jafnvel þótt svo væri.

Það er ekki hægt að segja, að hér sé um slíkt þjóðþrifamál að ræða sem sumardvöl kaupstaðarbarna í sveit. Það má telja það mál miklu mikilvægara en hitt. En ég vil biðja hv. þm. að sýna því máli þó nokkurn skilning. Og í raun og veru er ekki farið fram á mikið, þó að þessum hjónum, sem komin eru af léttasta skeiðinu, sé sýnd viðurkenning í eitt skipti fyrir öll. Og það eru meiri líkur til þess, að þetta verði skoðað sem eitt skipti fyrir öll, ef upphæðin er nú 15000 kr., heldur en það væri skorið við nögl og þeim veittar aðeins 2500 kr.