18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

143. mál, fjárlög 1945

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég á ekki nema eina brtt. við fjárlfrv., sem búið er að prenta, en ég á aðra í prentun. Og til þess að spara tíma hér, þar sem umr. þessari á að ljúka í kvöld, vildi ég gjarnan drepa á báðar þessar brtt. í ræðu minni nú.

Við 2. umr. tók ég aftur brtt. um læknisvitjanastyrki, sem hv. fjvn. hafði þá fellt niður, en hefur nú tekið upp sem aths. við læknisvitjanasjóðina á þskj. 725, í 2. tölul. Ég sé af þessu fyrst og fremst, að hv. fjvn. er föst á því að láta ekki læknisvitjanastyrki til annarra staða en þeirra, þar sem búið er að samþ. að stofna læknisvitjanasjóði, og því aðeins, að þessir hreppar, sem fengið hafa þessa læknisvitjanastyrki undanfarið, myndi nú hjá sér læknisvitjanasjóði. Ég er ekki á móti þessari stefnu út af fyrir sig, og því er ég ekki á móti þessari till. hv. fjvn. og get sætt mig við hana, en ekki eins og hún er orðuð. Hún er komin hér á þskj. 743,III, eins og ég vil orða hana. Og ég talaði um þetta við hv. formann fjvn., og hann féllst á þetta orðalag. Eins og till. fjvn. er orðuð, geta í þessu sambandi ekki komið til greina aðrir hreppar en þeir, sem fengu styrk 1943, og þá með þeirri upphæð, sem þeim var veitt þá. En það er hvort tveggja, að þá voru ekki til sum læknishéruð, sem nú eru til, eins og t.d. Egilsstaðahérað, sem er eitt með stærstu læknishéruðum landsins, því þá voru þar tvö héruð, og þá var ekki heldur styrkur látinn þangað nema til eins hrepps, sem var lengst út úr. Og þó að menn í þessu héraði vildu stofna læknisvitjunarsjóði, þá gæti ekki komið til greina, að það nægði eftir till. fjvn. eins og hún er orðuð. — Á hinn bóginn eru ýmsir hreppar, sem fengu styrk í þessu efni 1943, en koma nú til með að taka engan styrk. Árneshreppur fékk 600 kr. læknisvitjanastyrk, þegar læknislaust var þar. En nú er búið að veita þeim héruðum, sem engan lækni fá, sérstakan læknisvitjanastyrk. Annað slíkt tilfelli er í Borgarfirði eystra. Sama á sér stað í Óspakseyrarhreppi í Strandasýslu. Og víðar eru þau tilfelli, þar sem árið 1943 var ætlaður læknisvitjanastyrkur til hreppa, sem ekki koma til með að fá hann nú vegna sérstakra ráðstafana. — Þess vegna hef ég viljað breyta till. að því leyti, að ég hef upphæðina þá sömu, og ég vil láta heilbrigðisstjórnina skipta upphæðinni og úthluta henni eftir því, sem við á, með tilliti til þess, sem var 1943. Þá er ekki útilokað, að hreppar, sem ekki fengu læknisvitjanastyrk 1943, en vegna breyttrar aðstöðu þurfa að fá hann nú, geti fengið þennan styrk. Og þá væri líka hægt að láta þá hreppa falla burt með tilliti til þess, sem þurfa ekki á styrknum að halda nú vegna sérstakra ráðstafana. Og hv. form. fjvn. féllst á brtt. mína, en hann taldi réttara, að ég flytti hana, en fjvn. mundi fallast á að samþ. þessa brtt., því að hún virtist vera sjálfsögð.

Þá á ég aðra brtt. á þskj. 743, undir VI. Hún er frá okkur hv. 1. þm. N.-M. Ég get þá tekið hana næst, af því að hv. samþm. minn minntist ekki á hana, vegna þess að ekki var búið að útbýta henni, er hann talaði. Þessi brtt. er um framlag til brúar á Jökulsá í Fljótsdal, fyrsta greiðsla af þremur, 85 þús. kr. — Ég sé, að hv. fjvn. vill ekki að þessu sinni láta mikið fé til þess að smíða nýjar brýr. Þó hefur hún í frv. nú nokkrar nýjar brýr, og margir einstakir hv. þm. eru með brtt. um, að brýr séu teknar inn á fjárlfrv. Ég skal ekki fara mikið út í samanburð á þessum brúm, sem fjvn. er með annars vegar og t.d. ég er með hins vegar og ýmsir aðrar hv. þm. Þó langar mig til að gera ofurlítinn samanburð þar á. Hv. fjvn. mun vera með í till. sínum, sem eru í frv. nú, aðeins örfáar brýr: Ósá í Patreksfirði, Litlu-Laxá í Hreppum og Grjótá á Öxnadalsheiði. Það má segja, að þessar þrjár brýr séu nokkurs konar fulltrúar hver fyrir sinn flokk brúa hér á landi. Ósá rennur rétt hjá Patreksfirði og er lítil. Hún teppir stundum ferðir, en ekki að öðru leyti en á leiðum ferðamanna, sem draga að sér vörur og koma frá sér vörum í sláturkauptíð á haustin. Af slíkum ám er til mesti fjöldi óbrúaður hér á landi. — Litla-Laxá teppir umferð á leið, sem farin er daglega og þarf að flytja eftir daglega til Reykjavíkur, og er sú á oft ófær. Hún er því ein af þeim ám, sem eiga að ganga fyrir, þegar velja skal úr ár til að brúa. Sams konar á er Hofsá í Svarfaðardal. Á síðasta ári teppti hún bíl 63 sinnum, sem átti að safna mjólk úr hreppnum, svo að hann þurfti að fara til baka aftur, vegna þess að áin var óbrúuð. Ef reiknað er með Reykjavíkurbílataxta á mjólkurflutningi, 0,6 aur. á hvern lítra, verður þarna um allverulegt fjárhagsspursmál að ræða. Og ég tel því, að þetta sé á, sem tvímælalaust eigi að ganga á undan öllum fjölda af ám, sem þarf að brúa hér á landi. — Þriðja áin er Grjótá á Öxnadalsheiði, sem er á mörkum Skagafjarðar og Eyjafjarðarsýslu. Á henni er bráðabirgðabrú, tréhleri, sem búið er að fara yfir ána á undanfarin ár, en að sjálfsögðu er þetta ekki til frambúðar. En farartálminn við það, að þarna er trébrú, en ekki steypt, gerir það að verkum, að hver bíll, sem fer á milli Reykjavíkur og Akureyrar, verður að hægja á sér við brúna, kannske að skipta um „gír“, og verður kannske 5 mínútum lengur á leiðinni á milli Reykjavíkur og Akureyrar, vegna þess að þarna er trébrú. Þessa á telur hv. fjvn. mikla þörf á að brúa. — Nú er ég ásamt hv. samþm. mínum með brtt. um að brúa Jökulsá í Fljótsdal, sem er stórá, er oft þarf að sundríða og hálfur hreppur þarf að sækja yfir til kirkju og allra annarra hluta, hvernig sem áin er. Má þá segja, að hún sé enn þá einn flokkur af ám, sem brúa þarf. Ég tel, að hún eigi að koma á eftir Litlu-Laxá, þegar ákveða skal röð á ám til að brúa, en á undan bæði Grjótá og Ósá, sem hv. fjvn. gerir till. um, að brúaðar verði. Ég álít, að það sé sjálfsagður hlutur.

Svo á ég brtt. á þskj. 740,XV. Það hefur oft verið ætluð viss upphæð í fjárl. til akfærra sýsluvega. Venjulega hefur verið reynt að láta helming á móti því, sem sýslurnar leggja fram til þessara vega. Nú er það ákaflega misjafnt, hve mikið er af sýsluvegum í sýslum landsins. Sums staðar eru þeir horfnir, sums staðar eru þeir aftur á móti miklir. Sums staðar eru komnir sýsluvegasjóðir, og tillög til vega þar fara ekki á þennan lið, heldur með öðrum hætti. En nú er viða svo háttað, að sýslunefndir vilja láta rífleg framlög til sýsluvega, en þá tekur Alþ. upp þá reglu að skera niður það fé, sem til sýsluvega á að fara. Í fyrra fékk engin sýsla helming framlags til sýsluvega. Ég álít þetta óheppilegt. Á tímum eins og nú álít ég, að Alþ. eigi að örva sýslurnar til þess að leggja fé í vegi hjá sér, en ekki að draga úr því. En ég hefði álitið heppilegt, að ríkið drægi eitthvað úr því fé, sem fer til þeirra vega, sem ríkið leggur eitt saman. Það er að vísu alveg út í loftið að hækka þetta framlag til akfærra sýsluvega, sem ég geri till. um, að hækki upp í 250 þús. kr., en þó mundi það hafa hrokkið í fyrra til þess að greiða helming framlags til sýsluveganna á móti því, sem sýslur legðu fram. Ég tel því sjálfsagt að samþ. þessa brtt., og ég trúi því ekki, að þetta verði ekki samþ., fyrr en ég sé hendur hv. alþm. á lofti gegn því. En ef hins vegar hv. fjvn. lýsir yfir því og samgmrh. lýsir yfir, að hann muni láta sýslurnar fá helming framlags á móti því, sem kemur frá þeim sjálfum til akfærra sýsluvega, þá get ég tekið brtt. mína aftur. En það var ekki gert í fyrra, og þess vegna hef ég komið með þessa brtt. nú.

Þá langar mig til að benda á eitt eða tvö atriði enn, áður en ég lýk máli mínu, — fyrst á það, að ég held, að orðalagið, sem er hjá hv. fjvn. á brtt. 735,6, þurfi a.m.k. skýringar við, ef það ekki á að valda misskilningi. Ég er fullkomlega sammála þeirri klásúlu, sem sett er í þann lið, að hver þeirra nemenda, sem þar um getur, skuli að loknu námi vinna í þjónustu þjóðarinnar. En í till. stendur: „inni af hendi að loknu námi minnst 5 ára þjónustu í þágu landsins“, — og í þrengri merkingu mun ekki vera hægt að segja, að aðrir vinni að þjónustu í þágu landsins en þeir, sem fá laun greidd úr ríkissjóði. En fjölmargir menn, sem nám stunda, munu ekki komast að því, þótt þeir vildu, að vinna fyrir þjóðina á þann hátt. Þess vegna álít ég, að hér hafi átt að standa: í þágu þjóðarinnar, — og vænti ég þess, að hv. fjvn. leiðrétti þetta, kannske sem prentvillu. — Annars skilst mér, að liðurinn þurfi ekki að vera svona hár. Sonur minn, sem Páll heitir, lauk dýralæknisnámi í sumar, og um það leyti var farið þess á leit við hann, bæði af Búnaðarfélagi Íslands, rannsóknaráði ríkisins og Atvinnudeild Háskólans, að hann stundaði framhaldsnám til þess að læra að búa til serum og bóluefni og að hann að öðru leyti aflaði sér þeirrar fyllstu dýralæknismenntunar, sem völ er á og búizt er við, að starfsmenn að Keldum þurfi að hafa. Og með aðstoð ráðuneytisins var honum sent símskeyti og lagt að honum að gera þetta. Eftir að hann hafði talað við kennara sína og þá, sem stjórna serumframleiðslustofnuninni í Kaupmannahöfn, réðu þeir honum frá því að stunda framhaldsnám nema með því að vera fyrst búinn að stunda praxís í lækningum og buðu honum að sjá honum fyrir fjölþættum praxís hjá dýralæknum, þar til hann byrjaði framhaldsnám. Hann er nú á miðju Jótlandi og stundar þar praxís í þessum lækningum, sem gefa miklar tekjur. — Í tilefni af þessu skrifaði ég hv. fjvn. og óskaði eftir því, að hún athugaði, hvort ástæða væri til að fá mann í slíkt nám og styrkti hann, — ef hún teldi manninn vanta, — til náms í Danmörku og Svíþjóð, en það mundi kosta um 6 þús. kr. á ári, þar til vegur opnaðist, til þess að hann gæti farið til náms í Englandi eða Ameríku, og mundi það kosta þar 10–20 þús. kr. á ári. — Nú er ætlazt til þess af fjvn., að hann fái 3000 kr. styrk, og með það fer hann ekki í framhaldsnám. Það er því óhætt að lækka liðinn um 3000 kr., þó að ég komi ekki með þá brtt.

Þá mun ég ekki gera fleiri liði á fjárl. að umræðuefni. Þó þykir mér leitt að sjá það, að hv. fjvn. hefur ekki tekið það til greina, þó að henni hafi verið bent á það með órækum rökum, að ýmsir liðir hjá henni eru áætlaðir miklu lægri en sýnilegt er, að þeir verði, og það við 2. umr. T.d. hafa öll vinnulaun hækkað í prentsmiðjunni Gutenberg, en til þess hefur ekkert tillit verið tekið af hv. fjvn. Um Landssmiðjuna er sama að segja. Hv. fjvn. ætlast sýnilega til þess, að þessir liðir verði vitandi vits áætlaðir miklu lægri en vitað er, að þeir muni koma til með að verða í framkvæmd. Þetta þykir mér leitt. En um það þýðir ekki að deila. Þeir vilja sýnilega hafa fjárl. villandi.