18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

143. mál, fjárlög 1945

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Ég sé, að fjvn. hefur tekið til greina nokkrar af þeim smáu till., sem ég flutti við 2. umr., og mun ég því ekki gera þær að umræðuefni hér.

Þær megintill., sem ég flutti og mestu máli skipta, vegatill., hefur hún ekki treyst sér til að taka til greina. Ég verð að játa, að mig furðar á því, hver afstaða fjvn. er til vegamála þessa héraðs, sem um ræðir í brtt. minni. Það er ágætt fyrir fjvn. nú að geta skotið sér bak við hæstv. fjmrh. og segja, að það sé að hans forboðum, og með því að taka upp nýja brtt. við þjóðvegina, þá virðist n. standa fast á því að hafna þessari brtt., sem ég flutti ásamt hv. 5. landsk. Þá er það þægilegt fyrir n., þegar hún er búin að fella ranglátan dóm gegn þessu héraði, að geta skotið sér bak við hæstv, fjmrh. Ég verð nú að segja það, að ég fæ ekki betur séð en n. vilji telja sig valdamikla, og hún er valdamikil hér á þingi, en ég verð að segja, að mér finnst hún framkvæma réttlætið dálítið einkennilega. Ég byggi það á því, að við 2. umr. lýsti n. yfir því, að meginprincip hennar í vegagerð væri að láta þá heildarupphæð, sem veitt var á síðustu fjárl., haldast á till. sinni fyrir næsta ár. Ég vil benda á það um leið, að gagnvart Norður-Ísafjarðarsýslu er þessi gullvæga regla gersamlega brotin. Og við þessum ábendingum á fjvn. ekkert svar annað en skjóta sér bak við hæstv. fjmrh. En ég get vel skilið, hver ástæðan er, eins og málum er komið. Það þýðir ekki að rekja þessa sögu öllu rækilegar. Ég sé ekki heldur ástæðu til að endurtaka þau rök, sem ég flutti til stuðnings till. okkar hv. 5. landsk. um vegamál. Ég vil þó endurtaka það, að þessi vegagerð, Súðavíkurvegur, sem ég flutti um brtt., að í stað 45 þús. kr. kæmu 100 þús. kr. og til vara 90 þús. kr., er lífsnauðsyn, ekki aðeins fyrir héraðið, heldur einnig fyrir Ísafjarðarkaupstað, sem verulegan hluta ársins sveltur vegna mjólkurleysis, ekki einungis fullorðnir, heldur líka sjúkir menn og börn. En ég veit, að fjvn. framkvæmir réttlæti sitt óáreitt af slíkum rökum.

Samtímis því, að n. er önnum kafin við að framkvæma réttlæti í þessa átt, þá skýtur upp brtt. frá henni um að taka á sig væntanlegan halla af óperettusýningu hér í Reykjavík. Ég verð að segja, að mér finnst það einkennilegt fyrirbrigði, að Alþ. skuldbindi sig til að taka á sig væntanlegan halla af óperettusýningu. Það er ekki víst, að trúðarnir geti dansað inn þá peninga, sem ætlazt er til, og fjvn. er reiðubúin að hlaupa undir bagga, ef dansinn dugir ekki til. Ég verð nú að segja, þegar slíkt kemur fram samtímis því, sem till., sem er lífsnauðsynleg fyrir heilt byggðarlag, er neitað, að menn verða að fyrirgefa mér, þó að ég trúi ekki á óskeikulleika þessarar n. í að framkvæma réttlætið.

Fleira mætti til telja í brtt. n. — Ég er ekki á móti því að heyra lúðrablástur á Austurvelli; það er skemmtilegt að heyra blásið í lúður. En fjvn. virðist hafa slíkan skilning á því, að það sé meiri nauðsyn á að veita fjárveitingu til þess að styrkja hornablástur en að leggja nauðsynlega vegi til að fullnægja þörf barna og sjúkra manna til mjólkur.

Ég skal ekki rekja þetta mál öllu. ýtarlegar. Ég vænti þess, enda þótt fjvn. hafi tekið þá afstöðu, sem raun ber vitni, að Alþ. muni sjá, hvað til síns friðar heyrir í þessu efni, og sú brtt., sem ég flutti ásamt hv. 5. landsk. til aukningar Súðavíkurvegarins, verði samþ. eða að minnsta kosti varatill. Ég get svo látið útrætt um þessar vegatill.

Þá vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um brtt., sem ég flyt ásamt hv. 2. og 4. þm. Reykv. og hv. þm. Str. á þskj. 743,XX. Hún miðar að því að heimila ríkisstj. að veita Íþróttasambandi Íslands 8000 kr. styrk til þess að hafa fastráðinn framkvæmdastjóra. Ég vil gera þá grein fyrir þessari till., að Íþróttasamband Íslands, sem nú eru í 180 félög íþróttamanna og 20 þúsund félagsmenn, hefur á undanförnum árum ekki haft neinn fastráðinn starfsmann. Starf sambandsstj. hefur þess vegna verið mjög mikið og svo mikið, að stjórnin hefur oft og einatt orðið að leggja á sig mjög mikil fjárútlát og svo mikla vinnu, að henni hefur naumast unnizt tími til að rækja störf fyrir sambandið eins og skyldi. Á síðasta þingi Íþróttasambandsins var samþ. að fela stjórn sambandsins að ráða sérstakan mann til þess að hafa á hendi framkvæmdastjórn fyrir Íþróttasambandið. Þetta hefur stj. gert og ráðið til þessa starfs ungan og efnilegan mann, Þorgeir Sveinbjörnsson, og hefur hann tekið við þessu starfi. Nú er fjárhag sambandsins þannig háttað, að það á mjög örðugt um vik að standast þann kostnað, sem þetta leiðir af sér. Einhver mundi nú kannske segja, að Íþróttasambandinu hafi verið veitt fé úr íþróttasjóði og enn fremur í fjárlögum. Þetta er rétt. Íþróttasambandið fær nokkurn styrk af því fé, sem íþróttasjóður hefur yfir að ráða. En þær 10000 kr., sem veittar eru í fjárl., eru veittar í sérstöku skyni, þeim á að verja til bókaútgáfu. Það eru ákveðnar bækur, sem verið er að prenta, svo að þessum peningum hefur fyrir fram verið ráðstafað. Almennri starfsemi sambandsins er því enginn styrkur að þessum 10000 kr., og framlag íþróttasjóðs hækkar ekki við það, að sambandið ræður fastan framkvæmdastjóra. Þess vegna er brýn nauðsyn á því að fá nokkurn hluta launa þessa starfsmanns í styrk frá Alþ.

Við flm. þessarar till. viljum beina því til Alþ. að sýna Íþróttasambandinu þann skilning á þjóðnýtu starfi fyrir æsku landsins að veita því þennan styrk. Það verður áreiðanlega ekki metið til fjár, hversu nytsamt æsku landsins verður af starfi íþróttafélaganna á hverjum stað. Alþ. hefur skilið þetta og gert mjög vel við þessi samtök, og ég hygg, að íþróttamenn og forstöðumenn Íþróttasambands Íslands meti og þakki það að verðleikum. En það er einu sinni svo, að við lifum á dýrtíðartímum, og samtök íþróttamanna komast ekki hjá því að verða einnig vör við þetta, og nú þegar ráða þarf fastan starfsmann, verður Íþróttasambandið að greiða há laun miðað við þær tekjur, sem það hefur. Ég vil taka það fram, að laun þau, sem þessi starfsmaður hefur, eru ekki há frá almennu sjónarmiði séð. Og sambandið hefur í hyggju að láta hann vinna önnur störf til þess að fá upp í launagreiðslu til hans.

Ég leyfi mér að vænta þess, að Alþ. komi þetta til móts við Íþróttasambandið, að þessi brtt., sem ég hef leyft mér að flytja hér á þingi ásamt formönnum þriggja flokka, finni náð fyrir augum hv. þm. og starf íþróttasambandsins verði þannig eflt og aukið í samræmi við þann stuðning, sem þingið veitir sambandinu með því að samþ. till.

Ég vil svo ekki fara fleiri orðum um þessa till. Ég flutti ekki fleiri till. við þessar umr., en vænti þess, að þessar tvær till., sem ég hef flutt, finni náð fyrir augum hv. þm.