18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

143. mál, fjárlög 1945

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég gat ekki verið viðstaddur, þegar 2. umr. fjárl. fór fram, sökum þess að ég var þá veikur. En ég stóð þá að nokkrum brtt. við fjárl. ásamt samþm. mínum, hv. 2. þm. Eyf. — Ég þarf ekki að eyða dýrmætum tíma þingsins til þess að þakka því meðferð þess á þessum till., því að það er skemmst frá að segja, að þessar till., sem ég stóð að, voru allar felldar nema þær, sem samþm. minn tók aftur til þessarar umr. fyrir okkar hönd. Þessar till. sem þá voru teknar aftur, voru þrjár, og við berum aftur fram tvær þeirra í trausti þess, að þingið taki sanngjarnlegar á þeim málum en það gerði við 2. umr. Um 3. till., sem aftur var tekin, er það að segja, að borin hefur verið fram till. af öðrum þm. um sama efni, sem hann flytur ásamt okkur þm. Eyf., og mun ég leyfa mér síðar að leggja fram skriflega brtt. við hana.

Sú fyrsta af þessum till. er 5. till. á þskj. 740, um framlag til Litla-Árskógssandsvegar, 70 þús. kr. Ég geri ráð fyrir því, að þetta þyki nokkuð há upphæð, þó að veittar hafi verið miklu hærri upphæðir í ýmis kjördæmi, en það mun nú hafa verið fyrir það, að þá till. mun tignari maður hafa borið fram en við þessir þm. erum. Þess vegna er það, að við þm. Eyf. höfum nú rifað seglin allmikið og berum fram varatill. við þessa á þskj. 743, um 15 þús. kr. fjárveitingu til þessa vegar. — Svo stendur á, eins og hv. samþm. minn mun hafa gert grein fyrir við 2. umr., að þessi vegur liggur af aðalveginum frá. Akureyri til Dalvíkur niður á Árskógssand, sem er töluvert þorp, og er vegurinn þangað nú að heita má ófær nema um bezta tíma ársins. Þessi till. miðar að því að koma þessu þorpi í vegasamband við vegakerfi landsins, og ekki aðeins það, heldur er svo háttað, að Hríseyingar fara oft — og vilja gjarnan hafa þann hátt á samgöngum sínum, — yfir sundið til Árskógssands, þegar þeir eiga leið til Akureyrar eða annað inn í land, og gæti því þessi till., ef samþ. yrði, orðið til að greiða mjög fyrir samgöngumálum Hríseyinga.

Önnur till. er um framlag til brúar á Hofsá í Svarfaðardal. Ég geri ráð fyrir, að við 2. umr. hafi verið greindar ástæður fyrir þessari till., auk þess sem hv. 2. þm. N.-M. sagði hér áðan. Ef þessi brú fæst ekki, bakar það Svarfdælingum mikinn kostnað vegna mjólkurflutninga, auk þess, að þá er mikill hluti sveitarinnar án vegasambands. Eins og hv. 2. þm. N.-M. gat hér um áðan, sneru mjólkurbílar aftur 63 sinnum á síðasta ári við Hofsá. Ég hygg, að engar framkvæmdir séu jafnaðkallandi í Eyjafjarðarsýslu sem þessi brú.

Þegar Ölfusárbrúin bilaði hér í haust, varð uppi fótur og fit hér á Alþ. og sjálfsagt þótti að bæta hið bráðasta úr, og var það gert. Nú hefur verið gert við Ölfusárbrú, en samt á að smíða nýja brú, og er það réttmætt, en ég fullyrði, að Ölfusárbrú er ekki nauðsynlegri fyrir Sunnlendinga en þessi brú er fyrir Svarfdælinga. Og þótt nú eigi að afgreiða fjárl. með nokkuð óvenjulegum hætti, — þá vona ég, að svo ákveðin fyrirmæli frá hærri stöðum liggi ekki fyrir, að þetta réttlætis- og nauðsynjamál nái ekki fram að ganga.

Ég held, að fyrir síðasta þingi hafi legið till. um vatnsveitu í Glerárþorpi., Þá færði ég rök að því, að eðlilegt væri, að ríkissjóður styrkti þetta mannvirki, enda þótt slíkt sé ekki venja. Ég óttast, að þetta þyki nokkuð há upphæð, og hef því borið fram till. til vara, sem hljóðar svo: Til vatnsveitu Glerárþorps, 20 þús. kr.

Um afgreiðslu fjárl. í heild væri full ástæða til að segja nokkur orð, þar sem þetta er 3. umr. Það er á allra vitorði, að á fjári. vantar um 17–20 millj. kr. til að mæta útgjöldum, sem áreiðanlega verða á næsta ári. Þetta mun vera í 28. skipti, sem ég sit á þingi, og minnist ég þó aldrei slíkrar afgreiðslu fjárl. Hæstv. fjmrh. sagði, að tekjuhallanum yrði mætt með tekjuaukalögum eftir áramót. En ég vil spyrja: Getur hæstv. ríkisstj. tekið slíkar ákvarðanir? Hingað til hefur verið litið svo á, að það væri þingið, sem hefði fjárveitingarvaldið. Hér í fjárlfrv. eru og liðir, sem eru til komnir á óvenjulegan og óþinglegan hátt, svo sem liðurinn um tekjuskatt, og sama er að segja um launauppbót vegna nýrra launal. Þar er gert ráð fyrir greiðslu, án þess að þingið sé búið að samþ. nokkuð hér um. Ég held, að með þessum hætti sé það alls óþarft að halda þing. Það mætti hafa það eins og í Þýzkalandi, meðan þar var haldið þing, að stj. gefi út lög og þingið komi svo saman og samþ. þau öll á einum degi.

Hæstv. fjmrh. lét þm. vita, að ekki þýddi að bera fram nokkrar hækkunartill. En hann lét þess kost, að till. frá einstökum þm. yrðu teknar til greina, ef þeir bæru fram lækkunartill. til að koma á móti slíkri hækkun. Í þessu tilfelli mundi ég sætta mig við, að brúin á Grjótá yrði látin bíða, en sett brú á Hofsá. Yrði það 35 þús. kr. sparnaður.

Ég skal ekki segja, hver hin endanlega afstaða til fjárl. verður, en mér sýnist afgreiðsla þeirra svo ískyggileg, að ég óttast, að enda þótt ég hafi nú samþ. fjárl. í 21 skipti, þá sjái ég mér ekki fært að gera það að þessu sinni.

Ég leyfi mér svo að afhenda forseta hina skriflegu brtt.