18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

143. mál, fjárlög 1945

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Við 2. umr. fjárl. féllu þau orð hjá hv. 1. þm. Rang., að ekki hefði gætt hlutdrægni í úthlutun vegafjár. Ég svara þessu ekki, en vil einungis benda á, að sú gagnrýni, sem fram kom hjá hv. þm. N.-Ísf., og sá fjöldi brtt., sem borizt hefur, bendir ekki til, að menn séu yfirleitt ánægðir. — Nú vil ég leggja til, að viðhöfð verði ný aðferð til að losna við óánægju í þessu efni. En hún er á þann hátt, að veitt sé í einu lagi upphæð til vegamála, sem svo sé aftur úthlutað af n. úr báðum deildum þingsins. Þetta mundi koma í veg fyrir ásakanir í garð fjvn.

Ég vil lýsa yfir því út af ummælum 2. þm. N.M., að hann talar af vanþekkingu um Ósá. Hennar vegna hafa flutningar einatt alveg stöðvazt og orðið að flytja nauðsynlegan flutning á hestum.

Vegna Hofsár vil ég upplýsa það, að þegar rætt var um að taka þennan veg í þjóðvegatölu, var bent á, að þessi hreppur fengi tvöfaldan veg, bæði upp og niður með ánni. Þess vegna er þar enn meiri ósanngirni að krefjast framlags til þessarar brúar, á meðan margar aðrar bíða. Ég held, að menn á útkjálkunum mundu jafnvel gráta af gleði, ef þeir þyrftu ekki að reiða nauðsynjavarning nema yfir eina á. En það virðist álit sumra manna, að sjálfsagt sé að hlúa einatt að þeim, sem bezta hafa aðstöðuna.

Ég vil þakka afgreiðsluna á þeim till., sem ég tók aftur til 3. umr. Ég skil fullkomlega afstöðu n. gagnvart vegatill. og þykist vita, að þær séu ekki svo afgreiddar af því, að hún álíti þær ekki réttmætar, heldur af því, að hún vill ekki brjóta þann garð, sem þar er settur.

Þó vil ég taka hér aftur upp till. um veg að Reykhólum. En svo er mál með vexti, að ef þar á að hefja framkvæmdir þær, sem fyrirhugaðar eru, verður að flytja allt efni á klakk. Þar er einnig ákveðið að byggja sundlaug, því að samkv. fræðslul. má ekkert barn fermast nema það sýni sundvottorð. Þessi börn verður því að senda hvaðanæva úr Barðastrandarsýslu, oft langan veg og torsóttan, því að þar hefur orðið að stöðva framkvæmd sundlaugarinnar af hinum sömu ástæðum: Það vantar vegi til að komast að henni. — Vil ég því mælast til þess, að hæstv. Alþ. styðji að því, að þetta verði hækkað upp í 40 þús., til þess að e.t.v. verði hægt að ryðja veginn svo mikið að sumri, að hægt verði að komast þangað, a.m.k. þegar þurrast er og bezt.

Þá hef ég einnig borið fram till. um að hækka tillag til Barðastrandarvegar um þær 70 þús. kr., sem ég álít, að hv. fjvn. hafi ranglega tekið frá Barðastrandarsýslu, þvert ofan í það samkomulag, sem gert hefur verið um þau vegaframlög yfirleitt. Ég hef aður rætt um nauðsyn þessa vegar og vil ekki endurtaka það hér.

Ég vil, áður en ég hætti, bera fram nokkrar fyrirspurnir til hv. frsm. viðvíkjandi öðrum til. hv. fjvn.

Ég vil þá fyrst fá upplýsingar um það, hvort ætlazt er til með brtt. á þskj. 725, merktri XXIV, að þessar 15 þús. kr. séu veittar til Eiríks Einarssonar, Réttarholti, sem árlegur styrkur eða í eitt skipti fyrir öll. Mér heyrðist á ræðu hv. 6. þm. Reykv., að hann ætlaðist til, að þessi upphæð, sem hann fer fram á, sé veitt í eitt skipti fyrir öll. Ég spyr um þetta af því, að ég hef gaman af að sjá, hvernig fer um þetta mál. Ég er því persónulega fylgjandi, — ekki af því, að maðurinn hefur eignazt 15 dætur, heldur af því, að ég vil láta styrkja hvern þann mann, sem á 15 börn. — Ef farið verður inn á þessa braut, verður ekki hjá því komizt, að hér komi heil runa á eftir, því að vitanlega eru Réttarholtshjónin ekki einu hjónin á Íslandi, sem eignazt hafa 15 börn, er öll lifa.

Ég vil benda á, að ég þekki tvö heimili í Barðastrandarsýslu, þar sem eru 15 börn, og þriðja heimilið, þar sem eru 17 börn, er öll lifa. Ég tel mér skylt að láta þess getið, að þessi kona, sem eignazt hefur 17 börn, hefur alið þau upp og það svo, að enn þá koma þau heim til að skipta með sér verkum og létta undir með foreldrum sínum á mesta útkjálka, sem neitað hefur verið um öll þægindi af hálfu hins opinbera. — Mér þykir því mjög vænt um að sjá, að nú er vaknaður hjá hæstv. Alþ. áhugi á því að meta eins og vera ber þennan mikilsverða skerf, sem slík hjón leggja til þjóðinni.

Þá er það brtt. hv. fjvn., 37. liður 18. gr. Þó að hækkunin nemi ekki nema 200 kr., er ég hv. n. þakklátur fyrir það, að hún hefur þó metið það mikla starf, sem frú Sigríður hefur innt af hendi fyrir landssímann.

Ég vil benda hv. frsm. og hæstv. fjmrh. á það, að 47. liður 22. gr., um að ábyrgjast fyrir Konráð Gíslason allt að 50 þús. kr. lán til þess að koma upp vinnustöð fyrir áttavitamælingar í Reykjavík, er algerlega óþarfur frá mínu sjónarmiði. Hér er um hreinan iðnað að ræða, og væri alveg eins hægt að ábyrgjast lán til þess að koma upp húsi í því skyni að gera dýptarmælingar og því um líkt. Og ef það er rétt, að Konráð þurfi að víkja frá bæjarhúsunum, þá ber engum frekar að sjá um hann en Reykjavíkurbæ, sem á allt sitt undir því, að skipin geti siglt réttar leiðir um höfin. Það er margt annað í sambandi við þetta, sem ég kæri mig ekki um að upplýsa, en ég álít það hreinustu glæfrastefnu hjá hæstv. Alþ. að fara hér að styrkja einn mann til þess að koma upp iðnaði, sem allir vildu hafa á hendi, ef þeir hefðu aðstöðu til þess, — eða koma yfir hann byggingu, ef hann hefur húsnæði til að reka þessa atvinnu án þess að þurfa að byggja.

Ég vildi spyrja hv. frsm. og hæstv. fjmrh., hvað þeir ætla sér með 22. gr. Það er talað um að verja til aukningar fiskiskipastól landsins 5 millj. kr., er teknar verði úr framkvæmdasjóði, að því leyti sem hann hrekkur til.

Mér er kunnugt um það, að í fyrra var varið 5 millj. kr. til kaupa á sænskum bátum. Var það gert af fráfarandi ríkisstj. þvert ofan í vilja a.m.k. stærstu flokkanna í þinginu, sem bentu á það með rökum, að lítil fyrirhyggja væri í því að kaupa þennan flota því verði, sem gert var, enda er það komið á daginn, að sænska ríkisstj. hafði, að mér er sagt, stöðvað útflutning til allra annarra en ríkisstj. Íslands, af því að hún hafði boðið svo mikið í þessi skip. Þetta er svo stórt atriði, að nauðsyn ber til, að spyrnt verði við fótum. Það er ekki lítið fjárhagsatriði fyrir Íslendinga, að þeir láti ekki sænsku stj. hafa af sér milljónir kr. í slíkum viðskiptum.

Ég vildi minnast dálítið á vatnsveitustyrkinn, sem hér er til umr. Ég tel nauðsynlegt, að samin verði sem allra fyrst heildarlöggjöf um styrk til þess að koma upp vatnsveitu um allt land. Ég tel alveg ófullnægjandi, að þingið sé látið skera úr því, hvernig fer um þessi mál. Einn kemur með till. um þetta og annar um hitt. Þetta er svo stórt mál, að það verður að taka það föstum tökum. Það er þegar fullvíst, að Búnaðarfélag Íslands hefur gert tilraun til að lækka um 20% allar vátryggingar hjá bændum, ef vatnsveitan hefur verið komin í gott horf hjá þeim heima fyrir. Síðan hafa þeir lánað þorpunum fé og tekið sömu iðgjöld, en látið mismuninn ganga til vaxta og afborgana af láninu, þar til það er að fullu greitt.

Þetta er svo stórt mál, að það má ekki bíða stundinni lengur, og ég tel, að það mundi ýta undir löggjöfina, ef allar ábyrgðir um vatnsveitu væru felldar á þessu þingi.