18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

143. mál, fjárlög 1945

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég mun ekki fara ýtarlega út í það, sem hv. þm. hafa sagt, ýmist í umkvörtunartón yfir till. fjvn. eða tillöguleysi — eða þá til framdráttar sínum málum. Það mundi taka of langan tíma og væri í sjálfu sér þýðingarlaust.

Hins vegar verð ég auðvitað fyrir hönd n. að verja hana þeim áburði, sem komið hefur úr einstöku átt, að hún hafi beitt ranglæti, því að þá væri, að mér skilst, miklu fremur um vísvitandi verknað að ræða. Hitt er auðvitað engan veginn á valdi fjvn. að geta uppfyllt óskir, ekki einu sinni þær mjög svo réttmætu óskir, sem bornar eru fram og rökstuddar af hv. þm., t.d. þeim hv. þm., er síðast talaði. Því fer fjarri, að ég vilji halda því fram, að ekki sé þörf á samgöngubótum, t.d. í Austur-Skaftafellssýslu, eins og hv. þm. minntist á, og svo mætti segja um margar fleiri till. svipaðs eðlis. En þegar við 2. umr. þessa máls komu fram hjá fjvn. skýr rök varðandi þessar brúarsmíðar, sem sé þau, að fyrir liggur svo mikið af brúarsmíðum og svo mikið fé geymt til þeirra hluta, — um 5 millj. kr. —, að álitið er mjög vandséð af þeim, sem bezt til þekkja, að hægt verði að vinna fyrir það allt á því fjárhagsári, sem hér er til umr. — Það er raunar mjög leitt og sízt af öllu ánægjulegt fyrir fjvn. eða formælendur hennar að þurfa að mæla gegn samþykkt slíkra till. Ég er sannfærður um, að flest af því, sem fært er fram til framdráttar þeirri nauðsyn að auka brúarsmíði, hefur við fullkomin rök að styðjast. En við verðum hér eins og svo oft að horfast í augu við staðreynd, sem ekki verður um þokað, þá staðreynd, að 20 brýr bíða eftir smíði, sem þegar er búið að veita fé til.

Ýmsir hv. þm. hafa haldið því fram, að n. hafi, að því er snertir vegi, ekki framfylgt þeirri reglu að halda sér sem næst við vegafjárveitingar, eins og þær voru í fjárlfrv. fyrir árið 1944. Ég vil meina, að þetta sé á nokkrum misskilningi byggt, og á þetta þó einkum við þar, sem vegakaflar, sem búið er að leggja stórfé til, eru komnir h.u.b. á enda. Þá er auðvitað þörf á því að sjá sömu sýslu eða umdæmi fyrir jafnhárri fjárveitingu. Þetta getur í fljótu bragði, miðað við aðra staði, þar sem meira er óframkvæmt, litið út sem ósanngirni, en þannig mun það í fæstum tilfellum vera og aldrei þannig, að fjvn. hafi haft það í huga við till. sínar.

Hv. þm. Barð. fór geyst af stað í þessum efnum, og var alhnikið öldurót norður í Djúpum, þegar hv. þm. var hér á ferð. En ég býst nú við, ef hann gætir vel að, að ekki sé um það mikla ranglæti að ræða, sem hann beindi að fjvn. Hann verður að gæta að því, að enda þótt hans sýsla, sem hann ber mjög fyrir brjósti, — og skal honum sízt legið á hálsi fyrir það, — hafi mikla þörf fyrir vegi, þá hefur hún líka mikla þörf fyrir samgöngur á sjó og verður því hlutfallslega þurftarfrekari til vega. Til vega í Barðastrandarsýslu eru raunar ekki veittar stærstu upphæðirnar, en sumar þó allstórar.

Í samgöngum á sj8 er kjördæmi hv. þm. N.-Ísf. með langhæstar till., að vísu ekki frá fjvn., heldur samvinnun. samgöngumála, og mun fjvn. ekki leggjast á móti þeim vegna þeirrar brýnu þarfar, sem þar er í því efni. Í þeim till. eru 170 þús. kr. ætlaðar til Djúpbátsins. Ef hv. þm. N.-Ísf. athugar þetta í ró, mun hann sjá, að talsvert mun ofmælt af því, sem hann sagði um nefndina. — Hann minntist nú á styrkinn til lúðrasveitarinnar, sem fjvn. hefur fallizt á að mæla með, þó ekki nema helmingi af því, sem um var beðið, eða 25 þús. kr. Eins og hv. þm: N.-Ísf. sagði, er þetta ekki til vegalagninga eða þvílíks. En það koma fyrir þau atvik í lífi þjóðarinnar, þar sem sjálft ríkisvaldið þarf á lúðrasveit að halda, og er þess nú skammt að minnast. Ég held því, að það sé afsakandi, þó að fjvn. hafi ekki alveg skellt skolleyrunum við því, að þessi tegund listarinnar væri eitthvað styrkt.

Hv. 1. þm. N.-M. (PHerm) talaði hér um sérstaka upphæð til skáldsins Gunnars Gunnarssonar, sem hann flytur brtt. um. Skal ég á engan hátt mæla á móti þeim ágætu rökum, sem hann færði fram þessu til stuðnings. En að því er snertir niðurlag ræðu hans, þar sem hann lagði til, að Alþ. ætti að velja úr nokkra úrvalsmenn af þessu tagi, skáld, rithöfunda og listamenn, og setja þá með ákveðnar upphæðir sérstaklega á fjári., en láta fjöldann af þessum mönnum vera svo sér í hópi á sama hátt og nú er lagt til um alla þessa menn, — að því er snertir þessa till., þá kann að vera, að hún hafi sitthvað til síns ágætis. En þessi hv. þm. (PHerm) mun vita af langri þingmannsreynslu, eins og flestir, sem hér eru staddir, að það er ekki alltaf á einn veg, sem litið er á kosti listamanna eða rithöfunda, og gæti svo farið, að úrvalsmennirnir yrðu nokkuð margir, þegar allir kæmu saman, eftir nokkurn tíma, þótt aðeins væri byrjað á einum. Mér hefur alltaf skilzt, að það, að hætt var við að telja upp í löngum lista á fjárl. skáld, rithöfunda og listamenn, hafi stafað af því, að alþm. hafi verið orðnir leiðir á því og ekki talið sjálfa sig bæra að meta hæfileika þessara manna. Og án þess að fella nokkurn dóm um réttmæti till. hv. 1. þm. N.-M. og um ágæti þessa rithöfundar, sem þar er um að ræða, álít ég óheppilegt að taka upp aftur þessa reglu, að setja skáld, rithöfunda og listamenn inn á fjárl. með nafni og vissar upphæðir, jafnvel þótt um úrvalsmenn væri að ræða. Að öðru leyti skal ég um þá till. segja, að hún vitaskuld stendur og fellur sínum herra, og það er Alþ. sjálft, sem kemur til með að dæma í því efni, og fjvn. sem slík leggur hvorki með né móti þessari brtt. eða öðrum af slíku tagi. Þar verður hver þm. að hafa óbundnar hendur um.

Hv. 2. þm. N.-M. (PZ) talaði hér um læknisvitjanastyrki og leit svo á, að samkv. brtt. fjvn. væri eitthvað hallað á suma hreppa, sem hlut geta átt að máli um þessa styrki. Nú er það svo, að n. leggur til, — og er það samkv. till. landlæknis, — að liðurinn orðist þannig: Til læknisvitjanasjóða skv. l. nr. 59 4. júlí 1942. — Um þetta vil ég segja það, að þó að hv. formaður fjvn. kunni að hafa sagt eitthvað við hv. 2. þm. N.-M. um þetta, þá veit ég ekki til þess, að nokkur önnur samþykkt hafi verið gerð um þetta mál en sú, sem fyrir liggur í till. fjvn. á þskj. nr. 725, enda má segja,, að þeir hreppar, sem höfðu fengið læknisvitjanastyrk eða hafa fengið hann fram að þessu, en höfðu ekki stofnað hjá sér læknisvitjanasjóði, — þeir verða að sjálfsögðu að fá að halda honum. Má raunar segja, að því hafi verið lofað, þegar l. um læknisvitjanasjóði voru sett. Mér þykir þess vegna gott, að hv. 2. þm. N.M. hefur það ekki á móti brtt. n., að vitnað er til l., eins og ég gat um. (PZ: Það er búið að breyta skipun læknishéraða síðan.) Það skiptir ekki máli í þessu efni. Fjvn. í heild stendur að þessari brtt. á þskj. 725. En hafi einhver nm. lofað hv. 2. þm. N.-M. sérstaklega að verða við tilmælum hans í aðra átt, læt ég það algerlega óátalið.

Viðkomandi brtt. fjvn., nr. 6 á þskj: 725, og því, er hv. 2. þm. N.-M. spurðist fyrir um í því sambandi, er það að segja, að orðalagið: „Styrkurinn er bundinn því skilyrði, að þeir, sem styrks njóta, inni af hendi að loknu námi minnst 5 ára þjónustu í þágu landsins“ á að skiljast þannig, að þetta á ekki við það, að sett sé upp; að þessir menn vinni í þjónustu ríkisins þennan tilskilda tíma, heldur í þjónustu þjóðarinnar, þ.e.a.s., að þeir vinni fyrir íslenzka hagsmuni, annaðhvort fyrir hið opinbera eða einkafyrirtæki. Það, sem hv. 2. þm. N.-M. hélt fram um þetta, er því alveg í samræmi við skilning fjvn. á þessu máli.

Þá vil ég taka það fram í sambandi við þá fimm menn, sem fjvn. gerði till. um hækkun til á þessum lið, og að ég talaði í fyrri ræðu minni um, að þessir fimm ákveðnu menn ættu samkv. till. n. allir að fá jafnan styrk, að mér varð mismæli, er ég sagði það, og bið ég afsökunar á því: En menntamálaráð á að ráða úthlutun á styrknum til þessara manna. Það var vitaskuld ekki á valdi fjvn. að ákveða, hvað hver af þessum fimm mönnum fær, enda voru mismunandi upphæðir nefndar í umsóknunum, eins og hv. 2. þm. N.-M. kom líka að. Þess vegna verður það á valdi menntamálaráðs að verða við tilmælum eða styrkbeiðnum sem þeirri, er hv. 2. þm. N.-M. gerði sérstaklega að umtalsefni. Það, sem fjvn. gerði í þessu efni, var að bæta þarna við 15 þús. kr., og það er ætlazt til þess, að sú viðbót gangi til þeirra manna, sem ég nafngreindi, en vitanlega úthlutað samkv. ákvörðun menntamálaráðs. Ég vil því undanbiðja fjvn. ámæli fyrir að hafa ekki viljað sinna þessum umsóknum. Hitt er svo annað mál, og veit hv. 2. þm. N.-M. það, að oft er það svo, að menn geta ekki fengið allt, sem þeir biðja um. Og það kemur fram við umr. um þetta fjárlfrv., að margir eru óánægðir með það, að bænir þeirra hafa ekki verið heyrðar um framlag í fjárl.

Annars var það svo, að ég gat í fyrri ræðu minni um þrjá liði, sem fjvn. væri ekki að öllu leyti sammála um, þó að meirihlutafylgi reyndist fyrir þeim í n. Var það till. um að fella niður styrk til fyrirtækisins Íslenzk ull og sömuleiðis styrk til framleiðslubóta og atvinnuaukningar og í þriðja lagi til sumardvalar barna í sveit. En það er þýðingarlaust, að ég fari að lýsa persónulegu áliti einstakra fjvn.- manna um þessi atriði.

Þá skal ég leitast við að svara nokkrum fyrirspurnum frá hv. þm. Barð. — Hann spurði, hvort fjvn. ætlaðist til, að um árlegan styrk yrði að ræða til Eiríks Einarssonar, Réttarholti, sem n. leggur til, að fái 2500 kr. En svo er ekki, heldur ætlast fjvn. til, að þessi upphæð verði veitt honum í eitt skipti fyrir öll. Vera kann, að þetta þyki smáskorið. En fjvn. er nú eiginlega ekki bær um að fara inn á þá braut, sem hv. þm. Barð. talaði um í þessu sambandi. Það getur vel verið, að það sé alveg rétt í sjálfu sér, og má margt segja því til stuðnings, að sérstaklega fátækir foreldrar, sem hafa fyrir stórum barnahóp að sjá, fengju nokkurn styrk á einhvern hátt. En það liggur í sjálfu sér ekki fyrir hér að taka afstöðu til þess, nema þá ef vera skyldi, hvað þessa sérstöku brtt. snertir. En jafnvel þótt viðurkenna megi fyllilega réttmæti þess, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta, þá lít ég þannig á, að ef styðja ætti barnmörg heimili með slíkum ráðstöfunum, — sem mjög vel mundi geta komið til mála, — þá ætti að gera það eftir sérstakri löggjöf.

Þá spurði hv. þm. Barð. um hækkunina á póstmönnum, hvort þar væri átt við frú Sigríði Snæbjörnssen, og get ég svarað því játandi.

Þá minntist hv. þm. á heimild þá, sem fjvn. leggur til, að veitt sé handa Konráði kompásasmið til, þess að koma upp vinnustofu, þ.e. 50 þús. kr. lánsheimild. Þessi maður sendi umsókn til fjvn. um styrk upphaflega til þess að byggja. Í meðferð málsins varð það úr, að fjvn. féllst á að leggja til, að ríkisstj. fengi heimild til þess að ábyrgjast lán til þessa hlutar. Það var upplýst fyrir fjvn., að þessum manni væri byggt út með vinnustofu sína í Verbúðunum og þá sennilega af eiganda Verbúðanna, sem mun vera Reykjavíkurbær eða Reykjavíkurhöfn. Ég hef sjálfur reynslu af því, að maðurinn vinnur þetta verk og heldur uppi þessari starfsemi. Og fyrir fjvn. lá ekkert, sem væri þess eðlis, að það gæti hnekkt þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, bæði um starf þessa manns og húsnæðisleysi hans. Ég get ekki sagt eins og hv. þm., að ég viti neitt sérstakt meira um þetta en það, sem fyrir fjvn. lá, en svona var þetta mál flutt fyrir n. Og ekki er það fordæmalaust, að menn hafi fengið ríkisábyrgð fyrir láni til þess að byggja, og það jafnvel fyrir það, sem oft og tíðum kemur ekki að eins raunhæfu gagni og það, að gert sé við áttavita bátanna.

Þá spurði hv. þm. Barð um 5 millj. kr. heimildina til ríkisstj., sem till. er um í brtt. fjvn. undir 47. lið, k, um að verja til aukningar fiskiskipastóli landsins 5 millj. kr., er teknar verði úr framkvæmdasjóði. Spurðist sá hv. þm. fyrir um, hvað fjvn. hygðist fyrir í því efni. Því er þar til að svara, að fjvn. hugðist það fyrir í því efni að verða við tilmælum hæstv. atvmrh., sem fór fram á, að þessi heimild væri sett inn í fjárl. En þar er ekkert um það sagt, að verja eigi þessu fé til kaupa á bátum frá útlöndum, heldur aðeins, að það eigi að vera til aukningar fiskiskipastóli landsins. Og þrátt fyrir það að vel megi satt vera, að allt of mikið verð hafi verið borgað fyrir þessa Svíþjóðarbáta svo nefndu, þá virðist ekki ástæða til að synja hæstv. ríkisstj. um heimild slíka sem þessa, þar sem aðeins til er tekið, að fénu skuli varið til aukningar fiskiskipastóli landsins, án þess að til sé tekið, hvort skipin skuli byggð innan lands eða utan, því að ég get ímyndað mér, að þótt margir eigi að njóta góðs af stuðningi ríkissjóðs, að því er snertir Svíþjóðarbátana, þá sé enn þá allmikill hópur manna, sem þurfi á aðstoð að halda til þess að eignast skip, smíðuð annaðhvort innan lands eða utan.

Eins og kunnugt er, flutti fjvn. við 2. umr. brtt. um kirkjubyggingar eða um styrk til kirkjuviðgerða á einum fimm stöðum, að mig minnir, og tók þær aftur til 3. umr. eftir tilmælum hæstv. fjmrh. Ýmsir hafa spurt, hvers vegna fjvn. hafi ekki tekið þessar brtt. upp aftur til flutnings nú við 3. umr. Þetta mál var rætt nokkuð í fjvn. á milli 2. og 3. umr., og náðist ekki samkomulag í n. um að flytja sams konar brtt. og áður um þetta eða aðrar í þeirra stað, sumpart af því, að hæstv. ráðh. hafði beðið um, að brtt. yrðu teknar til baka, og sumpart af því, að við umr. í fjvn. kom það fram, að öll líkindi væru til, að ekki væri rétt að fara með till. af stað aftur að þessu sinni, meðan enn væri óráðið, hvort fallizt yrði á þá stefnu, að ríkið tæki að sér að styrkja kirkjuviðgerðir eða kirkjubyggingar. Það má vel vera, að þetta kunni einhverjum að líka miður. En við vissum það, og það vita allir, að hér á Alþ. hafa verið samþ. einstakir styrkir til kirkjubygginga eða viðhalds kirkna. En till. um þessa styrki hafa jafnan verið fluttar af einstökum þm., og þetta hefur enn ekki verið í svo stórum stíl, að hægt sé að segja, að í þessu hafi verið mörkuð stefna. Þetta er ástæðari fyrir því, að fjvn. flutti ekki aftur þessar brtt. viðkomandi kirkjunum. Og ekki náðist samkomulag um þetta í n., og var svo látið kyrrt liggja.

Ég skal svo að lokum minnast lítillega á niðurlag ræðu hv. 1. þm. Eyf., þar sem hann taldi, að afgreiðsla fjárl. yrði nú með nýjum hætti og óvenjulegum. Það má segja, að við samning flestra fjárl. eða afgreiðslu séu gerð í einhverjum atriðum frávik frá því, sem áður hefur verið. En að því er snertir það að taka inn í fjárl. tekjur eða gjöld, sem ekki eru þegar búin að ná formlegri samþykkt þingsins, þá er að vísu ekki hægt að segja, að það sé viðkunnanlegt, og ég vil ekki halda því fram, að það sé í fyllsta máta rétt: En eins og nú horfir við um afgreiðslu fjárl. og hve stutt er nú til þingfrestunar (yfir jól og nýár), en hins vegar hefur orðið samkomulag um afgreiðslu l. um þessar tekjur og gjöld, en verður ekki við komið samþykkt þeirra fyrr en eftir þessa þingfrestun, þá er varla hægt að hafa aðra framkvæmd á þessu en þá, sem nú stendur til að gera ráð fyrir, að þessar 6 millj. kr. til inntekta samkv. tekjuskattsviðaukafrv. og þessar 41/2 millj. kr. til gjalda samkv. launalagafrv. komi inn í fjárl. Og það er alveg með öruggri vissu hægt að segja það, að þar sem hæstv. ríkisstj. hefur bundið fastmælum, að launal. verði afgreidd á þessu þingi, og hins vegar liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj. frv. um tekjuskattsviðauka, og þar sem enn fremur er vitað, að nægilegur þingmeirihluti er til fyrir því að samþ. þessi frv. hvort fyrir sig, þá er það í sjálfu sér ekkert sérstaklega varasamt, þótt gert sé ráð fyrir þessu hvoru tveggja í fjárlfrv. Hitt var líka mjög rætt, hvort bíða ætti með afgreiðslu fjárl. fram yfir nýár, sem fordæmi er fyrir. En á því þóttu enn meiri ágallar að bíða með afgr. fjárl., þar til öll þau frv. væru afgreidd, sem inn í þau kynnu að grípa.