18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

143. mál, fjárlög 1945

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Út af síðustu ummælum í ræðu hv. þm. V.-Húnv. vil ég segja, að það er ekki rétt álit hjá honum, að neitt ósamræmi sé hjá fjvn., þegar hún fellst á, að rétt sé að taka inn í fjárl. tekjur samkvæmt tekjuaukafrv., sem liggur fyrir með áætluðum tekjum til að mæta áætluðum útgjöldum launalfrv., sem líka liggur fyrir. Það er ekki ósamræmi í þessu og hinu, þó að n. vilji ekki taka inn í frv. tekjuaukaáætlanir, sem eru ekki kunnar, þegar umr. fer fram. Það er þessi munur, sem ég vil benda honum á. (SkG: Ég talaði um gjaldahliðina.) Já, en hér er fjvn. að taka tillit til tvenns konar till., annarra til gjalda, en hinna til tekna, en í hinu tilfellinu liggur að vísu fyrir, þó ekki ljóst, hver gjöld kunni að verða að því, er snertir dýrtíðarfrv. Hitt er enn óráðið, en mun koma fram á sínum tíma, á hvern hátt hæstv. stj. leggur til, að þeim útgjöldum verði mætt. Hér er því um tvennt ólíkt að ræða, og gætir því einskis ósamræmis hjá n., að því er þessi tvö atriði snertir.