18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

143. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Það hafa nokkrir hv. þm., þar á meðal hv. síðasti ræðumaður, minnzt á þetta ósamræmi í fjárl. hvað snertir launal. og dýrtíðarráðstafanir. Skilst mér, að það hafi sætt mestri gagnrýni, að kostnaðurinn við dýrtíðarráðstafanir hafi ekki verið tekinn inn á fjárlfrv., þar sem vitað er, að þær ráðstafanir hafa veruleg útgjöld í för með sér. Í þessu sambandi er rétt að svara þeirri fyrirspurn, sem 1. þm. Rang. beindi til mín. Hann spurði, hvort samkomulag væri innan stj. um, að dýrtíðarfrv. næði fram að ganga. Ég er búinn að gefa yfirlýsingu um það tvisvar eða þrisvar og get gert það einu sinni enn, að um þetta hefur enginn ágreiningur verið innan ríkisstj. og hún er öll sammála um framgang þess.

Ég get nú játað, að það sé út af fyrir sig óheppilegt, að kostnaður vegna dýrtíðarráðstafana verði ekki tekinn inn á fjárlfrv., af þeirri einföldu ástæðu, að fjárlfrv. á að vera sem réttust mynd af fjárlagameðferðinni, sýna sem réttasta mynd af tekjum ríkisins og gjöldum. Hins vegar á ég dálítið erfitt með að skilja, að hv. þm. skuli hneykslast svo mjög á þessu, þó að óheppilegt sé. Ef það væri í fyrsta skipti, sem þetta kæmi fyrir, væri það ekkert undrunarefni, og þá mundi ég taka með þögn og þolinmæði þeirri gagnrýni, sem beitt hefur verið gegn þessu. En þetta er alls ekki í fyrsta skipti. Ég skal t.d. upplýsa það, að í októberlok var búið að greiða kr. 19651614,00 skv. sérstökum l., — útgjöld, sem ekki eru tekin inn á fjárl. 1944. Ég var að vísu ekki við fjárlagaafgreiðsluna í fyrra, en ég ætla, að mér sé óhætt að segja, að ekki hafi verið haldnar eins margar ræður og nú um þessi atriði. Og sannleikurinn er sá, eins og þeir hv. þm. vita, sem mest hafa deilt á stj. fyrir þetta, að tíðkazt hefur fyrr og síðar, að milljónir kr. hafa verið greiddar, án þess að þær sæjust í fjárl. (HelgJ: Óviss útgjöld?) Það er ekki hægt að kalla það óviss útgjöld, sem sérstök l. eru sett um eða ákveðin eru fyrir fram af Alþingi.

Sú gagnrýni, sem komið hefur fram út af hinu, útgjöldum vegna væntanlegrar samþykktar launal., finnst mér enn fjarlægari en hin gagnrýnin. Hún er fjarlægari af því, að þau útgjöld eru tekin til þess að láta fjárl. sýna rétta mynd af útgjöldunum, hvað þetta snertir. Vitað er, eins og margtekið er fram af hinum og þessum, að samkomulag er um það, a.m.k. innan stjórnarhópsins á þ., að þetta mál nái fram að ganga. Er engin ástæða til að láta hjá líða að taka það upp á fjárlfrv.

Mér er skylt að biðja afsökunar á því, að ég mun hafa fárið með rangt mál, þegar ég sagði, að samkomulag hefði verið um það í fjvn. að afgreiða fjárlfrv. nú fyrir áramót. Ég gerði það ekki viljandi að fara rangt með þetta. Ég þóttist í sannleika sagt hafa nokkra ástæðu til að halda, að fullt samkomulag hefði verið um það, því að engin mótmæli komu fram gegn því, þegar ég talaði við hv. fjvn. um þetta. (HelgJ: Seint um kvöldið á sama fundi komu þau fram.) Ég vissi það ekki og kom ekki í hug, að um neinn ágreining væri að ræða. — Ég hef fært þau rök, sem ég taldi sæmilega góð, fyrir því, að þetta hafi verið skynsamleg aðferð og viðkunnanleg. Ekki er hægt að neita því, að það er ákaflega óviðkunnanlegt að byrja árið fjárlagalaust, þegar þ. hefur setið svona lengi. Þó að ýmsum þyki ámælisvert að afgreiða fjárl., áður en gengið er endanlega frá skattal., þá álít ég, að þetta sé þó viðfelldnari aðferð, fyrir utan það, að ég álít hana hagfelldari.

Hv. 1. þm. Rang. véfengdi, að hægt væri að ná inn svo miklum tekjum með nýjum skattal., að hægt yrði að standa undir gjöldum vegna dýrtíðarráðstafana. Ég get ekki neitað því, að mér finnst gæta dálítils ósamræmis hjá honum í þessu efni, þegar hann að heita má um leið og hann gefur þessa yfirlýsingu, talar fyrir brtt., sem hækkar útgjöld fjárl. um 2 millj. kr. (HelgJ: Ég vildi lækka upphæðina um eina millj., en það fengust ekki afbrigði fyrir því.) Það er ekki mín sök. Það er að vissu leyti aukin bjartsýni að sjá till. þessa koma fram á síðustu stundu og einnig till. hv. þm. Mýr. um 750 þús. kr. framlag til landnáms við þorp og kauptún og verja allt að 250 þús. kr. á ári í því skyni. Hv. þm. hafa á undanförnum árum ekki hreyft þessu, mér vitanlega, en það, að þeir koma fram með þetta núna og ætla að greiða þriggja ára framlag í einu, bendir til þess, að þeir telji fjárhag ríkisins betur komið nú en á undanförnum árum.

Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að það væri ótrúlegt, að stj. hefði ekki, þegar hún tók við völdum, verið búin að gera sér grein fyrir, hvernig tekna skyldi aflað. Þetta er ákaflega einkennileg ásökun, því að hvorki stj. né hv. 1. þm. Rang. höfðu hugmynd um það fram á þennan dag, hversu miklar tekjur þyrfti til þess að standa undir útgjöldunum. Og það er jafnvel fyrst í dag, að við vitum nokkurn veginn með vissu, hve mikil gjöldin verða, svo að ekki hlaupi á mörgum millj. kr.

Hv. 1. þm. Eyf. er fjarstaddur núna. Ég veit ekki, hvort ástæða er til að svara því, sem hann beindi til mín, enda hef ég nú óbeinlínis svarað því. Hann var að tala um, að nokkur einræðissvipur væri á stj., og sagði, að ég hefði tilkynnt, að engin till., sem ekki væri frá stj. eða fjvn. hefði staðið að á fjárl., næði fram að ganga. Ég sagði þvert á móti, að gera mætti ráð fyrir, að einhverjar till. við fjárl. næðu samþykkt, þótt ríkisstj. og fjvn. stæðu ekki að þeim. Hins vegar er reynt að halda útgjöldunum í einhverjum skefjum. Það er einkennilegt að heyra hv. þm. jöfnum höndum víta stj. fyrir það, hve útgjöldin séu mikil, og svo jafnframt fyrir það, að hún standi á móti stórfelldum hækkunartill., sem þeir bera fram. Með slíkri röksemdafærslu gera þeir vitanlega lítið úr sjálfum sér.

Hv. þm. Barð. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort stj. mundi framvegis vilja beita sér fyrir því, að heildarfjárveitingar til samkynja fyrirtækja yrðu veittar í einu lagi, svo sem til vegagerðar, brúagerðar o.s.frv. Ég get náttúrlega ekki svarað þessari spurningu, en ég vil gjarnan nú láta í ljós þá skoðun mína, að það sé engan veginn óskynsamleg tilhögun, þar sem henni verður við komið, og ættu þá viðkomandi n. að skipta fénu. Það er gefið, að einmitt með því að ákveða, hve miklu fé-stj. treystir sér til að verja til ákveðinna framkvæmda eða fyrirtækja, er hægt að hafa einhvern hemil á greiðslum, heldur en að láta ráðast, hvernig fer á hverjum stað.