18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

143. mál, fjárlög 1945

Helgi Jónasson:

Hæstv. fjmrh. gat þess, að ég hefði borið fram fsp. Það var ekki beint fyrirspurn; ég hef lýst yfir því, að hæstv. ríkisstj. hefði ákveðið í samningum sínum, að dýrtíðarmálin gengju fram, og ég efast ekki um, að svo hafi verið. Ég sagðist verða að koma fram með nokkurri tortryggni, þegar frsm. fjvn. segir, að launamálið sé flutt með fullu samkomulagi. Hann gefur í skyn, að öðru máli gegni um dýrtíðarmálin og ekki sé hægt að taka þau inn í fjárlfrv., en ég lýsti yfir því, að ég hefði ekki trú á öðru en hæstv. ríkisstj. mundi standa við gefin loforð og gera samninga og býst við, að svo verði. En um tekjuöflunina er það að segja, að það er óeðlilegt og dálítið einkennilegt, ef þm. mega ekki hafa hugmynd um það, hvernig þau skattaáform eða tekjuáform eru, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert ráð fyrir að afla.

Þá sagði hann, að það væri algengt að greiða stórar fúlgur úr ríkissjóði, sem ekki væru á fjárl., vegna ýmissa l. Þetta er að vísu rétt, en ég tel, að það hafi alltaf verið skylt að reyna að taka allt upp í fjárl., sem menn vita um, að þar kemur til greina. En það hefur hins vegar stundum komið fyrir, að Alþ. hefur gleymt ýmsum l., sem það hefur samþ. á sama þ., en ekki hirt um að taka upp í fjárl., og um þetta frumvarp, sem er búið að ganga gegnum aðra d. Alþ., veit maður vel. Hins er líka annað atriði í þessu sambandi, sem ég benti á við 2. umr., að það hefur oft viljað til, að ýmsir liðir hafa farið langt fram úr áætlun, og þess vegna er það mjög nauðsynlegt, að til tekjuáætlunarinnar sé mjög vel vandað, til þess að unnt sé að mæta slíkum aukaútgjöldum.

Þá gat hæstv. fjmrh. þess, að hjá mér gætti mikillar bjartsýni um tekjuöflunina, þar sem ég væri að bera hér fram við 3. umr. háar till., sem mundu hafa í för með sér mikla útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Það er rétt, að ég hef borið fram till., en eins og ég hef lýst yfir áður, er það ekki mín sök, að svona fór um þetta mál. Ég barðist gegn því, að bændaskólinn yrði reistur á þeim stað, sem nú hefur verið ákveðinn, og gerði það, sem ég gat, til þess - á sínum tíma, að einmitt sú leið yrði farin, sem væri ódýrari og hagkvæmari fyrir ríkissjóð. Ég gerði enga till. um það við fjvn. að fá þennan lið hækkaðan, um áætlaðan bændaskóla á Suðurlandi, af því að ég bjóst við, að hv. Alþ. mundi fylgja l. og reisa skólann þar, sem búið var að ákveða hann, og þess vegna mundi sú upphæð, er í upphafi var ákveðin, nægja á næsta ári. Ég benti enn fremur á það, að ef reistur yrði skóli á hinum staðnum, sem nú er orðið að l., þá yrði þetta milljónafyrirtæki.

Síðan bar hæstv. fjmrh. það fyrir sig, að stj. hefði verið algerlega óafvitandi um það, hversu mikilla tekna hún þyrfti að afla til þess að mæta útgjöldum ríkissjóðs á næsta ári, þegar hún settist á valdastól. Ég skil ekki, hvernig á þessu stendur, þar sem ég held, að öllum hv. þm. sé fullkunnugt um, að tugi millj. kr. vantar til þess að geta fullnægt tekjuþörfinni. Fyrir hv. Alþ. lá frv., er samið var af fyrrv. stj., og vissu allir, að á því frv. voru ekki teknar upp greiðslur, er skipta tugum milljóna. Þetta var öllum hv. þm. ljóst, og hæstv. ríkisstj. vissi einnig um það, að þessar greiðslur voru óumflýjanlegar með þeirri stefnu, er ríkir í dýrtíðarmálum þjóðarinnar. Hæstv. ríkisstj. var búin að gera samning um að koma á nýjum launal., er líka mundu hafa hækkuð útgjöld í för með sér. Enn fremur var það kunnugt, að á stjfrv., sem fyrir lá, vantaði verðlagsuppbætur og ýmsa aðra liði, sem allir vissu um, að yrðu að koma inn í frv. — Ég held þess vegna, að það komi hæstv. ríkisstj. ekki á óvart, — með þeirri stefnu, sem nú er viðhöfð, — hvers hún þyrfti að afla af tekjum til þess að koma þessum fjárl. áfram, og ég bjóst við því, að hæstv. ríkisstj. mundi einnig hafa haft það fyrir augum í samningum sínum, hvernig leysa ætti þessi mál. En nú virðist það vera svo, að fyrst eigi að afgr. fjárl., en allt hitt sé látið bíða nema launal. Vil ég lýsa yfir því, að ég er þessari aðferð mótfallinn. — Álít ég svo, að ekki sé þörf á að svara frekar ræðu hæstv. fjmrh.

Hv. 2. þm. N.--M. ræddi hér um læknishéraðastyrkinn og virtist vera mjög óánægður með meðferð málsins, er það hlaut í fjvn., og vill halda gamla fyrirkomulaginu um dýrtíðaruppbót til einstakra hreppa í einstökum héruðum. Það er nú svo um þessa styrki, að það hafa verið ákafleg handahófsverk og oft tilviljun ein, sem ráðið hefur, hvaða hreppar hafa notið þessa styrks. Þess vegna var það, að l. um læknisvitjanasjóði voru sett árið 1942 til þess að reyna að afmá þessa handahófsstyrki og reyna að efia fjárframlög til þeirra hreppa, sem hafa erfiða læknissókn, og að þeir fengju þannig hærri upphæð en áður. Nú er það svo, að þessi læknisvitjanastyrkur nemur mjög litlu, ekki nema 200–300 kr. fyrir hvern hrepp, og hefur mér verið sagt það af landlækni, að hann hafi fengið reikninga frá einum hrepp upp á 5 þús. kr., en styrkurinn til hreppsins var ekki nema 300 kr. Sjá þá ekki allir, hversu litla þýðingu þetta hefur? En með því að stofna þessa læknisvitjanasjóði hækka þessi fjárframlög, sem hreppurinn hefur með höndum, og í öðru lagi geta allir orðið þessa styrks aðnjótandi, og ræður hlutaðeigandi stj. heima fyrir úthlutun hans og getur úthlutað honum þar, sem þörfin er mest. Það er því rétt skoðun hjá hv. 2. þm. N.--M., að n. leggur til, að styrkurinn verði einungis greiddur á næsta fjárhagsári, en einmitt á því ári fá læknishéruðin tíma til þess að stofna hjá sér læknisvitjanasjóði, og held ég, að það sé miklu eðlilegri tilhögun en áður hefur verið.