07.12.1944
Efri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég get að mestu látið nægja að vísa til þeirra orða, sem ég lét falla um frv. um manneldisráð, sem er næst á undan á dagskránni. Ég skal aðeins bæta því við, að sérstakur kostnaður, sem nokkru nemur fyrir háskólann, ætti ekki að þurfa að koma til. Þó að þetta prófessorsembætti verði stofnað, þá er, eins og 2. gr. ber með sér, ætlazt til, að meginhluti kostnaðarins verði greiddur í þágu manneldisrannsókna. En að öðru leyti gilda að sjálfsögðu um störf þessa prófessors sömu reglur og um aðra prófessora við háskólann. Háskólaráð hefur mælt með þessu frv. eins og frv. um manneldisráð, sem áður er að vikið. Hér liggur fyrir þessari d. frv. um breyt. á l. um Háskóla Íslands, sem var til umr. í gær. Ég vil skjóta því til hv. menntmn., hvort hún sér ástæðu til að taka til athugunar, hvort rétt sé að fella efni þessa frv. inn í það frv. eða láta frv. bæði halda sér. Ég sé ekki, að það skipti neinu máli, hvor aðferðin verður valin, en það væri æskilegt fyrir afgr. málsins, að hv. menntmn. léti hæstv. forseta vita, hvers hún óskar í þessum efnum, svo að ekki þyrfti að tefja málið. Till. n. er, að frv. verði samþ., en einn nm. tók ekki þátt í afgr. málsins.