12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. n., hvort nefndin hefur athugað þetta í samráði við læknadeild háskólans eða háskólaráð, en um það verður ekkert séð í nál., en slíkt mun þó vera venja. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en ég get ekki varizt þeirri hugsun, að örlæti þessa þings í stofnun nýrra embætta sé um of. (PZ: Þetta er nýsköpunarþing.) Já, hv. 2. þm. N.-M. skaut því fram, að þetta væri nýsköpunarþing. Þetta er sú nýsköpun, sem hann og hans flokkur hafa unnið að sína stjórnartíð. Ég get ekki fallizt á það, að við getum farið út í það að stofna stöðugt ný embætti handa öllum efnilegum mönnum, Þótt ég viti, að þetta embætti, sem hér um ræðir, sé nytsamlegt og maðurinn, sem við því á að taka, mjög efnilegur, tel ég ekki neina sérstaka nauðsyn bera til stofnunar þess.