24.11.1944
Efri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

183. mál, nýbyggingarráð

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. — Ég verð að taka það fram, að mér finnst öll meðferð þessa máls nokkuð einkennileg, þótt ef til vill séu dæmi til um svipaða meðferð mála, sem hafa mikla þýðingu. Þetta mál er keyrt í gegnum tvær umr. á einum degi í Nd. eins og menn muna. Þegar það kemur til 1. umr. hér, er því að vísu vísað til n., en orð féllu þá frá hæstv. ráðh., sem virtust benda til, að í raun og veru væri malið útrætt og breyt. mundu ekki koma til greina; með öðrum orðum, að samið hefur verið um afgreiðslu málsins utan þings og það útrætt, og nú hefur hv. frsm. meiri hl. játað, að svo sé.

Ég er ekki vanur að kveðja mér hljóðs hér í hv. d. nema ég þykist hafa sérstakt erindi að flytja, en ég minnist þess, að ég var að hugsa um að kveðja mér hljóðs við 1. umr. og spyrja hæstv. fjmrh, að því, hvers vegna hann legði til, að málinu yrði vísað til n., þegar svona væri í pottinn búið, en hann hvarf úr d. einmitt um það leyti. Þegar í n. kom, fékk ég staðfestingu á því, að þessu var þannig farið, að þetta var fyrir fram ákveðið mál og að yfirleitt þýddi ekki að ræða um breyt. í málinu, því að liðsmenn hæstv. ríkisstj., sem allir nm. eru nema ég, afgr. málið þegar í stað án verulegrar athugunar og samþ. að mæla með, að frv. yrði samþ. óbreytt. Ég er ekki bundinn af neinum slíkum samningum, sem kunna að hafa farið fram um þetta mál, og mér finnst því, að eðlilegt sé, að ég taki ekki beint tillit til þeirra, og geri, því þær till. í málinu, sem mér þykja réttar. Ég get ekki beygt mig fyrir þeim vinnubrögðum, sem hér hafa verið ákveðin, og tel mig hafa fullan þingmannsrétt til þess að gera þær till., sem mér þykja réttar, þrátt fyrir þessa samninga. Einu sinni var því haldið fram af flokki, sem hér var í stjórnarandstöðu, en nú á fulltrúa í hæstv. ríkisstj. og hefur tekið þátt í þessum samningum og afgr. um þetta mál, að það væri stjórnarskrárbrot að gera slíka samninga utan þings milli flokka, og ákveða þannig afgr. mála. Ég viðurkenni ekki, að það sé stjórnarskrárbrot að ákveða þannig afgr. mála, en hinu vil ég slá föstu, að sá hluti Alþ., sem ekki stendur að slíkum samningum, hefur auðvitað fullan rétt til þess að koma fram með sínar tillögur.

Ég verð að segja það nú þegar í upphafi sem mína skoðun, að mér virðist þetta frv., sem hér er fram borið og fylgt er fram með miklu kappi, vera fremur þýðingarlítið og þó sérstaklega, að ég sé ekkert í því, sem svo bráðlega liggur á, að margföld afbrigði frá þingsköpum þurfi til þess að keyra það í gegn. Ég las að vísu í einu af stjórnarblöðunum í sambandi við þetta mál, að hver dagurinn væri dýr, sem dregið væri að afgr. það. Það er auðvitað, að hver dagurinn, sem líður, er dýr fyrir vora þjóð, án þess að hún geti unnið sér til gagns, en ég get ekki séð annað en að hver dagurinn sé jafndýr, hvort sem þetta frv. er samþ. eða ekki, eða hvort heldur það er samþ. einum degi fyrr eða síðar. Ég get ekki séð, að í þessu frv. sé mikið um raunhæfar aðgerðir eftir styrjöldina eða meðan á henni stendur, og sé ég ekki aðrar ráðagerðir í því en þær, sem hæstv. ríkisstj. gæti í raun og veru gert án sérstakrar lagasetningar og fyrrverandi ríkisstj. vann að ýmsu leyti að, eins og t.d. bátakaup frá Svíþjóð og annað slíkt. Mér virðist því, að í þessu frv. kenni nokkurrar auglýsingastarfsemi hjá hæstv. ríkisstj., og að þessi lagasmíð sé ef til vill ekki svo lítið höfð í áróðursskyni, og kannske engu síður það en til raunhæfra aðgerða, enda þótt það þurfi ekki að vera sérstaklega skaðlegt af þeim ástæðum.

Frv. inniheldur tvö meginatriði. Hið fyrra miðar að því að leggja til hliðar jafngildi 300 millj. ísl. kr. af inneign Landsbanka Íslands í erlendum gjaldeyri og selja ekki þann gjaldeyri til annars en til kaupa á framleiðslutækjum og öðru slíku, sem tilgreint er í frv. Í öðru lagi er um það að ræða að skipa fjögurra manna n., er nefnist nýbyggingarráð, til þess að gera till. um ýmis mál, sem sumpart eru til athugunar í mþn. og hafa verið á döfinni hér á Alþ., eins konar stjórnskipaða mþn., sem mætti nefna yfirmþn. — Ég skal taka það fram, enda kom það fram hjá flokksbræðrum mínum í hv. Nd., að ég tel fyrra atriðið skynsamlegt, sem sé að leggja til hliðar af þeim inneignum, sem landið á erlendis, og hafa eftirlit með því, að því sé varið til gagnlegra hluta, enda lagði hv. þm. V.-Húnv. (SkG) það til í hv. Nd. f. h. Framsfl., að hið umrædda fé yrði hækkað frá því, sem í frv. er, upp í 450 millj. kr., og einnig lagði hann til, að þessi kvöð viðvíkjandi hinum erlenda gjaldeyri yrði lögð á Útvegsbanka Íslands h/f eins og Landsbanka Íslands. Aðalástæðan fyrir því, að hann bar þessa till. fram, var sú, eins og hv. dm. vita, að Farmanna- og fiskimannasamband Íslands samþ. á þingi sínu áskorun um það til Alþ., að 300 millj. ísl. kr. verði lagðar til hliðar til kaupa á tækjum varðandi sjávarútveginn, og ef þessari samþ. yrði framfylgt, yrði ekkert eftir til annarra hluta. En þótt sjávarútvegurinn sé nauðsynlegur og sumir kalli hann nú aðalatvinnuveg landsmanna, þá er samt ýmislegt fleira nauðsynlegt, og ekki væri þá rétt að láta allt þetta fé ganga til sjávarútvegsins. En hvað sem þessu líður, er ekki fært að flytja sömu till. um þetta hér í þessari hv. d. eins og í hv. Nd., því að till. um þetta var felld þar með miklum meiri hluta atkv., og því eru engin líkindi til þess, að till., sem gengju í sömu átt, næðu samþ. hv. Alþ. En svo ber fleira til, sem ég hygg, að ekki hafi verið mikið rætt um í sambandi við þetta mál hér á Alþ.

Síðan styrjöldin hófst, hefur seðlaútgáfa Landsbankans margfaldazt, tífaldazt eða tólfaldazt. Ég veit, að ýmsir eru nokkuð hugsandi um gildi þessara seðla, og hefur reynslan verið svo, bæði hér á Íslandi og hjá öðrum þjóðum, að þegar seðlaveltan margfaldast í umferð, hefur það einatt gengisfall í för með sér. Hér hefur okkur verið sagt, að erlendar innistæður standi bak við seðlana og væru þær trygging fyrir þeim. Mér virðist því persónulega ekki veita af því að festa einhvern gjaldeyri erlendis, með það fyrir augum að tryggja seðlaútgáfuna, og að ekki mætti eyða honum, fyrr en jafnóðum og seðlarnir væru dregnir inn. En þótt ég játi, að þær ráðstafanir, sem í þessu felast, geti verið gagnlegar, þá ber þess að geta, að ég veit ekki, hversu haldgóðar þær reyndust, ef í harðbakka slæst. — Ég hygg, að það sé aðalatriðið í þessum málum, að þjóðin vinni fyrir jafnmiklu og hún eyðir, að þetta sé lögmál, sem gildi jafnt um þjóðina í heild og hvern einstakling, því að með því að eyða meiru en maður aflar, hlýtur að leiða til gjaldþrots fyrr eða síðar, hvernig sem að er farið, og eins gildir um þjóðina. Ég dreg það mjög í efa, að þessu ákvæði yrði framfylgt, ef svo færi, að aftur færi að verða halli á þjóðarbúskapnum, kannske ár eftir ár, sem ég vona, að ekki verði, en ég sé ekkert vit í því, að annars vegar ætti þjóðin inni peninga, en hins vegar bætti hún við sig nýjum og nýjum eyðsluskuldum. Ég hygg því, að aðalatriðið sé það, að atvinnugreinar þjóðarinnar beri sig og að verzlunarjöfnuður þjóðarinnar haldist sömuleiðis hagkvæmur.

Þá vík ég að síðara atriðinu, sem frv. inniheldur, og það er skipun þeirrar n., sem kölluð er nýbyggingarráð, og störf hennar, en þar skiptir allt öðru máli en um hitt atriðið. Þótt að einhverju leyti yrði breytt til orðalagi um það atriði, þá fæ ég ekki séð, að það raski grundvelli frv. á nokkurn hátt, enda þótt ákvæðin um störf n. séu gerð skýrari en þau eru í frv. Það er því í raun og veru ekki annað en yfirgangur þeirra, sem nýlega eru komnir til valda og stígur upphefðin til höfuðs, að geta ekki einu sinni hlustað á uppástungur og röksemdir um það, að eitt eða annað geti betur farið. — Mér virðist, að ákvæðin um þetta í frv. séu fremur losaraleg, og ég segi ekki, að mínar till. bæti ákaflega mikið um, en yfirleitt geta þessi ákvæði þýtt allt og ekkert, allt eftir því, hvernig á þessu er haldið. Ég hef þó leyft mér að bera fram sömu brtt. við 2. og 3. gr. frv. eins og bornar voru fram af hendi Framsfl. í Nd. Það er gerð grein fyrir þessum brtt. í nál. hv. þm. V.-Húnv. (SkG) á skj. 524, og sé ég því ekki ástæðu til að fara langt út í rökstuðning, þar sem þetta nál. liggur fyrir og þar eru einmitt þessar till. rökstuddar.

Viðvíkjandi a-lið fyrri brtt. minnar legg ég einkum áherzlu á að fá þessi framleiðslutæki innanlands, en í frv. er ekki gert ráð fyrir öðru en að kaupa þau frá útlöndum. Það hefur hina mestu þjóðhagslegu þýðingu, að við getum búið sem mest að okkar eigin vinnu og getu, og hvað þetta snertir má minna á það, að komið hefur verið hér upp skipasmíðastöð, sem virðist vera í þróun, og fram hjá þessu atriði ber ekki að ganga. Ég geri ekki ráð fyrir því, að með þessu frv. sé sett bann við því að kaupa skip innanlands, ef þess er kostur, en þó finnst mér það nokkuð undarlegt, að amazt sé við því, að þetta standi í frv. — Með b-lið sömu till. er lagt til, að n. leitist við að athuga, hvort möguleikar séu á því, að atvinnureksturinn beri sig og sé samkeppnisfær við sams konar framleiðslu annarra þjóða. Ég skil ekki í því, að forboðið sé að tala um, að atvinnurekstur eigi að bera sig og að taprekstur geti gengið um stundarsakir, þótt hann geti ekki gengið lengi. Þess vegna finnst mér það ætti að vera útlátalaust fyrir alla aðila, þótt þessi ákvæði yrðu samþ. Í þessum lið er einnig farið fram á, að athugað sé, að hve miklu leyti væri hægt að koma við ákvæðisvinnu við atvinnurekstur hér á landi, og er í nál. minni hl. fjhn. í hv. Nd. í þessu máli vísað til þess, að sú tilraun hafi reynzt mjög vel hjá einu stórveldanna, og held ég því, að það gerði ekkert til, þótt um það stæði í l., að þetta skyldi athugað.

Ákvæði 3. gr. frv. get ég ekki skilið á annan hátt en þann, að ríkisstj. geti, ef henni sýnist svo, lagt niður þær mþn., sem Alþ. hefur kosið og nú eru að störfum. Það hefur oft verið talað um þessar mþn., og þykja þær bæði margar og dýrar, og hafa ráðandi flokkar vanalega fengið ádeilur fyrir þetta, þannig að ef til vill hefur hæstv. núverandi ríkisstj. lagt þetta til með það fyrir augum að reka þennan orðróm af sér. Ég get vel tekið undir það, að rétt sé að hafa þessar mþn. færri, en það er nú svo, að hverja einstaka af þessum n. hefur Alþ. samþykkt. Það er eitt atriði í sambandi við þetta, sem mér finnst athugunarvert, ef hæstv. ríkisstj. á að leggja niður þessar mþn., sem hafa lagt fram mikla vinnu og komnar eru langt í störfum sínum, og það er, að það er ekki nokkur vafi á því, að þeim fjármunum, sem í þær hefur verið varið, og þeirri vinnu, er miklu betur varið þannig, að n. fái að ljúka störfum sínum, heldur en að þær séu fyrirvaralaust lagðar niður.

Í þessu sambandi dettur mér raforkunefnd í hug. Hún er búin að leggja fram álit sitt, og svipað getur verið ástatt um fleiri nefndir. Það getur verið, að þær séu í þann veginn að leggja fram álit sitt.

Hv. frsm. meiri hl. játaði, að eitt og annað hefði getað farið betur í frv., þar á meðal er eitt orðatiltæki, sem hann segir, að sé málvilla. Þrátt fyrir þessa viðurkenningu má engu breyta. Nei, það verður að gera frv. að l. þegar í stað.

Það hefur ekki heyrzt, hvort eigi að knýja frv. fram í dag og gera það að lögum, en maður gæti ætlað, að það væri tilgangurinn. En ég sé ekki, að það þurfi að tef ja frv. óhæfilega mikið, þótt brtt., sem viðurkennt er, að eru til bóta, væru teknar til greina. En það er nú orðið ljóst, að eins og allt er í pottinn búið, þýðir ekki að koma með till. til umbóta, við þeim er ekki litið. Það er þegar sýnt, hversu fara muni um frumvarpið.

Ég mun ekki. beita málþófi og skal nú ljúka máli mínu, en ég taldi rétt að gera grein fyrir afstöðu minni, vegna þess að ég er í nefnd þeirri, sem átti að fjalla um þetta mál.