12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

164. mál, prófessorsembætti í heilbrigðisfræði

Frsm. (Sigurður Thoroddsen):

Mér er það ekki alveg ljóst, af hverju hv. þm. N.-Ísf. getur ekki fellt sig við að samþ. þetta frv. Það er áður samþ. frv. til l. um manneldisráð. Ef það kemur til framkvæmda, þarf það framkvæmdastjóra. Og það er ætlazt til þess, að prófessorinn í heilbrigðisfræðum verði framkvæmdastjóri manneldisráðs, hér er því ekki í raun og veru um sérstakan kostnað að ræða. Ef þessi prófessor við háskólann er ekki skyldaður til þess að vinna við manneldisráð, þá þyrfti það framkvæmdastjóra, ef það ætti að koma að einhverju gagni, en honum þyrfti auðvitað að greiða laun.

Þessar umr. hafa farið á við og dreif, og það miklu meir en mér gat dottið í hug. Það kom ákaflega illa við hv. þm. V.-Sk., er ég minntist á embætti, sem samþykkt var að stofna við háskólann hér fyrir nokkrum dögum. Ég veit ekki, hvaðan honum kemur sú vizka að segja, að ég sé trúlaus, en þessi hv. þm. fullyrðir nú svo margt, sem enginn stafur er fyrir. Hv. þm. bar saman þau fræði, sem ég kallaði, en hann kallar lifandi fræði, og teknísk fræði, og hann sagðist hafa litla trú á teknískum fræðum og fór langt út í lönd til þess að sanna það. En það var óþarfi af hv. þm. að fara svo langt til þess að sanna hans litlu trú á þeim, — það hefur komið í ljós við mjólkursamsöluna. Þar eru þau ekki notuð sem skyldi. En fyrir okkur hv. þm. V.-Sk. fer líkt og kerlingunum, þar sem önnur sagði „klippt var það,“ en hin sagði „skorið var það.“ Við verðum aldrei sammála, og eyði ég því ekki orðum að honum frekar.