12.01.1945
Neðri deild: 103. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

217. mál, skipun læknishéraða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leiðrétta nokkuð af þeim misskilningi, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. Þessir menn eru í læknishéraði Reykjavíkur. Þetta breyttist með l. frá 1. jan. 1944, þegar lögsagnarumdæmi Reykjavíkur var stækkað, og allt þetta fólk heyrir til Reykjavíkurlæknishéraði, og aðsetur læknis er í Reykjavík. Þegar þetta var samþ. hér á þingi í fyrra, steinþagði hv. 3. þm. Reykv. Hann minntist ekki á, að önnur tilhögun væri betri, af því að hann var ekki búinn að átta sig á því, að þetta væri dálítið úti í jaðri bæjarins, lögsagnarumdæmisins eða hvað sem menn vilja kalla það. Hv. þm. áttaði sig ekki þegar í stað á því, að þegar þessir kæmu inn á svæðið, þyrftu þeir að fara í sjúkrasamlagið, og læknum var ver við að fara svo langt í sjúkravitjun. Það skyldi þó ekki vera, að það væri sjúkrasamlagið, sem vildi breyta þessu til þess að losna við lengri sjúkravitjun. Nú er það erfitt fyrir það fólk, sem þarna býr, ef það fær ekki að ganga í Sjúkrasamlag Reykjavíkur fyrir sama gjald og aðrir aðilar. Nú hefur landlæknir boðizt til þess, að mþn., sem átti að skila áliti fyrir næsta þing, taki þetta til rækilegrar athugunar og reyni að finna lausn á því, hvernig þessir menn geti bezt vitjað læknis og verið í sjúkrasamlagi.

Frá Grafarholtsvogi niður til Ártúns og í Seltjarnarneshreppi fyrir ofan Elliðaár voru í sumar níu tíundu hlutar af íbúunum Reykvíkingar, sem bjuggu þar í sumarbústöðum. Eiga þeir að vitja læknis upp að Álafossi, þegar þeir, margir þeirra a.m.k., fara á hverjum degi í bæinn? Það væri skrítin tilhögun.

Ég held, að æskilegast hefði verið, að hv. 3. þm. Reykv. hefði orðið við ósk landlæknis að taka till. aftur, svo að landlæknir gæti, eins og hann bauð, tekið þetta mál til athugunar og leyst úr því. En fyrst hv. þm. vill það ekki. virðist mér þingið verði að verða við þeirri ósk að fella till. í trausti þess, að mþn. taki málið til athugunar. En ef mikil óþægindi eru á því fyrir fólkið að fara í sjúkrasamlagið, þá er sjálfsagt að reyna að finna leið til þess að bæta úr því.