24.11.1944
Efri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

183. mál, nýbyggingarráð

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég held það sé ekki nein þörf að halda lengra áfram þeim umr., sem hér hafa farið fram.

Ég er sammála hv. frsm. fjhn., að hér sé um stórmál að ræða, og væri þess vegna í alla staði eðlilegt, að talsverðar umr. yrðu um slíkt stórmál sem þetta. Það er að segja, að rætt væri um kjarna málsins og hinn raunverulega tilgang þessa frv. Og ég mundi ekki sjá eftir þeim tíma, sem í það færi, enda þótt það liggi mjög mikið á, að málið verði afgreitt. Hins vegar er það svo, að þessar umr., sem fram hafa farið, hafa að mestu leyti verið um formsatriði, og það þykir mér illa farið, að það sé eytt löngum tíma í það, því að eins og tekið hefur verið fram hér í umr., þá er hver dagurinn dýr, sem líður, án þess að tekið sé til starfa að þeim verkefnum, sem ætlazt er til að framkvæmd verði samkvæmt þessu frv.

Hv. frsm. minni hl. gat um það, að því hefði áður verið haldið fram af stjórnarandstæðingum og sérstaklega mér, að í raun og veru væri það stjórnarskrárbrot að semja um mál utan þingfunda, og koma svo síðan á þingfund og samþ. það óbreytt. Það er rétt, að það er a.m.k. nærri, að það sé stjórnarskrárbrot, ef farið er með mál í stjórnmálaflokkana, greidd þar atkv. um málið og þm. skipað með flokkssamþ. að greiða atkv. með málinu óbreyttu, hvað sem sannfæringu þeirra líður. Því að samkvæmt stjórnarskránni hefur hver þm. ekki sinn rétt, heldur skyldu til þess að greiða atkv. samkvæmt sannfæringu sinni. Og ég ætla ekki að leyfa mér að efast neitt um það, að hv. þm. Framsfl., stjórnarandstöðuþm., hafi gert það líka. Þetta mál hefur verið rætt mjög mikið í öllum flokkum, og mér er ekki kunnugt um einn einasta þm., eftir allar þær umr., sem ekki greiddu atkv. í þessu máli samkvæmt sannfæringu sinni.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði í fyrri ræðu sinni og raunar líka í hinni síðari, að þetta frv. væri fyrst og fremst auglýsing og áróður. En þá mætti kannske spyrja, um hvað frv. Framsfl. um sama efni væri, þar sem lagt er til, að tekið sé frá miklu meira fé af innstæðu manna erlendis, nokkurn veginn í sama skyni, til þess að kaupa fyrir það framleiðslutæki, líkt og þetta frv. leggur til. Er þetta frv. framsóknarmanna auglýsing eða áróður? Það er í raun og veru ekki hægt að segja eða fullyrða neitt um slíkt, hver tilgangur flm. sé með slíku frv. eins og þeir hafa flutt, fyrr en reynslan sker úr um það. Mér virðist satt að segja, að reynslan hafi þegar skorið úr um það, að frv. framsóknarmanna hafi ekki verið annað en auglýsing og áróður, því að hvað gengur þessum hv. þm. til að vera með málþóf gegn þessu frv. og andstöðu gegn því? (IngP: Er þetta málþóf? Þetta er ósvífni, frsm. minni hl. er ekki búinn að nota sinn þingmannsrétt.) Ég bara skil ekki tilganginn með þessu. (IngP: Mér finnst, að hæstv. forseti ætti að víta slíkar fullyrðingar.) Ég bara skil ekki tilganginn hjá hv. þm., og mér fannst þetta ekki geta haft annan tilgang en að þæfa málið. Vitaskuld getur maður aldrei fullyrt um það, hver sé tilgangur með gerðum manna, til þess yrði maður að vita hug manna. Það er hægt að viðhafa málþóf án þess að brjóta þingsköp, og í raun og veru er ekki hægt að ganga lengra í málþófi en þingsköp leyfa.

Nú virðist mér samt sem áður framkoma framsóknarmanna í þessu máli sanna það, að frv. þeirra hafi ekki verið annað en auglýsing og áróður, því að ef þessi hv. Framsfl. hefði haft hug á því, að mikið fé af innistæðu landsmanna erlendis, og það meira fé en lagt er til með þessu frv., yrði tekið frá til þess að byggja upp atvinnuvegi landsmanna, ættu þeir að hafa jafnmikinn hug á því og stjórnarflokkarnir, að þetta frv. næði fram að ganga og það sem fyrst. Við þetta bætist svo, að hv. þm. hefur lýst því yfir, að í raun og veru væri ágreiningurinn um þetta frv. í því fólginn, að Framsfl. hefði ekki traust á ríkisstj., en ágreiningurinn Væri ekki svo mikill um málið sjálft, enda er ekki hægt að halda því fram, þegar Framsfl. flytur till., sem ganga algerlega í sömu átt. Ágreiningurinn er um það, hvort ríkisstj. er treyst til þess að framkvæma þessi verkefni, sem gert er ráð fyrir í frv. að framkvæma, eða ekki.

Það er vitanlega tilgangslaust að bera fram frv. um stórframkvæmdir, sem ríkisstj. á að framkvæma, sem tillm. ekki treysta, það er vitanlega alveg tilgangslaust nema í áróðurs skyni. Þegar ágreiningurinn er að mestu í því fólginn, hvort ríkisstj. sé treyst eða ekki, þá virðist mér ekki nein ástæða til þess að lengja þessar umr. mikið. Ég geri ráð fyrir því, að við þyrftum að tala hér í nokkra daga áður en við sannfærum hver annan um það, hvort ríkisstj. bæri traust eða ekki traust. Og þegar slík játning hefur komið fram, virðist mér, að í raun og veru sé ekki ástæða til þess að ræða einstök atriði, nema þá því aðeins, að farið væri út í nokkurs konar eldhúsdag, en til þess höfum við nú tækifæri seinna.

Ég skal þá aðeins minnast á brtt. á þskj. 552, frá hv. minni hl. fjhn. Fyrri brtt. er fyrst og fremst í því fólgin, eftir því sem hv. flm. segir, að það skuli taka fram í frv., að ekki skuli aðeins kaupa framleiðslutæki erlendis, heldur skuli nýbyggingarráð hlutast til um það, að þau verði gerð innanlands.

Þá er það brtt. á þskj. 552,a. Hún er, eins og þegar hefur verið tekið fram, alveg óþörf, vegna þess að gert er ráð fyrir þessu í frv. Hv. þm. sagði í ræðu sinni, að það sé ekki tekið fram í frv., að leitazt skuli við að fá þessi tæki innanlands með sömu kjörum og hægt væri að fá þau frá útlöndum. Það er rétt. En hvers konar menn heldur hv. þm., að verði í þessari nefnd? Dettur hv. þm. í hug, að þegar þeir eiga að sjá um kaup á ýmsum vinnutækjum, innanlands eða utan, að þeir muni ekki leita fyrir sér um lægstu tilboð? Er nauðsynlegt að taka þetta fram í frv.? Ég álít, að ekki verði valdir þeir hvítvoðungar í þetta ráð, að nauðsyn sé á svo nákvæmum lagabókstaf. Ég hygg, að þetta ráð yrði lítils virði, ef slíkir menn yrðu í það valdir.

En ég get upplýst hv. þm. um það, að það fer nú þegar fram athugun á því, hvaða ráðstafanir verði hægt að gera til þess að hægt verði að gera við skip og smíða skip hér innanlands, þannig að skipasmíðakostnaðurinn hér verði samkeppnisfær við erlendar skipasmíðastöðvar. Það verður vitanlega eitt verkefni þessa ráðs.

Í brtt. á þskj. 552, b-lið, fer hv. þm. fram á, með leyfi hæstv. forseta: Enn fremur skal nýbyggingarráð athuga, hverjar aðrar ráðstafanir þurfi að gera, til þess að atvinnuvegir landsmanna geti framleitt vörur, sem unnt er að selja í samkeppni við framleiðslu annarra þjóða.

Það er gert ráð fyrir, að nýbyggingarráð athugi möguleika á að breyta fyrirkomulagi kaupgreiðslna í landinu, sérstaklega að koma á ákvæðisvinnu. Sömuleiðis á það að vera verkefni ráðsins að gera till. um fyrirkomulag þjóðarbúskaparins. Það er því ekkert smáræðis verkefni, sem hv. þm. með þessari till. ætlar þessu nýbyggingarráði, sem sé í fyrsta lagi að vera samningan. um kaup og kjör milli atvinnurekenda og verkamanna, og í öðru lagi að vera samninganefnd milli flokka um gerólíkar skoðanir um, á hvern hátt þjóðarbúskapnum verði bezt fyrir komið, hvaða þjóðskipulag henti bezt á Íslandi í framtíðinni. Það er ekkert smáræðis hlass, sem þessu ráði er ætlað að velta. Spursmálið um ákvæðisvinnu í ýmsum atvinnugreinum er fyrst og fremst mál, sem varðar atvinnurekendur og verkamenn og þeir eiga sjálfir að semja um. Það er fjarri því, að verkalýðsfélögin álíti ekki, að ákvæðisvinna geti komið til greina. Það fyrsta í því máli er, að atvinnurekendur telji sínum atvinnurekstri betur borgið með því fyrirkomulagi, og síðan á að fara til verkalýðsins og semja við hann. Ef ákvæðisvinnan verður til þess, að verkamenn fái betri kjör og beri meira úr býtum, er augljóst, að verkalýðsfélögin setja sig ekki á móti því. En ef á að nota ákvæðisvinnuna beinlínis í þeim tilgangi að þrýsta út úr verkamönnum meiri vinnu með minni tilkostnaði, þá segir það sig sjálft, að ákvæðisvinnan getur orðið mikið deiluefni milli aðila.

Hvað hitt snertir, að athuga, hvernig bezt verði fyrir komið stóratvinnurekstri í landinu, þá höfum við yfirleitt í þessu landi verið að deila um það, hvernig atvinnurekstrinum yrði bezt fyrir komið á þann hátt, að þeir, sem við hann vinna, beri sem mest úr býtum og afkoma atvinnurekstrarins verði sem bezt, og samkvæmt hinum mismunandi skoðunum í þessu efni skiptumst við í stjórnmálaflokka. Það var tekið fram í ræðu hæstv. forsrh., frumræðu hans, þegar stj. var sett á laggirnar, að þessir flokkar hefðu ákveðið að taka höndum saman um lausn ákveðinna viðfangsefna, sem talin voru upp í málefnasamningi flokkanna, þrátt fyrir þann ágreining, sem er milli þeirra um skipulagsmál þjóðfélagsins. Nú leggur þessi hv. þm. til, að eitt af verkefnum nýbyggingarráðs eigi að vera að finna út, hvernig skipulag þjóðfélagsins eigi að vera í framtíðinni, beinlínis hvort við eigum að hafa það eins og það er í Rússlandi. (BSt: Er nokkuð hneykslanlegt, að það verði gert?) Nei, og það verður vissulega gert í framtíðinni. Hins vegar er það fásinna að ætla nýbyggingarráði að rannsaka slíkt nú, og meiningin hjá þessum hv. þm. er bara að spilla starfi þessara manna og fá þá til að eyða starfi sínu í annað en það, sem þeir hafa sett sér.

Þá kem ég að því, sem lagt er til í annarri brtt. hv. þm. á þskj. 552. Þar er lagt til, að n. þær, sem ef til vill er gert ráð fyrir að verði lagðar niður, skili störfum, áður en nýbyggingarráði verður falið starf þeirra. Það hefur þegar verið tekið fram, að þetta er meiningin, og hefur það verið rætt í stj., að þær verði ekki lagðar niður, fyrr en þær hafa skilað starfi. Raforkumálan. hefur þegar skilað starfi, og mér er sagt, að n. um skipulagsmál atvinnurekstrarins sé mjög langt komin með sín störf og megi ætla, að hún skili bráðlega af sér. Það er því algerlega óþarft að taka þetta fram, þegar það liggur í hlutarins eðli og hefur þegar verið ákveðið. Það gerði að vísu ekkert til, þó að þetta stæði í frv., en það yrði aðeins til að tefja málið og þess vegna óþarft að taka það upp.

Annars get ég sagt hv. þm., að það hefur engin samþykkt verið gerð um, að ekki mætti breyta stafkrók í frv. Mér er ekki kunnugt um neina slíka samþykkt, enda hefði hún verið algerlega óviðeigandi. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir, að það verði gert, vegna þess að þeir, sem að þessu frv. standa, munu vera sammála um, að þess gerist ekki þörf. A.m.k. hafa engar till. komið fram í þessari d., sem séu það mikilvægar, að nauðsynlegt væri að taka þær inn í frv., en hins vegar yrðu þær til að tefja málið um nokkra daga. Þeir telja það meira vert en smáleiðréttingar á máli, að málið verði afgr. sem fyrst, svo að hægt verði að taka til starfa.

Hv. þm. sagði í lok ræðu sinnar, að það gæti verið, að til væri atvinnurekstur„ sem ekki borgaði sig fyrir íslenzku þjóðina að reka. Ég er honum alveg sammála um, að slíkur atvinnurekstur geti verið til, og ég álít, að slíkur atvinnurekstur sé stundaður á Íslandi. Það væri t.d. hægt að nefna íslenzkan iðnað, sem ekki borgaði sig fyrir íslenzku þjóðina að reka. Enn fremur get ég bent á, að ég tel, að ýmislegur rekstur sé í landbúskap Íslendinga, sem borgi sig ekki að reka. Það borgar sig t.d. ekki að framleiða kjöt fyrir erlendan markað með tvö- til þrefalt hærri framleiðslukostnaði en gerist erlendis, svo að borga verður stórfé úr ríkissjóði til að greiða þann halla, sem á slíkum rekstri er, en það er einmitt verkefni þessarar n., sem hér um ræðir, að gera áætlun um arðbæran atvinnurekstur.