15.09.1944
Neðri deild: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Þetta frv., sem hér er lagt fyrir hv. d., er um breyt. á þeim l., sem nú gilda um skipulag á fólksflutningum með bifreiðum. Mál þetta var til meðferðar í hv. Nd. í fyrra um skamma stund, en var í samráði við atvmrh. frestað þá með það fyrir augum, að gera mætti ýtarlegri breyt. á því en þá voru gerðar. Málið fékk þá þá meðferð, að skipulagsn. á fólksflutningum með bifreiðum hafði fjallað um það og símamálastjóri hafði sagt sitt álit á því, og var nokkuð af því, sem þá var lagt til, tekið upp í þetta frv. í Ed. Það, sem helzt er gert ráð fyrir að breyta frá því, sem nú gildir; er, að framvegis skuli vera heimilt fyrir ráðuneytið að fela sérstakri stofnun þann rekstur, sem áður heyrði undir póst- og símamálastjórn. Ástæðan fyrir því, að það þykir rétt að gefa slíka heimild, er sú, að þetta er orðið allumsvifamikið starf og varla hægt að gera ráð fyrir, að það eigi al1s kostar heima hjá póst- og símamálastjórn að hafa rekstur og starfsemi sem þessa.

Sú breyting var gerð á einni aðalsamgönguleiðinni, milli Akureyrar og Reykjavíkur, að hið opinbera hefur að forminu til tekið þennan rekstur í sínar hendur, og sýnist reynslan benda til þess, að það muni rétt vera að stefna að því á nokkrum leiðum, að hið opinbera taki reksturinn í sínar hendur. En þegar að því kemur, er eðlilegra, að það verði sérstök stofnun, sem annast slíkan rekstur, heldur en að íþyngja póst- og símamálastjórn með því, sem hefur í mörgu öðru að sýsla, enda er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að ef til þess kæmi, mundi það verða gert á þann veg, að haft væri fullkomið samráð við póst- og símamálastjórn um ferðaáætlanir og allt því um líkt.

Ein breytingin er sú, að það er lagt til, að sú ráðgefandi n., sem á að verða með í ráðum um ákvarðanir við sérleyfisveitingar, sé dálítið öðruvísi tilnefnd en áður var. Þess vegna þykir ekki ástæða til að láta sérleyfishafa kjósa meira en 2 menn í n. í stað 3, og verða þá 5 menn í n. í staðinn fyrir 6. Einnig ríður á að koma upp afgreiðslustöðvum fyrir þessar ferðir, fyrst og fremst í Reykjavík og ef til vill 2 eða 3 öðrum stöðum. Er gert að till., að til þess að afla peninga, skuli taka 10 prósent af fargjaldinu og nota til rekstrar og byggingar slíkra stöðva í Reykjavík og þar, sem þörf er á.

Þetta er í höfuðatriðunum það, sem þetta lagafrv. felur í sér, en að öðru leyti vil ég vísa til aths., sem frv. fylgja. Að umræðunni lokinni, leyfi ég mér að mæla með, að málinu verði vísað til hv. samgmn.