17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

120. mál, fólksflutningur með bifreiðum

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Hv. frsm. n. hefur gert svo rækilega ,grein fyrir því nál., sem hér liggur fyrir, að ekki er ástæða til að bæta þar um. Ég ætla aðeins að segja nokkur orð um það atriði, að ég hef ekki getað orðið hv. n. sammála, en hef skrifað undir með fyrirvara. Eins og hv. frsm. tók fram, er það fyrsta ákvæði 7. gr., sem ég vildi láta standa óbreytt, að fela sérstökum stofnunum eftirlit með bifreiðum hér á landi, en ekki að binda það við póststj. eina, og tel ég það óeðlilegt, eins og komið er. Það er nú svo með margar þessar stofnanir og þá sérstaklega vegamálastj. og póstmálastj., að ég álít, að þær séu svo stórum störfum hlaðnar, að ekki sé á það bætandi. Mörg þessi störf eru líka alveg óskyld þeim verkefnum, sem þær eiga að hafa með höndum, og finnst mér tími til kominn að greiða sundur þessi verkefni. Það er vitað, að bifreiðasamgöngumálin eru orðin svo geysimikilsverður þáttur hér á landi, að það má líkja honum við það, sem tíðkast í öðrum löndum um samgöngur með járnbrautum. Ég hef fengið upplýsingar um, að með áætlunarbifreiðum yfir Hellisheiði eina hafa á síðast liðnu ári verið fluttir 37000 menn, og daglega ganga rúmlega 100 áætlunarbifreiðir frá Reykjavík. Þetta er orðið svo geysiumfangsmikið starf, að það þarf mikillar skipulagningar við, ef það á að koma að fullum notum samanborið við samgöngumál í öðrum löndum. Það hefur farið svo, þó að ekki hafi verið til þess ætlazt, að nokkur hluti þessara flutninga og ferða hefur verið tekinn beinlínis til rekstrar af hinu opinbera, eins og ferðirnar milli Akureyrar og Reykjavíkur. Sömuleiðis hafa verið árekstrar við þá, sem höfðu einkaleyfi á Þingvallaferðunum, og mun sú leið hafa verið rekin af póststj. Nú er það vitað um þessa leið, að hún kemur póstmálunum mjög lítið við, því að það eru að mestu leyti skemmtiferðafólk og félög, sem þá leið fara. Þeir flutningar og það starf, sem sérleyfisbifreiðum er ætlað að annast, eru ekki nema að litlu leyti í þágu póstflutninga. Það er mjög svipað og t.d. með strandferðaskipin, að þótt þau annist póstflutning, hef ég ekki heyrt, að þau hafi verið sett undir yfirstj. póststj. fyrir þá sök. Nú er það vitað, að áætlunarferðir strandferðaskipa og flóabáta eru stærri þættir í samgöngumálum vorum en nokkru sinni áður, og er aðalleiðin þar milli Reykjavíkur og Akureyrar. Og þar hlýtur að koma að því, að allar samgöngur verða að meira eða minna leyti í höndum hins opinbera, og tel ég, að í raun og veru sé komið svo, að sjálfsagt sé, að sérstakri stofnun sé komið á fót til að annast þessar samgöngur. En ég sé ekki, að póststj. hafi neina þá sérstöðu, er geri það eðlilegt, að hún taki þessi mál að sér fremur en aðrar stofnanir í landinu. Það má segja, að menn gætu óttazt það, ef ný stofnun yrði tii þess sett og þetta tekið undan yfirstj. póstmálanna, að þá gæti hlotizt af því meiri kostnaður. En ég sé ekki, með hvaða hæt:i það ætti að verða, því að eigi póststj. að hafa þetta á hendi, hlýtur hún að verða að hafa til þess sérstaka menn að sjá um þetta. Mér kemur það spánskt fyrir, ekki þó frá hv. frsm., að nýsköpun sé mönnum þyrnir í augum, því að mér virðist, að á þessum nýsköpunartímum ættu menn ekki að kippa sér upp við það, að ný stofnun væri nefnd, og þá ekki sízt, þegar hennar er þörf, eins og er í samgöngumálum í landinu, því að þær eru undirstaða að allri starfsemi og rekstri í landinu. Þess vegna er ekki hægt að setja þetta undir stofnanir, sem eiga að annast allt önnur störf. Ég hef því ekki getað orðið samferða hv. samnm. mínum, ekki einu sinni þeim, sem að nýsköpuninni standa, hvað þá öðrum, og er ég því einn af nm. um að vilja hafa sérstaka stofnun til að annast samgöngumál, eins og er hjá öllum öðrum menningarþjóðum. Ég vildi mega vænta þess, að það væru fleiri en ég af hv. þm., sem þyrðu í þessa nýsköpun að leggja og reyna þannig að skapa fasta undirstöðu undir slíkum meginþætti athafnalífsins í landinu sem samgöngurnar eru. Ég vona því, að hv. d. geti á það fallizt, að það sé óeðlilegt, eins og nú er komið, að yfirstj. samgöngumála í landinu sé í höndum póststj., sem ekki hefur þar um neina sérþekkingu eða sérfræðinga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vona; að ég hafi gert mína afstöðu nægilega ljósa. Ég legg þetta eina atriði á vald hv. d., en um öll önnur atriði hefur n. orðið sammála.