24.11.1944
Efri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

183. mál, nýbyggingarráð

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Það hefur eins og ég tók fram, þegar byrjað var að ræða þetta frv. hér í hv. þd., náttúrlega ekki mikla þýðingu um mál, sem samið hefur verið um afgreiðslu á, að halda uppi löngum umr. um það hér á hæstv. Alþ., þar sem aðeins fáir menn hlusta á mál manna. Það er, að mínu áliti, mest að eyða tíma. Þetta mál er náttúrlega fyrst og fremst rætt á opinberum vettvangi annars staðar, bæði á mannfundum og í blöðum. — Ég ætla þess vegna ekki að víkja frá þeim sið, sem ég álít, að sé eðlilegastur, að lengja ekki umr. um þetta mál hér, en vildi þó aðeins taka þetta fram. — Ég álít, að eftir að þau atriði hafa verið felld, sem fara fram á það, að athugað sé, hvernig læknuð skuli sú meinsemd, sem framleiðslan í landinu á við að stríða, hvort sem er framleiðsla til lands eða sjávar — eftir að það er fellt, að slík athugun fari fram á því, sem ég álít höfuðmeinsemd, sem eigi að skera burt, álít ég frv. ekki skipta miklu máli. Það er þannig nú, þótt maður voni, að það fari að ganga betur hér eftir en hingað til, að ekki fæst nú fluttur til landsins nema 1/3 eða 1/4 þeirra landbúnaðarvéla, sem beðið hefur verið um, enda þótt sendimenn okkar erlendis hafi unnið kostgæfilega að því að fá þær fluttar til landsins. Og járnskip hefur einnig verið erfitt að fá, þrátt fyrir sömu tilraunir okkar manna í því efni. Við skulum vona, að þetta verði auðveldara á næstunni en það hefur verið hingað til, og er þá sjálfsagt, að stjórnin mun gera, eins og ríkisstj. hefur gert hingað til, gagnvart innflutningi á landbúnaðarvélum og kaupum báta frá Svíþjóð, allt, sem hún getur, til þess að hjálpa mönnum, sem vilja leggja peninga í það að kaupa atvinnutæki og styrkja með því framleiðsluna, til þess að geta fengið flutt atvinnutæki inn í landið.

En hvort ríkisstj. skipar þessa nefnd, sem hér er um að ræða, tel ég að muni sýna sig, að ekki skipti mestu máli, þegar meinsemdin, sem burt þurfti að taka, er ekki skorin burt. — Hins vegar er rétt, að stjórnin vinni að þessu.

Ég álít frv. því ekki skipta miklu máli. Það er aðeins, að mér skilst, um það, hvaða vinnubrögð eigi að hafa um útvegun tækja, sem menn vilja kaupa. Og atvinnutæki hafa verið keypt hingað til inn í landið með tilstuðlan ríkisvaldsins. Sé ég því ekki ástæðu til að greiða atkv. um málið, þar sem mér virðist það skipta ákaflega litlu, eftir að fellt hefur verið, að í því skuli vera ákvæði um það aðalverkefni, sem við munum eiga við að stríða á næstu árum.