05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

96. mál, flugvellir

Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti. — Í þeim brtt., sem hér hafa komið fram á þskj. 557, hefur ekki verið gert ráð fyrir, að lendingarstaður flugvéla væri í Ólafsfirði. Ég hefði hins vegar álitið, að þar væri tilvalinn staður fyrir flugvélar að lenda, vegna þess að í Ólafsfirði er stórt og djúpt vatn, þar sem sjóflugvélar mjög auðveldlega lenda. Ég hef sjálfur — tvisvar sinnum, að mig minnir, — komið til Ólafsfjarðar í flugvél. Og eftir því sem Örn Johnson flugmaður hefur sagt mér, er mjög auðvelt að lenda þar og hefja sig til flugs vegna þess, hve vatnið er stórt og djúpt. Ég skil ekki, að það sé neitt verra fyrir flugvélar að lenda eða taka sig upp þarna en á sumum öðrum stöðum, þar sem gert er ráð fyrir í brtt., að flugvellir skuli vera, t.d. hjá Þórshöfn og í Vopnafirði og á mörgum fleiri stöðum. Að mínu áliti er Ólafsfjörður ekki heldur svo þröngur fjörður, að erfitt sé að fljúga um hann. Ég hygg, að ekki sé verra að fljúga inn og út Ólafsfjörð en t.d. Siglufjörð. — Mér finnst, úr því að hv. samgmn. tók upp svo marga staði sem væntanlega lendingarstaði, að Ólafsfjörður gæti mjög auðveldlega verið þar með. Mér finnst ekki heldur, að það eigi að draga úr þessu, þótt gert sé ráð fyrir aðallendingarstað á Akureyri, vegna þess að Ólafsfjörður hefur ákaflega erfiðar samgöngur við Akureyri. Ég veit ekki, hvort menn átta sig á því, hve erfitt er fyrir Ólafsfirðinga að hafa samband við Akureyri. Það er útilokað að komast þangað nema sjóveg, ef haldið er sig við jörðina, og það er tiltölulega löng sjóferð. — Ég vil þess vegna leyfa mér að bera hér fram skrifl. brtt. við brtt. n., sem ég mun bráðlega afhenda hæstv. forseta, um, að Ólafsfjörður verði tekinn með í þeirri upptalningu, sem er í brtt. n.