05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

96. mál, flugvellir

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera margorður. Ég býst við, að það taki nokkuð langan tíma að koma upp öllum þeim flugvöllum, sem hér eru taldir í brtt. hv. samgmn., og er það að vonum, því að sums staðar kostar það stórmikið fé að koma upp slíkum lendingarbótum fyrir flugvélar. En t.d. í fjárlagafrv. nú eru áætlaðar 700 þús. kr. til þessara mála, og þar af er ætlað, að meira en helmingur fari til aðeins tveggja staða, Vestmannaeyja og Ísafjarðar, svo að við getum búizt við, að allmörg ár verði sumir að bíða eftir því að fá flugvélar til sín. Þess vegna álít ég áríðandi að velja þá staði til flugvallagerðar, þar sem lítið kostar að geta haft lendingarstaði fyrir flugvélar. En slíkir staðir eru til, að lítið þarf þar að gera, til þess að þar séu sæmilega góðir lendingarstaðir fyrir léttar flugvélar.

Ég er þakklátur hv. samgmn. fyrir það, að hún hefur fjölgað stöðum í mínu héraði, þar sem gert er ráð fyrir lendingarstöðum fyrir flugvélar, enda er þar nokkuð af söndum, þar sem tiltölulega ódýrt er að koma upp lendingarstöðum fyrir flugvélar. Ég sé, að í frv. ríkisstj., í 9. tölul. undir d. í 4. flokki, er gert ráð fyrir því, að flugvöllur komi á Geitasandi í Rangárvallasýslu. Og þar sem þetta frv. er útbúið af flugmálaráðunaut ríkisins og hann hefur tekið upp þennan stað og enn fremur þar sem búinn er að vera þarna flugvöllur í fjögur ár, þá kom mér það dálítið undarlega fyrir sjónir, að n. gerir till. um, að þessi staður verði felldur niður úr frv., en sett í staðinn: Á Rangárvöllum —; því að strax árið 1940, þegar brezka setuliðið kom hér, lét það á sínu fyrsta ári hér útbúa flugvöll á þessum stað. Og þessi staður liggur við þjóðveg í miðri Rangárvallasýslu. Það hérað er nokkuð stórt, og ég játa, að margir staðir þar geta komið til greina. En ég fullyrði, að þessi staður er beztur til þess að hafa þar flugvöll, vegna legu sinnar og eins vegna þess, að þar er þegar búið að útbúa flugvöll, þó að ekki hafi verið gert af okkur Íslendingum. Bretar lögðu mikla vinnu í það að tína grjót af sandinum á þessum stað og að þjappa völlinn til þess að undirbúa hann til lendingar fyrir flugvélar. Og þarna hafa flugvélar lent þangað til fyrir nokkrum dögum, þegar brezka setuliðið flutti burt af staðnum. Þess vegna legg ég til, að þessi staður verði tekinn upp í frv. og þar standi: Á Geitasandi í Rangárvallasýslu, — en ekki: Á Rangárvöllum, — annars mun ég koma fram með brtt. í þessa átt.