05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

96. mál, flugvellir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Ég vil þakka hv. samgmn. fyrir að hafa tekið til athugunar þau orð, sem ég lét falla hér við 1. umr. Ég hef tekið eftir því í ræðu hv. frsm., að eftir þeirri skilgreiningu, er fram kom í þeirri ræðu, þá er skilningur hv. n. á því atriði, er þar ræðir um, — nefnilega því, hversu með skuli fara, ef á einstökum stöðum af sveitarfélögum, bæjarfélögum eða einstökum mönnum hafa verið gerðar ráðstafanir að flugvallagerð eða lendingarbóta fyrir flugvélar, án þess að fé hafi verið veitt til þess sérstaklega í fjárl. í því skyni, — sá, að kostnaður við það greiðist af ríkissjóði. Mér fannst upphaflega, að það yrði þegar í byrjun að taka afstöðu til þessa, því að ekki er ólíklegt, að til einmitt slíkra kringumstæðna yrði komið. Ég sem sagt hef þar með yfirlýsingu hv. samgmn. um þennan skilning og tel alveg rétt, að slegnir séu þeir varnaglar, sem hv. samgmn. hefur gert í þessu efni, fyrir þátttöku ríkissjóðs síðar meir. En þeir varnaglar eru, eins og hv. frsm. tók fram og ég raunar minntist á við 1. umr. málsins, að verkið sé unnið undir eftirliti þess opinbera aðila eða ráðuneytis, sem með flugmálin fer á hverjum tíma í landi hér.