05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

96. mál, flugvellir

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki verða langorður. Það kom mér dálítið einkennilega fyrir sjónir, að hv. samþm. minn skyldi verða svo órólegur, þegar að því var spurt, hvers vegna breyta þurfti ákvæði frv. um flugvallarstað á Rangárvöllum. Hv. þm. N:-Ísf. veitti ráðning þeirrar gátu, breytingin var gerð að tilmælum flugmálasérfræðingsins 2. þm. Rang. (IngJ). Hann talar um að leggja valið undir dóm sérfróðra manna. Það er vitað, að sérfræðingar enska hersins eru búnir að velja milli staðanna og kusu hinn eystri, höfðu hann í fjögur ár fyrir flugvöll og héldu fjölda manns til að hreinsa hann og undirbúa sem lendingarstað fyrir flugvélar. Þar er því lokið miklu verki, sem gagn þyrfti að verða að. Báðir sandarnir eru eyðisandar, þar er lítill munur. Þm. gefur í skyn, að ég vilji fá flugvöll á Geitasandi af því, að hann sé nær Stórólfshvoli. Það getur ekki skipt mig neinu að fara þann spöl, sem um ræðir, milli sandanna. En þetta bendir til, að hv. samþm. skipti allmiklu persónulega, hvor staðurinn er valinn, Hellusandur liggur rétt hjá hans heimili.

Ég lít svo á, að flugvöllurinn eigi að koma þar, sem hann verður fullkomnastur, ódýrastur og fljótgerðastur, og þetta eru engin smáatriði við dýrar framkvæmdir, sem geta tekið áratugi. Val ensku sérfræðinganna getur ekki verið tilviljun, og þegar flugmálaráðunauturinn samdi frv., var hann ekki í vafa um, að flugvöllurinn ætti að vera á Geitasandi.