05.09.1944
Neðri deild: 44. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

84. mál, kjör forseta Íslands

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. Í stjórnarskránni er kveðið á um helztu höfuðatriði um kjör forseta, en í 5. gr. stjskr. segir, að ákveða skuli með l. um framboð og kjör forseta að öðru leyti en stjskr. mælir fyrir um. Ríkisstj. þótti sér bera skylda til nú þegar að verða við því fyrirlagi, sem stjskr. hefur að geyma, og hefur því tekið saman þetta frv.

Eins og við mátti búast er frv. að mestu leyti tilvísun til l. um kosningar til Alþ., því að kosningar forseta eiga samkv. stjskr. að fara fram á sama hátt. En hins vegar þurfti að skipa fyrir um þau afbrigði, af því að hér er um landskjör að ræða, sem þurfti að mæla sérstaklega fyrir um, þ.e., hvort setja ætti upp sérstaka stofnun, sem tæki yfir allt landið sem landskjörstjórn, eða notast við aðrar stofnanir, sem þegar eru fyrir hendi. Störf undirkjörstjórna og yfirkjörstjórna verða þau sömu og við kosningar til Alþ., meðan landskjör þm. var, en þó er ekki svo alveg, því að gert er ráð fyrir því, að yfirkjörstjórn telji upp atkv. í sínu kjördæmi. En þessi nýja yfirkjörstjórn, sem um ræðir í frv., er hæstiréttur. Honum skal falið það, sem annars yrði komið undir landskjörstjórn, en hér hefur hæstiréttur ekki annað að sýsla en fara með úrskurðarvald, sem honum hæfir sérstaklega vel að hafa á hendi.

Annars er frv. svo einfalt, að ég hirði ekki um að fara um það fleiri orðum, en vil óska þess, að því verði vísað til 2. umr. að -þessari umr. lokinni og þá líklega til stjskrn., sem hér er til í deildinni.